27.01.1928
Sameinað þing: 2. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í B-deild Alþingistíðinda. (4077)

Kjörbréf Jóns Auðuns Jónssonar

Hjeðinn Valdimarsson:

Það virðist ekki svo mikill skoðanamunur innan meiri hl. kjörbrjefanefndar, að íhaldshelmingurinn telji ástæðu til þess að taka til máls á eftir frsm. (SvÓ). Veldur því mest, að þeir eiga að heita hver úr sínum flokki, að aukaálit kemur frá öðrum helmingnum.

Það er einkennilegt við þetta mál, að það er í fyrsta sinn, þegar Alþingi úrskurðar um kjörbrjef, að stórkostlegir glæpir eru þegar sannaðir í sambandi við kosninguna. En þess ber að gæta, að æðimiklar misfellur hafa oft verið á kosningum áður. Jeg vil aðeins drepa á kosninguna í Norður-Ísafjarðarsýslu árið 1919. Þá kom fram kæra yfir kosningu sama frambjóðandans, Jóns A. Jónssonar. Málið var lagt fyrir kjörbrjefanefnd, en álit hennar kemur fyrst fram 1921 og er á þá leið, að gallar muni vera á kosningunni og meðal annars hafi sannast, að mútur hafi átt sjer stað. Bjarni nokkur Bjarnason keyrari hafi orðið uppvís að því að bera fje á menn til þess að kjósa Jón Auðun Jónsson og greitt það.

Leggur nefndin til, að málinu sje haldið fram til frekari rannsóknar. En þáverandi stjórn, er Jón Magnússon og Magnús Guðmundsson áttu sæti í, ljet það sofna í höndum sjer, og var því ekki meira hreyft.

Árið 1923 kemur kæra frá Ísafjarðarkaupstað um það, að svo miklar misfellur hafi orðið á kosningu til Alþingis í því kjördæmi það ár, að það beri að rannsaka. Er því haldið fram, að sá, er kjörbrjef hlaut, sje ranglega kosinn. Þetta kemur svo til kasta þingsins að úrskurða um, og úrskurður þess er á þá leið, að viðkomandi þingmaður sje kosinn rjettilega með 1 atkvæðis mun. Til hins eru ekki ráðstafanir gerðar, að rannsókn fari fram um kæruatriði þau, er kæruskjalið tekur fram og aðallega beinast að bardagaaðferð íhaldsflokksins á Ísafirði. Nú er þetta mál kemur upp hjer, er rjett að minnast þess, að miklar líkur eru til, að árið 1923 hafi farið fram fölsun á atkvæðum til handa Sigurjóni Jónssyni, er kjörbrjef hlaut sem þingmaður Ísafjarðarkaupstaðar. Með öðrum orðum, að einn íhaldsþingmaður hafi verið kosinn með fölsuðum atkvæðum, íhaldsstjórn komist að í landinu þess vegna og stuðst við falsaðan meiri hluta í þinginu.

Árið 1923 var Jón Auðunn Jónsson, sami frambjóðandi sem nú, kosinn í N.-Ísafjarðarsýslu. Kærur komu að vísu ekki fram yfir þeirri kosningu, en alment var álitið, að mjög miklar misfellur hefðu átt sjer stað í sambandi við hana, eins og raunar víðar, þar sem heimakjör gekk lengst. Nú verða enn uppvís svik og glæpir í sambandi við kosningu þessa sama frambjóðanda. Og það virðist sem meiri hl. telji ekkert einkennilegt nje athugavert við það, að slíkt skuli koma fyrir ár eftir ár á sama stað við kosningu sama manns og með stuðningi sama flokks.

Það er margt, sem sannast hefir við rannsókn setudómarans í þessu máli. Meðal annars það, að fölsuð hafi verið 10 atkvæði í Hnífsdal og 1 í Ögurhreppi. Þar að auki er sannað, að þessi atkvæði eru ekki öll úr N.-Ísafjarðarsýslu, heldur og úr Strandasýslu og Ísafjarðarkaupstað. Ef einn maður væri að valdur, er heldur ósennilegt, að hann færi að láta fölsunina ná út fyrir sitt kjördæmi. Alt bendir til þess, að hjer sje beinlínis um skipulagsbundna fölsun að ræða. Öll eða flest atkv. að minsta kosti hafa gengið í gegnum kosningavjel íhaldsins þar vestra, íhaldskosningaskrifstofuna á Ísafirði. Eftir því sem rannsókn setudómarans ber með sjer, þá virðist ekki aðeins vera um að ræða fölsun, heldur og endurfölsun á atkvæðum. Þar að auki hefir einn maður borið í rjetti, að sjer hafi verið boðnar mútur, og fengið greitt mútufjeð eftir að hafa kosið Jón Auðun Jónsson, af syni þess sama manns, er uppvís varð að mútugjöfum í kosningunum 1919.

