27.01.1928
Sameinað þing: 2. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í B-deild Alþingistíðinda. (4079)

Kjörbréf Jóns Auðuns Jónssonar

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg býst ekki við, að það, sem jeg ætla að segja, þurfi að tefja hv. 1. þm. Skagf. (MG) frá jarðarför sinni. (MG: Jeg ætla ekki að vera við mína jarðarför). Jeg hjelt einmitt, að háttv. þm. ætlaði að fara að fylgja Íhaldinu til grafar.

Mál það, sem hjer er til umræðu, er alveg einsdæmi í þingsögu Íslendinga. Fyrir því eru sem betur fer engin fordæmi. Hjer er því ekki hægt að fara eftir neinu því, sem áður hefir átt sjer stað. Með atkvæðagreiðslunni er því verið að gefa fordæmi, þar sem kveðinn verður upp úrskurður um kosningu, sem sannanlegt er, að mikil svik hafa verið viðhöfð.

Jeg fæ ekki betur sjeð en það hafi verið hárrjett af hv. form. kjörbrjefanefndar (SvÓ) að afla sjer vitneskju um það hjá nágrannaþjóðum, sem hafa meiri reynslu í hinum nýrri þingvenjum en við, hvernig á slík mál sem þetta er litið hjá þeim, og mjer þykir illa farið, að þeir hv. 1. þm. Skagf. og háttv. þm. Dal. skuli hafa rekið svo eftir, að mál þetta væri tekið fyrir, að ekki var beðið eftir skeyti um þetta efni frá Englandi, því eins og kunnugt er, hefir sú þjóð mesta og lengsta parlamentaríska reynslu af öllum þjóðum heimsins. Hefði jeg því talið sjálfsagt, að beðið hefði verið með mál þetta, þangað til það skeyti var komið.

Sú venja hefir verið hjer, að taka kosningar gildar, ef misfellur þær, sem á þeim hafa verið og yfir hefir verið kært, hafa ekki getað breytt niðurstöðum þeirra. Hefir þá vitanlega ekki komið til greina annað en almennar misfellur, sem stafað hafa annaðhvort af þekkingarleysi eða gleymsku, t. d. það, sem sannaðist um hreppstjórann í Bolungarvík, að hann hafði gleymt að bóka, að hann hafði aðstoðað tvo kjósendur við kosninguna. Þess háttar er ekkert glæpsamlegt athæfi. — En þrátt fyrir þessa venju, hefir Alþingi stundum kveðið upp harða dóma út af misfellum á kosningum, t. d. 1912, þegar það tók gilda kosninguna í Vestur-Ísafjarðarsýslu, enda þótt þingmaðurinn væri í stórum minni hluta í samanburði við andstæðing sinn, sem ekki fjekk kjörbrjef, af því að milli 20-30 af kjósendum hans höfðu í ógáti tvíbrotið seðlana. Þarna voru þeirra tíma íhaldsmenn að verki, og verður ekki annað sagt en þeir hafi virt kjósendaviljann að vettugi. En hart var fyrir sjera Kristin Daníelsson að þurfa að hlíta slíkum úrskurði.

Í þau tvö skifti, sem sterkur grunur hefir legið á, að fölsun hafi átt sjer stað við kosningar, sem sje við kosningarnar á Ísafirði 1919 og 1923, tók þingið á þeim linum tökum, og um það má mest kenna 1. þm. Skagf. ( MG), því að hann átti sæti í stjórninni eftir báðar þessar kosningar. Í fyrra skiftið var rannsókn beint fyrirskipuð, en stjórnin svæfði málið.

Jeg vil geta þess, að jeg hefi í gær haft tækifæri til þess að sjá heimakosnu atkvæðin frá Ísafirði frá 1923. Þau eru geymd hjer hjá skrifstofustjóra Alþingis. Og það verð jeg að segja, að jeg tel þau miklu merkilegri plögg sem gögn í glæpamáli en seðla þá, sem taldir eru falsaðir í hinu svo nefnda Hnífsdalsmáli.

