24.01.1928
Neðri deild: 5. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í B-deild Alþingistíðinda. (4073)

Kjörbréf Jóns Auðuns Jónssonar

Magnús Guðmundsson:

Má jeg aðeins — úr því að hæstv. fjmrh. (MK) er ekki kominn inn í deildina leyfa mjer að gera örstutta athugasemd um þingsköp. Það er viðvíkjandi nefndinni, sem kosin var til þess að athuga kosningu Jóns Auðuns Jónssonar, að hún er ekki farin að vinna neitt enn, þótt liðnir sjeu nú fimm dagar frá því að þing var sett.

Það var sagt í nefndinni, að það þyrfti að bíða eftir skjölum, sem kæmu norðan af Ströndum. Þau komu í gær, og sje jeg ekki betur en alhægt hefði verið að kalla saman fund í gærkvöldi eða í morgun. En þetta var ekki gert, og sem sagt, nefndin hefir ekki gert neitt ennþá.

Nú vildi jeg beina þeirri ósk til hæstv. forseta, hvort hann gæti ekki reynt að beita sjer fyrir því, að nefndin færi að starfa. Mjer virðist það í meira lagi óviðkunnanlegt, að ekki sje reynt að flýta máli eins og því, hvort þingmenn, sem kjörnir eru og kjörbrjef hafa, eigi að fá að sitja hjer á þingi eða ekki. Því að ef svo er, að ónýta eigi kosninguna, þá má ekki minna vera en að ný kosning geti farið fram sem fyrst, svo að kjördæmið sje ekki svift sínum rjetti óþarflega lengi.