27.01.1928
Sameinað þing: 2. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í B-deild Alþingistíðinda. (4078)

Kjörbréf Jóns Auðuns Jónssonar

Magnús Guðmundsson:

Jeg tel mig neyddan til að skýra frá afstöðu minni til þessa máls í kjörbrjefanefnd. Um leið ætla jeg að nota tækifærið til þess að skýra frá, hvað gert hefir verið í nefndinni. Það er nú vika síðan þing kom saman og nefnd þessi var kosin. Því er ekki úr vegi að athuga, hversu vel tíminn hefir verið notaður. Því var haldið fram af formanni nefndarinnar, að frestunin væri til þess gerð að afla sjer nýrra upplýsinga í málinu. En þá er spurningin: Hvað hefir nefndin gert til þess að útvega þessar upplýsingar og hvaða upplýsingar hafa fengist? Í marga daga var beðið eftir rannsóknardómaranum. Hann átti að leggja fram einhver ný plögg í málinu. En er til kom, þurfti ekki annað en orð dómarans um það, að ekkert væri fram komið við rannsókn málsins, er benti til þess, að Jón A. Jónsson væri á nokkurn hátt við það riðinn, til þess að sannfæra háttv. samnefndarmenn mína, háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) og hv. 2. þm. Rang. (GunnS), um það, að ekkert væri því til fyrirstöðu að taka kosninguna gilda. Nú er það auðsætt, að alhægt var að fá orð rannsóknardómarans fyrir þessu símleiðis hvenær sem var. Það hefði því legið nær að láta nægja, til þess að flýta störfum nefndarinnar, svo sem skylda bar til, að síma til dómarans, úr því ekki þurfti meira við en þetta. Raunar gat hver maður sagt sjer sjálfur, þar sem búið var að birta allnákvæman útdrátt af málsrannsókninni eftir skýrslu setudómarans, bæði í Tímanum og Alþýðublaðinu, að ekkert slíkt, sem störf nefndarinnar voru nú látin stranda á, var fyrir hendi. Því að nærri má geta, að ekki hefði það verið látið liggja í láginni, ef eitthvað það hefði vitnast, er snerti illa þennan frambjóðanda, Jón A. Jónsson.

Þegar nefndin fjekk skjölin frá setudómaranum, var af meiri hluta nefndarinnar ekkert átt við þessi skjöl. Lesin voru upp að vísu ummæli þau, er JAJ ljet bóka í rjetti 11. nóv. síðastl., en þau voru áður prentuð í Tímanum, svo að þar var ekki um neitt nýtt að ræða. Niðurstaðan er því sú, að af hálfu nefndarinnar hefir engin rannsókn farið fram, er jeg hafi verið viðriðinn. Það eina, sem gert hefir verið, er það, að rannsóknardómarinn var spurður, hvort hann hjeldi, að JAJ væri á nokkurn hátt í vitorði með kosningafölsurum þar vestra, og hann lýsti því yfir, að svo væri ekki, að því er rannsókn málsins benti til. Háttv. minni hl. nefndarinnar (HjV) tók rjettarbókina og færði á burt með sjer og hafði undir höndum meðan hann samdi nál. sitt. Hvort hann hefir samið það sjálfur eða haft aðstoð til þess, veit jeg ekki.

Formaður nefndarinnar, hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), las upp símskeyti utanlands frá um það, hverjum reglum sje fylgt í hliðstæðum tilfellum í nágrannalöndunum. Mjer þykir það í meira lagi undarlegt af hv. form. (SvÓ) að láta ekki aðra nefndarmenn vita, að hann væri að grenslast eftir þessu. Jeg hjelt þó, að það væri það minsta, sem nefndarmenn ættu heimting á að fá að vita, hvað væri verið að gera. (SvÓ: Þessi símskeyti komu ekki fyr en eftir að nefndin hafði lokið störfum). En var þá ekki símað utan áður? (Svb: Jú). Nú, það er nú einmitt það, sem um er að ræða. Jeg skil ekki í, að það væri slíkt launungarmál, að sjálfir nefndarmenn mættu ekki hafa vitneskju um það. Eins var það, að 3 nefndarmanna fóru á fund rannsóknardómarans án þess að við hv. þm. Dal. (SE) værum tilkvaddir. Jeg bjóst við, að dómarinn yrði kvaddur á fund nefndarinnar, og hefði það óneitanlega verið viðurkvæmilegast. En hinsvegar skal jeg viðurkenna, að þessi vangá kom ekki að sök, af því að svör hans voru svo skýr, að háttv. form. nefndarinnar var, er hann kom af fundi hans, fastlega sannfærður um, að hjer væri ekki um neitt að ræða, er hægt væri að hengja hatt sinn á.

En um efni símskeytanna vildi jeg aðeins segja það, án þess jeg vilji á nokkurn hátt gera lítið úr þeim stuðningi, er þau veita, að okkur ber fyrst og fremst að fara eftir okkar eigin lögum og þeirri „praksis“, er hjer hefir skapast, en hún er sú, að ekki er hróflað við kosningu, ef misfellur, er kærðar eru og sannast kunna, geta ekki hafa haft áhrif á endanlega niðurstöðu kosningarinnar.