Eins og kunnugt er, eru rithendur manna með ýmsu móti, engar eins. Það fyrsta, sem vekur athygli, þegar litið er á þessi heimakosnu atkvæði, er skriftarmismunurinn á seðlum frambjóðendanna. Á seðlum Haralds Guðmundssonar er skriftin eins og gengur og gerist með ýmsu móti, sumir skrifa t. d. allra efst á seðilinn, eins og gerist um viðvaninga, sem sjaldan handleika penna. Hjá öðrum hallast nafnið mikið, eins og oft vill vera hjá þeim mönnum, sem lítt eru æfðir skrifarar. En á seðlum Sigurjóns Jónssonar, eitthvað liðlega 30, getur maður sagt að sje ljómandi skrift. Stingur hún mjög í stúf við skriftina á seðlum Haralds og við alt það, sem jeg þekki af þessu tægi. Seðlar Sigurjóns eru skrifaðir með æfðri hönd og nöfnin sett á seðilinn miðjan. Það má nú kannske segja, að þessir kjósendur Sigurjóns hafi verið miklu mentaðri en hinir, en þá kemur hitt, að helst lítur út fyrir, að þeir hafi allir lært skrift hjá sama manni, en það verð jeg að efa, því að skriftarkensla er vart á hærra stigi þar vestra en annarsstaðar. Læt jeg svo þetta nægja að sinni um kosninguna á Ísafirði 1923, en vel má vera, að hægt verði að taka hana til rannsóknar að nýju.

Hvað snertir kosningu þá, sem hjer er til umræðu, þá má það heita nokkurnveginn fullsannað, að við hana hafi verið höfð þau vinnubrögð, sem ekki hafa áður þekst í þingsögu okkar, eða að minsta kosti ekki orðið uppvís. Er því í þessu tilfelli ekki hægt að fara eftir þeim venjum, sem áður hafa tíðkast hjer. Það sem því verður hjer gert, þegar atkvæði verða greidd um kosningu þessa, er það, að skapa nýtt fordæmi fyrir síðari þing til þess að fara eftir, þegar um svik og fölsun við kosningar verður að ræða. Jeg harma því, að ekki skuli hafa verið beðið eftir að fá upplýst til fulls fyrir atbeina sendisveitar okkar í Kaupmannahöfn, hvað Englendingar mundu gera þegar svona stendur á. En eftir því, sem jeg veit best, þá mun sá siður vera í Englandi, ekki aðeins að ógilda kosningu þingmannsefnis, sem hefir haft gagn af falsi og svikum, heldur tekur enska þingið mótkandídatinn, þegar það sannast, að frambjóðandinn sjálfur eða nánasta fylgilið hans hafi verið viðriðinn svik eða fölsun í sambandi við kosningarnar.

Það er nú síður en svo, að jeg sje með því, að mótkandídat Jóns A. Jónssonar væri fengið kjörbrjef fyrir Norður-Ísafjarðarsýslu að svo komnu máli. Jeg segi aðeins frá þessu til þess að sýna fram á, hve föstum tökum hin merka enska þjóð tekur á slíkum misfellum sem þessum, og þetta er alveg í samræmi við þá drengskaparvenju, sem myndast hefir í ensku þjóðlífi og nefnd hefir verið „fair play“. Hjer kom fyrir atvik síðastliðið sumar hjá íþróttamönnum okkar, sem sýndi það, að almenningur hjer er í þessu efni líkur Englendingum. Merkur hlaupari, sem þreytti kapphlaup, sló keppinaut sinn kinnhest meðan á hlaupinu stóð. Íþróttamennirnir voru ekki svo fljótir sem skyldi að hegna brotinu með því að gera hinn gamla sigurvegara leikrækan. En almenningur fann, að hjer var brotin sjálfsögð drengskaparregla í leiknum og ljet undir eins í ljós á viðeigandi hátt dóminn yfir hinum seka. Þetta tel jeg gott dæmi um heilbrigða þjóðarmeðvitund. Vonandi standa þingmenn ekki að baki kjósendum. Ef þetta hefði komið fyrir í Englandi, hefði engin stjórn íþróttamála og engin tegund áhorfenda þolað það.

