19.03.1928
Neðri deild: 51. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4831 í B-deild Alþingistíðinda. (4043)

64. mál, hvalveiðar

Frsm. minni hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Jeg ætla að svara fáeinum orðum hv. frsm. meiri hl., þó að jeg þurfi raunar litlu að svara. En viðvíkjandi því, sem jeg benti á ræðu hans í fyrra, þá finst mjer vafalaust, að hann hafi álitið, að sjerleyfið væri bundið við einn mann. Hann talar um það, að nú sje önnur stjórn o. s. frv. og telur það hafa breytt afstöðu sinni. Jeg er ekki vel kunnugur því, hvort þetta leyfi er bundið nema við einn mann, en grunur minn er sá, að það sje bundið við sama mann eða menn eins og í fyrra, og enda þótt stjórnin sje alt önnur, þá kemur það alt í sama stað niður; um leyfið er beðið til þess að það verði veitt.

Hv. þm. mintist á þann ótta hjá mönnum, sem hefði ráðið um lagasetningu áður um þetta efni. Það er rjett, að menn óttuðust, að síldin gengi ekki á miðin, ef hvalur ræki ekki á eftir. Slík trú er nú horfin. Það er kunnugt, að hvalirnir lifa fremur á átunni en síldinni, sem átuna eltir. Hv. þm. hefir bent á, að átan muni stundum ganga inn á firði og síldin sömuleiðis, og hvalirnir svo elta þessar torfur. Þessari skoðun hefir hv. þm. haldið fram áður. Jeg man ekki að vitna í dálka þingtíðindanna, sem þetta stendur í, enda legg jeg ekki svo mikið upp úr þessum fróðleik yfirleitt, því að það er vitað, að síldveiði hefir reynst jafnmikil fyrir og eftir að hvalir voru friðaðir.

Þá mintist hv. þm. örlítið á Færeyinga. Jeg get ekki gengið frá þeirri skoðun minni, að það sje mjög örðugt fyrir litla gufubáta að sækja þaðan norður í Grænlandshaf. Jeg veit, að það eru 60 mílur hjeðan frá ákveðnu nesi og til Færeyja, en ef þeir þurfa langt norður fyrir Langanes, getur mílnatalan farið að hækka. Má vera, að þeir geri þetta nú, en það er ekki upplýst mál hjer í umræðunum, hversu mikið þessar Færeyingastöðvar veiða við Ísland eða hvar í kringum landið þeir veiði hvalina, ef þeir þá veiða þá nokkra. Það er mjög hljótt um þær í blöðunum. Mig grunar, að þeir drepi ekki svo ýkja mikið af hvölum við Ísland.

Hv. þm. benti á það — sem jeg býst við, að sje rjett —, að ein tegund af þessum hvölum muni vera nálega gengin til þurðar, og mun það vera hinn svo nefndi hnúfubakur, en hjer við land eru aðallega þrjár tegundir veiddar, langreyður, hnúfubakur og steypireyður. Hnúfubakurinn, sem veiddur er mikið í suðurhöfum, er álitið að sje töluvert mikið genginn til þurðar.

Þá kem jeg að hv. þm. V.-Ísf. Hann var merkilega heitur, — heitari en jeg á venju til að heyra til hans, svo að mjer finst jafnvel, að jeg hafi snert hans hjartarætur óþægilega með því, sem jeg sagði. En jeg vil ekki segja um hann eins og máltækið hljóðar: „Sök bítur sekan“; því að jeg álít ekki, að hann meini annað en gott með því að bera frv. fram og telji það í raun og veru stefna til framfara.

Mjer skildist hv. þm. bera mjer á brýn skoðanaskifti. Jeg kannast ekki við slíkt, enda hefi jeg altaf verið á móti því, að gefin væru út sjerleyfislög um hvalveiðar. Og það er ekki lengra síðan en á þinginu 1925, að það var nokkurn veginn sammála álit löggjafanna, að framlengja bæri hvalafriðunarlögin. Síðan hefir þessari stefnu skotið upp með hv. þm. (ÁÁ).

Hv. þm. talaði um, að jeg sýndi þjóðernisrembing. Kalla má hann það hverju nafni, sem hann vill. En það skal jeg fúslega kannast við fyrir hv. þm., að þegar er að ræða um slíkt nýmæli, sem löggjafarnir hafa skirst við að taka upp, þá vil jeg, að rjetturinn sje trygður á innlendar hendur. Því að jeg er viss um það, að þó ekki sje farið fram á nema eitt sjerleyfi, þá munu fleiri á eftir fara, ef hvalvinsla þessi reynist arðvænleg. Og þar verður erfitt að standa á móti, ef um gróðavænleg fyrirtæki verður að ræða, og ekki síst ef útlendir menn sækja fast á. Annars hefi jeg yfirleitt þá trú, að þetta verði ekki svo arðvænleg veiði eins og hv. flm. mun álíta, vegna þess að margt bendir til, að færra sje um hvali kringum Ísland heldur en hann hyggur.

