11.02.1928
Neðri deild: 20. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1376 í B-deild Alþingistíðinda. (403)

6. mál, laun embættismanna

Frsm. (Hannes Jónsson):

Hv. þm. Dal. sagðist ekki vera því mótfallinn, að stj. rannsakaði þetta mál, en betra væri að skipa milliþinganefnd nú þegar. Mjer kemur þetta kynlega fyrir sjónir. Jeg veit ekki betur en að það væri hann og hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh), sem báru þá ósk fram í nefndinni, að sú leið yrði farin að vísa málinu til stjórnarinnar. Hv. þm. (SE) sagði, að ef skipuð yrði milliþinganefnd á næsta þingi, mundi sú nefnd skila svo seint af sjer, að stjórninni ynnist ekki tími til að ganga frá málinu fyrir 1930. Jeg hefi enga ástæðu til að ætla það. En hinsvegar er alveg óvíst, hvort þá, 1930,verður kominn tími til að ákveða hið endanlega skipulag launamálanna. Verðlag í landinu getur verið á þann veg, að enn þurfi að framlengja núgildandi ákvæði.

Hv. 2. þm. G.-K. sagðist vilja framlengja núgildandi ákvæði til ársloka 1929, í stað 1930. Það þykir mjer líka mjög kynlegt. Í nefndinni var hann okkur hinum algerlega sammála um, að samþykkja bæri frv. eins og það lá fyrir. Fyrirvari hv. þm. var aðeins um undirbúning þeirrar launalöggjafar, sem við tæki 1930. Þetta er bókað í fundargerð fjhn., og jeg skil ekki, að hv. þm. hlaupi frá því, sem hann hefir þar samþykt.