Við Íslendingar erum sennilega ekki búnir að læra til fulls leikreglur enskra stjórnmálamanna. Jeg er hræddur um, að sumir íhaldsmenn og blöð þeirra eigi þar mikið ónumið. Og jeg vil bæta því við, að þessar misfellur á leikreglum okkar hafa hvergi lýst sjer betur en í Hnífsdalsmálinu. Við kunnum ekki að taka ósigri í leik, viljum bolast til sigurs og láta knje fylgja kviði; og okkur skiftir engu þó að sigurinn sje unninn með ofbeldi og svikum. Hjá okkur er sigurinn fyrir öllu, en ekkert um það hirt, hvernig til hans er unnið.

Nú er það spurningin: Eigum við að taka upp í opinberu lífi leikregluna um „fair play“, eins og hún hefir þroskast í gegnum margar kynslóðir hjá okkar stóru frændþjóð Bretum, eða eigum við að halda áfram að lifa undir sömu reglum og frummaðurinn, láta knje fylgja kviði í allri viðureign eins og enn tíðkast hjá villimönnum, þar sem hnefarjetturinn ræður og þeim sigurinn vís, sem nógu eru sterkir og einskis svífast?

Eigum við að fylgja ensku drengskaparreglunni, setja harðari kröfur um framkomu manna opinberlega, eða eigum við að fylgja Hnífsdalsreglunni?

Jeg svara hiklaust: við eigum að fylgja dæmi Englendinga og annara þroskaðra þjóða. Við eigum að fylgja strangari reglunni og höfum gott af því.

Út frá þessu, sem jeg hefi nú sagt, ætla jeg að víkja að sjálfu Hnífsdalsmálinu, sem hjer er til umr., og rökstyðja það, hversvegna eigi að ógilda kosningu Jóns Auðuns Jónssonar.

Jeg skal taka það fram strax, að jeg dreg ekki í efa, að Jón Auðunn Jónsson hafi haft meiri hluta heiðarlega greiddra atkv. við kosninguna 9. júlí, og jeg efast heldur ekki um, að hann mundi vinna nýja kosningu, þótt engin svik væru höfð honum til stuðnings.

En það er vegna þeirra svika, sem uppvís hafa orðið við kosninguna, að nauðsynlegt verður að ógilda hana. Það er vegna siðgæðisslappleika þeirra manna, sem við svikin eru riðnir, að ógilda verður kosninguna. Það er líka vegna alþjóðar gert, svo að allir sjái og skilji, að það, að hafa rangt við í leik, er ekki leiðin til sigurs, jafnvel ekki við Ísafjarðardjúp.

Jeg geri ekki ráð fyrir, að í NorðurÍsafjarðarsýslu sjeu yfirleitt verri menn en annarsstaðar. Jeg geri ráð fyrir, að þar sje um tiltölulega fáa menn að ræða, sem að svikunum standa. En þessi fámenni hópur hefir spillandi áhrif á aðra og getur sýkt út frá sjer og orðið þess valdandi, að víðar verði reynt að vinna leik með svikum.

Þess vegna verður að ógilda kosninguna, svo að alþjóð sjái vilja þingsins, og svo að allir velunnarar þingmanna í landinu óski ekki að hætta á það, að kosning verði dæmd ógild af þeim sökum, að trúir samherjar beiti svikum.

