16.04.1928
Efri deild: 72. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4850 í B-deild Alþingistíðinda. (4059)

64. mál, hvalveiðar

Jón Þorláksson:

Eftir atkvgr. um þetta frv. við 2. umr. þess þótti mjer vissara að gera ráð fyrir því, að það kynni að hafa nægilegt fylgi til að komast í gegnum þessa hv. deild. Þótt jeg sje mótfallinn frv., þá þótti mjer þó rjett, af þeim ástæðum, er fyr greinir, að bera fram brtt. um það atriði, er jeg tel alvarlegast og athugaverðast. Jeg vil, að því sje bætt við 2. gr. frv., að sjerleyfið sje bundið því skilyrði, að eingöngu sjeu notuð íslensk skip til veiðanna. Það gæti talist vafasamt, þar sem hvalirnir eru spendýr, hvort ákvæði fiskiveiðalaganna ná til hvalveiða. Þegar sú löggjöf var sett, voru hvalirnir alfriðaðir, og voru því ekki sett sjerstök ákvæði um það, hvort þau næðu til þeirra. Að svo miklu leyti, sem tilætlunin um framkvæmd þessarar heimildar er að nota útlend skip til veiðanna, er nauðsynlegt að taka af allan vafa um það, að þessi veiði sje sömu skilyrðum bundin og önnur veiði. Að leyfa útlendum skipum veiðarnar er svo hættulegt fyrir alla aðstöðu okkar um að halda uppi löggjöf okkar um fiskiveiðar, að jeg tel fótunum kipt undan henni. Ef það er leyft, eða látið ótalið, að útlend skip hafi aðgang að íslenskri höfn til að stunda þaðan hvalveiðar, þá verður erfitt að standa móti öðrum þjóðum, er gera kynnu kröfur til hins sama fyrir fiskiveiðiskip sín. — Þessa hætta vildi jeg fyrirbyggja og kom því fram með þessa brtt.