Hv. þm. mintist á ríkisrekstur. Jeg sagði þessi orð um það atriði: Ef virkilegur meiri hl. í Alþingi heimilar hvalveiðar hjeðan af Íslandi, þá er það ríkið eitt, sem ætti að hafa þetta sjerleyfi handa sjálfu sjer. Jeg stend við þá skoðun, ef menn á annað borð vilja ekki láta hvalina vera í friði, þá á ríkið eitt að hafa þann rekstur með höndum; með því er sennilega best trygt, að hvölunum verði ekki algerlega útrýmt. Hv. þm. sagði, að ríkisrekstar á þessum atvinnuvegi væri fjarri öllum möguleikum. Fyrir tíu árum mundi enginn hafa látið sjer detta í hug, að ríkið tæki að einhverju leyti síldveiðina í sína hönd. En það skipast svo margt á skömmum tíma. Stöðugt bryddir meira á þeirri stefnu, að ríkið eigi að hafa meiri afskifti af síldveiðunum en það hefir gert hingað til. Þess vegna áleit jeg ekki goðgá að segja, að ríkið mætti taka þátt í hvalveiðum, ef reynslan sýndi; að þær væru arðvænlegar.

Jeg benti á það í minni fyrri ræðu, að helst yrði þessi atvinna arðvænlega rekin með því að hafa mörg veiðiskip, til þess að stöðvarnar hefðu altaf nóg af hval til vinslu. Býst jeg við, að tvö skip yrðu alt of lítið, enda man jeg ekki til, að nokkur stöð hafi haft svo fá skip. (SvÓ: Ójú). Sú, sem var í nágrenni við mig, — ein af þeim allra minstu — hafði þrjá báta. Vesturlandsstöðvarnar á Dýrafirði, Önundarfirði og við Ísafjarðardjúp höfðu 3–6 báta.

Það er að vísu rjett viðvíkjandi þessu sjerleyfi, að það á að vera bundið íslenskum hlutafjelagslögum, — að meiri hluti fjármagnsins sje íslenskur. En það hefir nú komið upp hjer á Alþingi, að það er til nokkurskonar leyfi, sem menn halda, að sje á íslenskum höndum, en hefir verið vjefengt af hæstv. stjórn, að fjármagnið væri íslenskt. Og annað eins gæti skeð, að þó að þetta leyfi væri kallað á íslenskum höndum, að það væri það ekki. Jeg hefi að nokkru bent á, að það þurfi nokkuð mikið fjármagn til þess að reka þennan atvinnuveg með því sniði, að nokkrar líkur væru til arðs. Jeg get að vísu ekki rökstutt það nú þegar, hvað ein stöð mundi kosta með öllum útbúnaði. Það fer eftir bátafjölda og hve miklu henni er ætlað að vinna úr. Hv. þm. benti á, að stöðin gæti verið nokkurskonar síldveiðastöð. Jeg veit ekki, hvernig hann ætlar að samræma síldarvinslu og hvalvinslu. Nú vill svo til, að á þeim tíma, sem hvalir eru veiddir, í júlí og ágúst, þá stendur síldveiðin hæst. Ennfremur hygg jeg, að síldarbræðsla og hvalvinsla sje of ólíkt, að ekki fari vel á að reka hvorttveggja í sömu stöðinni í einu.

Á þessum stað, sem jeg hygg, að hv. þm. eigi við, er síldarbræðslustöð, og býst jeg við, að svo verði meðan mönnum þykir yfirleitt borga sig að veiða hana á þessum slóðum. Jeg býst ekki við, að það yrði ýkjamikill munur á þeim fjölda manna, sem mundi vinna við hvalvinslustöð eða síldarbræðalustöð, ef um annaðhvort væri að ræða. Jeg skal virða þá hugsun hv. flm. að vilja skapa fólki atvinnu, en jeg hygg, að jeg hafi sýnt fram á, að vinna muni lítið sem ekkert aukast við þetta.