Nú álít jeg, að það skifti engu fyrir dægurmálin, og heldur ekki fyrir Jón Auðun sjálfan, hvort hann verður hálfum mánuði fyr eða síðar starfandi þingmaður nú í vetur. Hjer er ekki um neitt annað að ræða en það, eftir hvaða siðgæðisreglum þingið ætlar að lifa framvegis og hvaða tökum eigi að taka á svikum eins og þeim, sem uppvís hafa orðið í kosningunum í Norður-Ísafjarðarsýslu í sumar.

En ef svo fer, að kosning þessi verður tekin gild nú, þá sje jeg ekki, að Alþingi geti annað betur gert en að breyta svo kosningalögunum, að ef svona svik koma fyrir aftur, þá eigi skilyrðislaust að gera slíka kosningu ógilda. Upp úr þessu hefðist þá það, að trygt yrði, að framtíðarsvik í kosningum yrðu ótíð og lítið sigurvænleg. Menn mundu ekki hætta á slíkt, þegar ljóst væri, hvernig Alþingi mundi á því taka.

Næst á eftir þessu, sem fyrir mjer er aðalkjarni málsins: að hindra það, að svik eigi sjer stað framvegis —, þá ætla jeg að leiða nokkur rök að því, að vegna reglu þeirrar, sem gildir hjá Englendingum, þá mundi þar í landi kosning sem þessi í Norður-Ísafjarðarsýslu hafa verið dæmd ógild, þó að Jón Auðunn Jónsson væri þess óvitandi, að stuðningsmenn hans hefðu gengið svo fram fyrir skjöldu, eins og lesa má í prófunum um þetta mál.

Það sannaðist í Englandi fyrir nokkru síðan, að maður, sem var nátengdur þingmannsefni, mútaði fátæklingi með 5 punda bankaseðli til þess að kjósa þennan náskylda frambjóðanda. Þetta þingmannsefni hlaut meiri hluta greiddra atkvæða við kosninguna, en vegna þessarar mútu, sem í sjálfu sjer hafði ekki úrslitaáhrif á kosninguna, var hún samt dæmd ógild.

Nú mætti nefna nokkur dæmi, þar sem sannast hefir, að þeir, sem við atkvæðafölsunina eru riðnir, eru allflestir, að hví er virðist, stuðningsmenn Jóns Auðuns Jónssonar.

Þá er þess fyrst að geta, að í Hnífsdal, þar sem aðalfölsunarverksmiðjan virðist hafa bólfestu, þá eru þeir mjög ákveðnir stuðningsmenn Jóns Auðuns, Hálfdán hreppstjóri og Eggert tengdasonur hans, og þeim er ekki nóg að ganga fram fyrir skjöldu að því er snertir þetta eina kjördæmi, heldur virðast þeir hafa látið verksvið sitt ná út fyrir kjördæmið.

Besta sönnunin fyrir flokksstarfi þessara venslamanna Íhaldsflokksins er svolítil saga, sem jeg ætla nú að segja og tekin er að nokkru leyti úr rannsókn þessa fölsunarmáls.

Maður einn, sem heima átti í Strandasýslu og var þar á kjörskrá, hafði verið vormaður hjá Hálfdáni hreppstjóra. Eitthvað höfðu þeir grun um það Hálfdán og Eggert, að maður þessi mundi ekki ætla að kjósa Björn Magnússon símstjóra, heldur Tryggva Þórhallsson. Þeir báðu þennan mann þrásinnis að kjósa í Hnífsdal, og varð það úr, en það hefir maðurinn sagt, að þeir Hálfdán hafi ekki á neinn hátt gert tilraun um að snúa hug hans frá Tryggva Þórhallssyni og til Björns Magnússonar. Þeir höfðu alla ástæðu til að halda, að hann kysi með Framsókn. Þeir ljetu það gott heita, en báðu hann aðeins þess að kjósa í Hnífsdal. Um brjefið með atkvæðaseðli þessa manns í vita menn svo ekki annað en það, að flutt var það norður á Strandir af ákveðnum manni íhaldsliðsins á Ísafirði. En þegar það var opnað, stóð nafn Björns Magnússonar á atkvæðaseðlinum, en kjósandinn segist hafa ritað nafn Tryggva Þórhallssonar á þann seðil, er Hálfdán hreppstjóri fjekk honum í Hnífsdal.

