22.03.1928
Neðri deild: 54. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4844 í B-deild Alþingistíðinda. (4049)

64. mál, hvalveiðar

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg sje, að hv. 2. þm. Árn. ætlar að fylgja þessu frv., og leyfi jeg mjer hjer með að þakka honum fyrir það. Og jeg get tekið undir það með honum, að jeg vænti þess, að hæstv. atvmrh. veiti ekki öðrum fjelögum sjerleyfi en þeim, er fullnægja að öllu leyti þeim skilyrðum, er sett eru í þessu frv. og annari löggjöf. Jeg get ekki fallist á, að 10 ár sje of langur tími, því útbúnaður allur er dýr, og óhjákvæmilegt að ætla leyfishafa þennan tíma, ef reksturinn á að geta borið sig. Þjóðnýtingarhugmynd hv. þm. get jeg ekki fallist á, en álít þó, að þeir, sem vilja koma henni á, ættu að fylgja þessu frv., því á þennan hátt er hægt að eignast menn, er hefðu nægilega sjerþekkingu í þessum efnum, ef til þjóðnýtingar kæmi. Að því er snertir brtt. hv. þm., þá mun jafnerfitt að mæla á móti þeim og að tala fyrir þeim, því þær bæta engu við og fella ekkert niður. (MT: Hm, jæja).