Jeg skal ekki fara langt út í að deila við hv. þm.; jeg veit hann er miklu lesnari maður um líf hvala, friðun þeirra o. s. frv. en sumir aðrir. En jeg hefi kynt mjer þetta mál allmikið og jeg veit, að t. d. breskir vísindamenn hafa mikinn áhuga á hvalafriðun. Þeim er það máske eitthvað meira áhugamál vegna þess, að talið er, að í norskum hvalveiðastöðvum í suðurhöfum standi breskt fjármagn, og því í þeirra augum mikil hætta á, að alger útrýming hvalsins geti átt sjer stað, ef ekki er stefnt að friðun. Jeg hefi ekki nein vísindarit fyrir mjer hjer, en rit, sem vitna í vísindarit, að einmitt þessari stefnu um að friða hvalina sje að aukast fylgi í Englandi meðal þeirra manna, sem kynna sjer þessi mál sjerstaklega. En rjett er það, að tilraunir til merkingar hafa ekki getað gefið neina vissu um, hvort hvalategundir væru að ganga til þurðar. En jeg vil vitna í okkar fiskifræðing. Hann sagði mjer frá tilraunum breskra vísindamanna um þetta í viðbót við það, sem jeg áður hafði lesið. Hann ljet uppi þá skoðun við mig, að það væri ómögulegt að dæma um það, hvort hvölum hjer kringum land færi fækkandi eða fjölgandi. Hvort hann er með þessu frv. eða ekki, skal jeg ekkert um dæma. En jeg veit, að hann er vantrúaður á margt, sem leikmenn halda fram, t. d. það, að nytjafiskar geti gengið til þurðar með mikilli botnvörpuveiði; þar er hann á gagnstæðri skoðun við fjölda fiskimanna, sem byggja á reynslu sinni í þessum efnum.

Hv. þm. sagði, að ekki væri stefnt að því að eyða hvölunum. Það getur hann ekkert fullyrt um. Ef farið væri að gera mikið að því að drepa hvali í norðurhöfum, þá býst jeg við, að ekki sje svo mikil mergð af þessum dýrum, að ekki sje mögulegt að eyða þeim.

Að síðustu vil jeg geta þess um þetta sjerleyfi, sem jeg býst við, að útlendingar standi í raun og veru á bak við, að þeir virðast leggja talsvert upp úr þessu, að fá það. Jeg verð þá að endurtaka það, að það er rýr borgun fyrir leyfi eins og þetta, 500 kr. á bát. Já, mikið var, að þeir skuli ekki líka eiga að vera undanþegnir skattalöggjöf þeirri, sem við búum við, og hve mikið þeir greiða á þann hátt, fer vitanlega eftir því, hve mikið veiðist. Annars álít jeg, að þeir eigi að greiða meira af hverju hvalveiðaskipi en farið er fram á í frv.

Jeg ætla að vera kurteis við háttv. flm. og ekki láta reiðina hlaupa með mig í gönur, eins og henti hann, sem honum þó er óvanalegt. Hann kallaði þetta þjóðernisgorgeir hjá mjer, því að þetta væri mikið atriði fyrir verkamenn vestra. En jeg fæ ekki betur sjeð en hjer sje um það eitt að ræða, að veita nokkrum útlendum mönnum möguleika til þess að græða töluvert fje, ef veiði kynni að verða sæmileg, sem jeg satt að segja hefi ekki trú á, því að jeg veit ekki betur en sú sje reynsla Norðmanna, að þeir græði allverulega á þessari atvinnugrein í suðurhöfum. Jeg get því alls ekki fylgt þeirri stefnu að leyfa útlendingum að græða hjer fleiri miljónir króna án þess að íslenska ríkið hafi hinn minsta hagnað af því, annað en það, sem hver skattborgari verður að greiða í tolla. Jeg vil miklu fremur tryggja það, að ríkið fleyti þann rjóma, sem hægt er, af slíkum rekstri, ef upp yrði tekinn. Annars hefi jeg skilið háttv. flm. svo í mörgum öðrum málum, að hann sje ekki allfjarri þeirri stefnu sjálfur, sem hann kallar þjóðernisgorgeir hjá mjer, að vilja tryggja þjóðarbúinu sjálfu þau auðæfi, sem náttúra landsins hefir fólgin í skauti sínu.

Þá sagði hv. flm. að síðustu, að það myndi verða nauðsynlegt að taka nokkra útlendinga til að byrja með, til þess að kenna Íslendingum vinnuna. Þessu er jeg alveg á móti, því að jeg býst ekki við, að þetta myndu verða svo vandasöm störf, að Íslendingar gætu ekki tilsagnarlítið int þau af hendi. Það kynni þá helst að vera, að nauðsynlegt væri að fá hvalaskyttu. En annars er alt annað að fá erlenda menn til þess að kenna hjer störf heldur en að fá þá til þess að vinna verk, sem Íslendingar geta sjálfir unnið.

Þá virtist mjer hv. þm. vera hróðugur yfir því, að mál þetta myndi fara gegnum þessa hv. deild eins og á undanförnum þingum. Þetta má vel vera, en þó eru margir nýir þingmenn í deildinni, svo að vel getur aðstaðan hafa breytst. En fari svo, að það komist hjer í gegn, þá vona jeg samt, að Ed. verði sú sama „bremsa“ á það sem hún hefir verið áður, svo að það komist alls ekki gegnum þingið.