Alt, sem menn vita um þetta Hnífsdalsmál og önnur kosningasvik, er uppvís hafa orðið undir rannsókn málsins, verður því rakið til manna, sem teljast verða að stjórnmálaskoðunum það nátengdir frambjóðandanum Jóni Auðunni Jónssyni, að ekki getur verið um nánari vensl að ræða á þessu sviði, nema þá um launaða starfsmenn.

Og öll framkoma þessa frambjóðanda og annara Íhaldsmanna í Hnífsdalsmálinu frá því það hófst sýnir átakanlega, að það er eins og vörnin fyrir kosningasvikunum sje gerð að flokksmáli Íhaldsins þar fyrir vestan. Í Hnífsdal, Bolungarvík, á Ísafirði og hjer í Reykjavík er barist upp á líf og dauða gegn því, að málið sje rannsakað. Íhaldsflokkurinn með sínum 16 þingmönnum og mörgu blöðum virðist hafa gert það að flokksmáli. Og það hefir verið beitt slíku ofbeldi af hálfu Íhaldsmanna og blaða flokksins í þessu máli, að það mun eins dæmi í þingsögunni og miklu alvarlegra en þótt falsaðir hafi verið nokkrir atkvæðaseðlar í sumar, og jafnvel þó að 30–40 seðlar hafi verið falsaðir í Ísafjarðarkosningunni 1923.

Það er þetta viðhorf málsins, sem gerir það nauðsynlegt að hegna fyrir þessi kosningasvik, annaðhvort með burtrekstri Jóns Auðuns af þingi þegar í dag, eða með breytingu á kosningalögunum, svo að fyrir það sje bygt, að slík svik eða önnur áþekk komi fyrir aftur.

Jeg vil enn nefna dæmi, hvernig Íhaldsmenn gerðu mál hinna óheppnu Hnífsdælinga að sínu máli.

Þegar hæstv. fyrv. stj. sendi Steindór Gunnlaugsson vestur til þess að rannsaka málið, er leiddi þó ekki að neinni niðurstöðu, þá byrjaði þessi sendimaður stj. á því að setja í gæsluvarðhald þá fjóra menn, sem ljóstað höfðu upp um kosningasvikin í Hnífsdal og kært þau. Þessir menn sýndu engan mótþróa, þeirra framkoma var „gentlemanlike“. Flokksbræður þessara manna á Ísafirði gerðu heldur ekkert til þess að hindra rannsóknardómarann í starfi sínu, og þó er vitanlegt, að þeir vissu, að þessir fjórir menn voru saklausir af þessum kosningasvikum. Sem sagt, þessir fjórir menn ljetu fangelsa sig mótþróalaust, komu kurteislega fram fyrir rjetti og nú hefir algerlega sannast sakleysi þeirra. Eftir þetta lagði fyrverandi stjórn málið til hliðar.

Þegar núv. stjórn kom til skjalanna, var hún einhuga um að hefja rannsókn að nýju í máli þessu. Jeg sneri mjer til tveggja kunnra lögfræðinga hjer í bæ og fór þess á leit við þá, að þeir færu vestur til að rannsaka málið. En þeir neituðu báðir, hvor í sínu lagi, með þeim rökstuðningi, að þeir treystu sjer ekki að leggja út í málarekstur, sem lítil eða engin von væri um, að leiddi til neinnar niðurstöðu.

Ástæðan til þess, að jeg vildi láta rannsaka málið, var ekki sú, að jeg byggist við, að frekar yrði uppvíst, hverjir valdir væru að svikunum, heldur bjóst jeg við hinu, að rannsóknin leiddi eitthvað það í ljós, sem hjálpaði löggjafarvaldinu að búa svo um hnútana, að slík svik sem þessi gætu ekki komið fyrir oftar.

