16.04.1928
Neðri deild: 73. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4809 í B-deild Alþingistíðinda. (4028)

153. mál, Seðlainndráttur Íslandsbanka

Halldór Stefánsson:

Eftir þeirri einróma atkvgr., sem fram fór um þetta mál við 2. umr., býst jeg ekki við, að það hafi mikla þýðingu að lengja mikið umr. Það eru ekki sömu ástæður til þess að endurnýja þessa undanþágu og verið hefir. Fyr hafa verið nokkrar virkilegar ástæður fyrir henni, fyrst og fremst sú, að ekki væri endanlega búið að ráðstafa seðlaútgáfurjettinum. Auk þess var tilfært ástand viðskiftalífsins — það var orðað svo án þess frekara væri út í það farið —, og enn átti undanþágan að stuðla að því, að bankinn gæti sýnt meiri hlífð við viðskiftavini sína. Nú er ástandið breytt. Seðlaútgáfurjettinum hefir verið ráðstafað. En ef spurt er um ástæður, þá er kvartað yfir því; það er sagt, að það geti skaðað bankann og hafi skaðað hann, ef um það er talað, og það er borið fram, að þetta, að spyrja hóflega um bankann og aðstöðu bankans gagnvart ríkissjóði, sje að vekja óróa um bankann.

Í raun og veru eru það miklu minni ástæður nú en áður að gera þessa undanþágu. Bankinn hefir fyrirfram og að ástæðulausu sýnt viðskiftamönnum sínum harðræði, þótt undanþágunni væri meðal annars ætlað að gera það að verkum, að bankinn gæti sýnt þeim meiri hlífð. Það lítur því út fyrir, að það sje að lækka í verði fyrir bankann að fá þessu framgengt við þingið.

Ástand viðskiftalífsins er betra nú en á undanförnum árum, og hagur bankans líka, og ætti honum því að vera vorkunnarlaust að draga inn áskilinn hluta seðlanna á þessu ári. Þótt nefnd sje miljón, þá er það í raun og veru ekki meira en 375 þús., því að Landsbankanum er skylt að endurkaupa hinn hlutann.

Þótt Íslandsbanki fái að hafa seðla sína í umferð, þá er það ekkert aukið starfsfje í landinu. Landsbankinn myndi gefa út þeim mun meiri seðla, sem Íslandsbanki drægi meira inn. Hitt gæti hugsast, ef synjað væri um undanþáguna, að hluthafar bankans yrðu þá að leggja fram meira hlutafje, sem því svarar, er bankinn hefir tapað, og að þannig fengist aukið starfsfje. Það hefir verið upplýst við umr., að hluthöfunum hefir verið greiddur arður af hlutafjenu öllu, eins því, er telst tapað, svo að ekki er nema rjettmætt að krefjast þess, að þeir haldi því við.

Eins og vikið hefir verið að áður, er það til þess að gera ógreiðari síðustu og endanlega lausn þessa máls, því lengur sem það dregst, að bankinn fari að innleysa það, sem hann á eftir af seðlum sínum í umferð. Það mætti ef til vill geta þess til; að hjer lægi sá fiskur undir steini, að bankinn vildi hafa landsmenn sem mest bundna í viðskiftum við sig og geta haft víxilkröfur sínar hátt reiddar yfir höfði landsmanna, þegar að því kemur, að út rennur sjerleyfistími hans, svo að hann ætti þá betri aðstöðuna gagnvart þjóð og þingi.

En sem sagt sje jeg ekki ástæðu til langra umræðna. Það mun hafa verið ákveðið með atkvgr. við 2. umr., hvernig færi um þetta mál. En jeg get ekki frekar nú en áður greitt atkvæði með því. Jeg hefi frá upphafi verið á móti því.