Þá má benda á, hvernig íhaldið vestur þar tók rannsókn þessa máls, og framkomu blaðs þeirra, Vesturlands. Í hverju einasta tölublaði er ráðist með svívirðingum á rannsóknardómarann og reynt á alla lund að gera rannsókn hans tortryggilega. Tveir menn úr þeirra flokki eru staðnir að því að ljúga fyrir rjetti. Þegar á að taka fasta þá ákærðu í Hnífsdal, af því að ástæða var til að ætla, að þeir einir hefðu haft aðstöðu til þess að drýgja glæpinn, þá er þess varnað af íhaldsmönnum þarlendis. Og bæði Morgunblaðið og Vesturland voru mjög kampakát yfir því, að liðsafnaður var hafinn gegn rannsóknardómaranum. Má þá og benda á það, hvernig sjálfur frambjóðandinn, Jón Auðunn Jónsson, fer að ráði sínu, er fyrir hann eru lagðar í rjetti tvær spurningar, sem honum bar að svara refjalaust. Þá rýkur hann upp og lætur bóka svofeld ummæli, sem jeg, með leyfi hæstv. forseta, ætla að lesa upp:

„Jeg vil þegar taka það fram, að það er til þess að hlýðnast fyrirmælum laganna, að jeg mæti fyrir þessum rjetti. Hinsvegar dylst mjer ekki, að í rannsókn þessa máls eru farnar mjög óvenjulegar leiðir og svo virðist, sem rannsóknin beri fullkominn blæ hinna pólitísku skoðana ráðunauta rannsóknardómarans. Af þessu leiðir, að jeg hefi styrkst í því áliti mínu, að málið sje hafið og því fram haldið til þess að fá einhverja átyllu til þess að kæra kosninguna í Norður-Ísafjarðarsýslu.“

Það er ekki eins og hv. 1. þm. S.M. (SvÓ) segir, að þessi bókun stafi af gremju yfir þessum ósköpum, sem framin hafa verið. Í ummælunum lýsir sjer blátt áfram gremja yfir því, að verið sje að rannsaka kosningasvikin í Hnífsdal.

Háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) gat um símskeyti, er honum hafa borist sem svar við fyrirspurn um, hvað sje gert í samskonar tilfellum og þessu á Norðurlöndum. Mjer skilst af þeim, að í Noregi sje þeirri reglu fylgt, að ónýta því aðeins kosningu, að misfellur, sem kært er yfir, hafi getað haft áhrif á úrslit kosningarinnar, og í Danmörku sje farið að á svipaðan hátt, nema ef misfellur eða svik koma fram af hendi kjörstjórnar. Nú er þess að gæta, að hreppstjórinn í Hnífsdal verður í þessu tilfelli að skoðast sem kjörstjóri á þessum stað. Það er sannað, að hann er mjög viðriðinn glæpinn, og í öðru lagi má færa líkur til þess, að misfellur þær, er átt hafa sjer stað í sambandi við kosningaskrifstofuna á Ísafirði, hafi verið miklu víðtækari en nokkurn grunar og því getað haft áhrif á úrslit kosninganna. Því að það er upplagt mál, að einn maður hefir engin áhrif móts við það, sem heil skrifstofa getur haft.

Í móðurlandi þingræðisins, Englandi, mun miklu harðar tekið á slíku en lýsir sjer í skeytum þessum. Þar má aðeins lítið fje nota við kosningar, og verður að gera nákvæma grein fyrir því öllu. Ef það fer fram úr ákveðinni upphæð, er það talið vítavert og kosningin er gerð ógild. Ef upp koma svik í sambandi við kosningu, þá er hún gerð ógild fyrir þeim, er þau hafa verið framin til framdráttar fyrir, og mun mótframbjóðanda vera veitt kjörbrjef í hans stað. Jeg vil að vísu ekki hvetja til þess, að sú aðferð verði upp tekin hjer. En ekki kemur til mála að láta þannig kosinn þingmann fljóta inn orðalaust. Hann á að bera ábyrgð á skipulagsbundinni starfsemi stuðningsmanna sinna. Ný kosning í Norður-Ísafjarðarsýslu er krafan, sem knýja verður fram. Jeg verð að segja það, að ef á að fara að taka þessa kosningu gilda, þá er það meira en lítið varhugavert fordæmi. Því að hvar eru þá takmörkin? Hversu langt er óhætt að fara út á þá braut, að nota svik og mútur til þess að hlaða undir frambjóðanda sinn, án þess óttast þurfi, að kosning verði gerð ógild fyrir þær sakir? Hvernig verður þá næsta kosning í Norður-Ísafjarðarsýslu?