Þá var það, að sýslumaður strandamanna var fenginn til þess að fara vestur og rannsaka málið frá rótum. Þessi sýslumaður hafði í fyrravor fengið til meðferðar heima í hjeraði lítinn anga af þessu fölsunarmáli, og rannsóknina hafði hann framkvæmt með miklum dugnaði og kostgæfni. Jeg vil nota tækifærið að mótmæla því, að nokkur hlutdrægni hafi ráðið því, að þessi sýslumaður var valinn til þess að rannsaka málið, eins og íhaldsblöðin hafa látið í veðri vaka. Sjest best, á hvaða rökum slíkt er bygt, þegar þess er gætt, að þessi sami sýslumaður var af miðstjórn Íhaldsmanna beðinn að vera í kjöri á móti núver. hæstv. forsrh. (TrÞ) við síðustu kosningar. Þetta er skýring, sem slær öllu föstu um það, að það var svo langt frá, að núver. stjórn fengi sinn samherja til að taka að sjer rannsóknina, heldur valdi hún mann, sem hún gat talið andstæðing sinn, en sem sýnt hafði ákveðinn hæfileika til þess að trúa mátti honum fyrir rannsókninni og að hann mundi gera hana vel.

En hvað skeður svo, þegar þessi rannsóknardómari rjettvísinnar kemur vestur?

Þá rísa íhaldsforkólfarnir þar upp hreint og beint með „organiseruðu“ ofbeldi og gera rannsóknardómaranum sem erfiðast fyrir á allan hátt, t. d. við fangelsun Hálfdáns hreppstjóra og Eggerts tengdasonar hans. Og svo ósvífnir gerast þessir íhaldsburgeisar vestur frá, að þeir láta blað sitt „Vesturland“ fara með vísvitandi ósannindi og blekkingar um málið, sem svo er símað hingað suður og „Morgunblaðið“ birtir sem góða og gilda vöru. Svo langt gekk ósvífni „Vesturlands“ í frjettaskeytum, sem það sendi hingað suður, að forstöðumaður Frjettastofunnar neyddist til þess að taka skeytasendinguna af ritstjóra blaðsins.

Og nú vil jeg spyrja: Getur það hugsast, að Jón Auðunn Jónsson, sem er styrktarmaður blaðsins, og aðrir íhaldsmenn hafi ekki vitað, að hjer var farið með vísvitandi ósannindi og blekkingar um starf rannsóknardómarans?

Jeg segi nei! Þeir vissu vel, hvað þeir voru að gera. Þeir vissu, að blöð Íhaldsflokksins voru að svívirða rannsóknardómarann, og ljetu það gott heita. Þeir þektu ekki ensku drengskaparregluna, sem gildir í leik og opinberu lífi. Þeir settu hart á móti hörðu og fylgdu íþróttamanninum, sem barði fjelaga sinn á leikvellinum. Og það hefir sýnt sig betur og betur, að það er ekki hægt að vinna að friðsamlegri rannsókn þessa máls fyrir íhaldsliðinu og blöðum þess bæði á Ísafirði og í Reykjavík.

Jeg vil nú biðja þingheim að bera saman framkomu þeirra fjögra verkamanna, sem fangelsaðir voru í sumar á Ísafirði, við framkomu stuðningsmanna Jóns Auðuns Jónssonar, þeirra sem rannsóknardómarinn taldi að fangelsa yrði um stund. Og þá er jeg kominn að sorglegasta þætti þessa máls.

Þegar rannsóknardómarinn ætlaði að setja í gæsluvarðhald há Hálfdán hreppstjóra í Hnífsdal og tengdason hans Eggert, þá hindra íhaldsmenn í Hnífsdal handtöku þeirra með valdi. Íhaldsliðið á Ísafirði klappar lof í lófa og flytur greinar fullar af ósannindum og ósvífnum tilhæfulausum ásökunum um rannsóknardómarann fyrir það eitt að gera skyldu sína. Mbl. ljet síma sjer að vestan allra grófustu ádeilugreinarnar í vil Hálfdáni og Eggert. Hjer var því að ræða um Skipulagsbundna uppreist af hálfu Íhaldsmanna til að hindra, að rjettvísin gæti starfað að rannsókn glæpamáls.

