13.04.1928
Neðri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4801 í B-deild Alþingistíðinda. (4019)

153. mál, Seðlainndráttur Íslandsbanka

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Háttv. þm. Ísaf. hefir ekki misskilið mig. Jeg er á móti því, að þetta mál fari í nefnd, því að bæði, er það, að í því er ekkert nýtt, og svo hefir hv. fjhn. engan tíma til að sinna þessu máli og mundi því ekkert hafast upp úr því, þó því væri vísað til hennar. En um annað misskildi hv. þm. mig, er hann taldi, að jeg hefði sagt, að stjórnin hefði ekki rannsakað trygginguna fyrir Íslandsbankaláninu. Á þetta mintist jeg ekkert sjerstaklega, heldur vjek jeg aðeins að því, hvernig aðstaðan mundi framvegis verða gagnvart þessari stofnun. Og það var til þess að fá tíma til að athuga þetta, að farið var fram á þessa framlengingu. En það er því aðeins hægt, að gott næði fáist til þess. Út frá þessu sjeð er nauðsynlegt, að þetta nái fram að ganga, og stafar það alls ekkert af umhyggju fyrir bankanum sjálfum, heldur er það vegna atvinnuveganna og landsins í heild sinni.