Hv. frsm. meiri hl. (SvÓ) bætti því við, og hafði það, að mjer skildist, eftir rannsóknardómaranum, að rannsóknin afsannaði alls ekki, að Jón Auðunn Jónsson hefði getað átt grunsamlegan þátt í kosningunum. (SvÓ: Jeg tók þetta fram frá sjálfum mjer). Það getur verið, en jeg tók svo eftir, að hann hefði þetta eftir rannsóknardómaranum. En hvað sem er um það, þá get jeg ekki stilt mig um að benda hv. þm. (SvÓ) á, að skjöl þessi afsanna heldur ekki, að hv. frsm. (SvÓ) hafi tekið þátt í kosningunum á grunsamlegan hátt. Svona lagað má altaf segja.

Þá mintust þeir, hv. frsm. (SvÓ) og hv. 2. þm. Reykv. ( HjV), á svigurmæli þau, sem Jón Auðunn Jónsson hafði haft við rannsóknardómarann og látið bóka. Jeg er alls ekki að mæla þeim bót. Þau voru ótilhlýðileg. En slík ummæli varða ekki því, að tekin sje af honum þingmenskan. Við þeim liggur alt önnur hegning, ef þau teljast hegningarverð.

Þá virtist hv. 2. þm. Reykv. telja það einna mesta sönnun fyrir sekt Jóns Auðuns í þessu máli, að fram hefðu komið kosningakærur frá Ísafirði 1919 og 1923. En jeg fæ ekki sjeð, hvernig það á að sanna sekt JAJ nú, þó að einhverjir kunni að hafa hagað sjer illa 1919 eða 1923. Þær kosningarkærur er ekki hægt að taka upp nú. (HjV: Ef um glæpsamlegt athæfi hefir verið að ræða). Já, en þá er að refsa fyrir það, sem þá hefir verið glæpsamlegt aðhafst, en það kemur ekki þessari kosningu við.

Þá var þessi hv. þm. að tala um, að þingmaður Ísafjarðarkaupstaðar frá 1923 til 1927 hefði setið á þingi vegna falskra atkvæða. En slíkt kemur ekki þessu máli meira við en þó t. d. drepinn hefði verið maður suður á Írlandi kosningardaginn. Annars finst mjer miður sæmilegt af þessum háttv. þm. að nota þinghelgina til þess að svívirða aðra flokka og bera þá röngum sökum; það er síst betra en annað, sem hann hefir átalið aðra fyrir.

Ekki vissi jeg, hvað hann átti við, þegar hann var að tala um, að sumt af þessum fölsuðu seðlum hefði gengið í gegnum Skrifstofu Íhaldsflokksins á Ísafirði. Jeg veit ekki betur en það sje einmitt verkefnið, sem slíkar skrifstofur hafa, að taka á móti kosningaplöggum, hverju nafni sem þau nefnast. Er það ekkert sjerstakt fyrir kosningaskrifstofur Íhaldsflokksins. Eiga þar kosningaskrifstofur allra flokka óskift mál. Annars er hægt að sanna, að þessir umræddu seðlar hafi gengið gegnum fleiri hendur. (HjV: Já, bæjarfógetans og skrifara hans). Já, og fleiri. (HjV: Hálfdánar). Enn fleiri.

Það, sem þessi háttv. þm. var að vitna í lögreglurjettarbók rannsóknardómarans, læt jeg liggja á milli hluta. Hann hafði einn nefndarmanna tækifæri til að kynna sjer bókina, en til þess hafði jeg ekki tækifæri. Jeg lagði alla áherslu á að flýta málinu, og sá hinsvegar, að í bókinni var ekki hægt að fræðast um annað en það, sem rannsóknardómarinn vissi. En háttv. 2. þm. Reykv. hefir talið sjer nauðsynlegt að athuga rjettarbókina, ef ske kynni, að hann gæti aflað sjer þar einhvers til þess að fleipra með.

Þá nefndi þessi hv. þm. óeirðirnar í Bolungarvík. Um þær er það sama að segja og margt annað, sem nefnt hefir verið í sambandi við þetta mál. Þær koma ekkert við kosningu þessa manns. Og vilji hv. þm. eigna Íhaldsflokknum þær, þá mun auðvelt að sýna fram á og sanna, að þar voru ekki eintómir íhaldsmenn að verki.

Að síðustu vil jeg vekja athygli hv. þingmanna á skeyti því, sem lesið var hjer upp af hæstv. forseta í fundarbyrjun og lagt hefir verið fram í lestrarsal þingsins. Það sýnir, að um þetta kosningarmál er svo mikill hiti í Norður-Ísafjarðarsýslu, að þrátt fyrir erfiðar samgöngur um hávetur, þá koma saman 24 fulltrúar úr 8 hreppum. Aðeins kemur enginn úr afskektasta hreppi sýslunnar. Mótmæla þessir fulltrúar í einu hljóði aðförum Alþingis í þessu máli. Jeg hefi heyrt, að í Hnífsdal hafi allir greitt atkvæði með því að halda þennan mótmælafund, og er þó vitanlegt, að þar er fjöldi kjósenda, sem er andvígur Jóni A. Jónssyni.

Skal jeg svo ekki hafa þessi orð mín lengri, en jeg vil mælast til þess, að þeir hv. þm., sem kynnu að þurfa að svara mjer, vildu geyma það þar til dálítið síðar, því að kl. 3 þarf jeg að vera við jarðarför.