Í Bolungarvík býr maður, sem Pjetur heitir Oddsson. Það er viðurkent, að hann sje mikill stuðningsmaður Jóns Auðuns Jónssonar, en aðstaða hans í þorpinu sú, að erfitt er fyrir fátæklinginn að standa á móti boði hans og banni.

Við rannsókn málsins kemur það í ljós, að tveir atkvæðaseðlar eru með hendi hreppstjórans í Bolungarvík. Rannsóknardómarinn bregður sjer þangað, setur rjett yfir hreppstjóranum, sem játar, að hann hafi hjálpað tveimur gamalmennum að kjósa og skrifað samkvæmt ósk þeirra nafn Jóns Auðuns Jónssonar á seðlana, en vanrækt að geta þess í kjörgögnunum, eins og lög mæla fyrir. En þegar þessi gamalmenni eru spurð um þetta, segja þau, að hreppstjórinn hafi ekki hjálpað sjer, en hverfa þó frá því síðar og staðfesta framburð hreppstjórans.

Nú hefir hreppstjórinn sent kæru til stj. yfir framkomu rannsóknardómarans, og meðal þeirra gagna, sem henni fylgja, er vitnisburður þessara gamalmenna, karls og konu. Vitna þau, að fyrst hafi þau borið rangt fyrir rjettinum, af því að þau hafi haldið, að hreppstjórinn hefði eitthvað ilt af því, ef þau segðu satt. En bráðum komast þau á gagnstæða skoðun og segja þá sannleikann, þegar þau sjá, að hreppstjóranum kom það betur, að þau segðu satt.

Hjer virðist því hafa verið fullkomin ástæða til þess að setja hreppstjórann í gæsluvarðhald á meðan ekkert upplýstist um seðlana, miklu sterkari ástæða heldur en sjómennina fjóra, sem Steindór Gunnlaugsson fangelsaði, enda úrskurðaði rannsóknardómarinn, að svo skyldi verða.

En hvað skeður?

Þegar rannsóknardómarinn hefir úrskurðað hreppstjórann í gæsluvarðhald, eða að hann setji tryggingu fyrir nærveru sinni, sem tekin sje gild, og hreppstjórinn Kristján Ólafsson tekur ekki illa, ef hann fái svolítinn frest, þá kemur Pjetur Oddsson eftir 2 tíma með mannsafnað — eitthvað um 200 manns var giskað á, að liðið væri — og les yfir rannsóknardómaranum hótunarbrjef, sem svo er símað hingað suður til „Morgunblaðsins“, sem tekur því fegins hendi og gerist svo blygðunarlaust að flytja jafnhliða mynd af þessum uppreisnarforkólfi Íhaldsins í Bolungarvík. Síðan hefir frjetst úr Bolungarvík, að það hafi verið samantekin ráð um það að hrekja rannsóknardómarann fram á brimbrjótinn fræga, sem Alþingi hefir kastað fje í árum saman, og láta hann standa þar kvíaðan af á bryggjuhausnum yfir nóttina.

Slíkar eru aðferðir Íhaldsmanna í N.-Ísafjarðarsýslu. (HK: Ljótt fólk, ef satt væri). Já, það er alveg rjett hjá hv. þm. Barð., að þetta er ljótt fólk. En hlýtur ekki bæði honum og mjer að virðast það ennþá verri menn, er standa fyrir slíkum strákaverkum og æsa fáfróðan almenning upp til hermdarverka? (HK: Ef satt væri, sagði jeg). Og hv. þm. Barð. getur lesið „Morgunblaðið“, aðalmálgagn Íhaldsmanna. Dagana, sem þessir atburðir voru að gerast í Bolungarvík, skýrði það með miklum fjálgleik og hrifningu frá hreystiverkum Bolvíkinga og flutti mynd af foringjanum, Pjetri Oddssyni. Annars býst jeg við, að það muni koma í ljós innan skamms, hvort Pjetur Oddsson á framvegis að vera „suveræn“ í N.-Ísafjarðarsýslu og hvort mönnum yfirleitt á að haldast uppi að æsa almenning til uppreisnar gegn fulltrúum rjettvísinnar, og þá sjerstaklega hvort fálkariddaranum Pjetri Oddssyni á framvegis að haldast uppi slík framkoma, sem hann hefir látið sjer sæma í þessu máli, með mótstöðu sinni gegn rannsóknardómaranum.

Það, sem jeg tel, að sanni sektarfulla aðstöðu J. A. J. í þessu máli, er aðallega þrent. Í fyrsta lagi það, að kosningasvikin eru framin J. A. J. í vil. Ennfremur, að það er sannað, að á Ísafirði, í Hnífsdal, Bolungarvík og í Reykjavík er af fylgifiskum hans og samherjum yfirleitt alt gert, sem hægt er, beitt ósannindum, rógi, hótunum og blaðaskömmum af Íhaldsmönnum, til þess að hindra rannsókn í málinu. Og síðast en ekki síst, að frambjóðandinn sjálfur, J. A. J., gerir beinlínis uppreisn gegn rannsóknardómaranum, þegar hann er kallaður til þess að bera vitni í málinu fyrir rjetti. Það og yfirleitt öll framkoma Íhaldsflokksins í þessu máli sýnir það ljóslega, hve djúpt stendur spillingin innan þess flokks. Tilefni hinnar ósvífnu framkomu J. A. J. fyrir rjetti er það eitt, að rannsóknardómarinn leggur fyrir báða frambjóðendur sömu spurningarnar, um tölu heimagreiddra atkvæða í sýslunni. Finnur Jónsson kemur fram eins og vitni sæmir, Jón, Auðunn eins og sekur ofstopamaður.

J. A. J. kemur undirbúinn beina leið frá heimili sínu. Jeg vil leggja áherslu á það, að hann kemur heiman með þetta merkilega plagg, þar sem hann leyfir sjer að koma fram með svívirðingar og tortrygni í garð rannsóknardómarans.

Jeg hefi nú rakið nokkur atriði þessa máls. Aðalatriðið er að reyna að fyrirbyggja það framvegis, að nokkur flokkur leyfi sjer að koma fram eins og Íhaldsfl., sumir kjósendur hans, blöð hans og þingmenn, hefir komið fram í þessu máli. Því að það var hrein ósvífni af Íhaldsflokknum að heimta, að þessi kosning skuli tekin gild rannsóknarlaust, þrátt fyrir þær alvarlegu misfellur, sem vitanlega hafa verið á henni. Jeg álít að vísu, að það hafi verið fullkomlega óþörf fyrirhöfn af vinum J. A. J. að ganga svo freklega fram í svikunum, sem þeir hafa gert; hann mundi í þetta sinn hafa sigrað í heiðarlegri baráttu í N.-Ísafjarðarsýslu. Og einmitt þess vegna ætti hann að sjá sóma sinn og leggja þegar í stað niður þingmensku og vinna aftur á heiðarlegan hátt. Jeg vil taka það skýrt fram, að mjer er það alls ekki aðalatriði í þessu máli, að þessi kosning sjerstaklega sje gerð ógild, heldur hitt, að Alþingi fyrirbyggi það, að slík kosning sem þessi geti átt sjer stað framvegis. Til þess þarf að gera gagngerða breytingu á kosningalögunum og taka upp þá reglu, að þessi kosning hefði skilyrðislaust verið gerð ógild, ef sú breyting hefði verið komin á.