27.01.1928
Sameinað þing: 2. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í B-deild Alþingistíðinda. (4085)

Kjörbréf Jóns Auðuns Jónssonar

Haraldur Guðmundsson:

Mjer þótti vænt um vegna Íhaldsflokksins, að form. hans fann ástæðu til að standa upp og þvo hendur sínar og flokksins af þessu máli. Hitt er annað mál, hvernig sá þvottur lánaðist. Ef það á ekki að verða kisuþvottur, verður hann að skýra nánar frá sambandi flokksins hjer við flokksmenn úti um land.

Jeg geri ráð fyrir, að hann eigi hjer við Íhaldsflokkinn á Alþingi. Hinu er ekki hægt að neita, að blöð Íhaldsflokksins, bæði hjer í Reykjavík og vestra, gerðu alt til þess að gera rannsóknina erfiðari og rannsóknardómarann tortryggilegan. Jeg veit ekki, hvað hægt er að kalla þetta annað en að hindra rannsóknina. Það verður a. m. k. ekki sagt, að J. A. Jónsson hafi gert mikið til að ljetta rannsóknina, þar sem hann lætur bóka í hinu fyrsta rjettarhaldi, þar sem hann kemur, að rannsóknin beri lit af stjórnmálaskoðunum andstæðinga hans. Ef nokkuð getur orðið til þess að gera rannsóknina tortryggilega í almenningsaugum, þá er það yfirlýsing eins og þessi frá jafnþektum og af ýmsum mikilsmetnum manni, sem Jón A. Jónsson verður sennilega að teljast. En það er gott, ef Íhaldsflokkurinn er nú alveg horfinn frá fyrri villu sinni. Vil jeg í því sambandi aftur minnast orða úr Helgakveri, að þótt afturhvarf á dauðastundinni að vísu sje bæði torvelt og sjaldgæft, þá sje það þó ekki með öllu ómögulegt. Það er von mín, að þetta sannist nú bókstaflega á Íhaldsflokknum, því að það er líklegt, að dauðastund hans sje ekki sjerlega fjarri. A. m. k. hefi jeg það frá mjög svo áreiðanlegum heimildum, að flokkurinn sje í ákafa að svipast um eftir nýju nafni.

Hv. 3. landsk. spurði, hví jeg hefði ekki flutt sögurnar af kosningunum vestra á fundi í Sþ., þegar kjördeildir skiluðu álitum sínum. Því er þar til að svara, að eftir öllum sólarmerkjum að dæma, taldi jeg líklegt, að málinu yrði vísað til kjörbrjefanefndar, og þá þótti mjer sjálfsagt að gefa hv. þingmönnum tóm til að kynna sjer málið. Jeg fæ ekki sjeð, að hlutur nokkurs manns sje gerður verri með því, þótt nú fyrst sje sagt frá framkvæmd kosningarathafnarinnar og öðru því, er gerðist í Norður-Ísafjarðarsýslu að þessu sinni og áður. Ef hv. 3. landsk. þykja sögur mínar að einhverju leyti tortryggilegar, — en svo var að heyra á honum, þótt ekki segði hann það berum orðum —, þá er skamt að leita fyllri upplýsinga fyrir hann, þar sem þingmannsefni Norður-Ísfirðinga situr þarna á bak við hann, í dyrunum á háttv. Ed.

Þá skildist mjer á háttv. þm., að Alþingi bæri skylda til að taka gilda kosningu þess þingmanns, sem hefði fengið meiri hluta löglega greiddra atkvæða. Eins og menn vita, er þetta mjög fjarri sanni. Það stendur í kosningalögunum, að sá skuli fá kjörbrjef, sem hlotið hefir hæsta tölu löglega greiddra atkvæða. En í 42. gr. sjálfrar stjórnarskrárinnar er skýrt tekið fram, að Alþingi sker sjálft úr, hvort þingmenn þess sjeu löglega kosnir. Ef Jón A. Jónsson hefði sjálfur orðið sannur að sök um þátttöku í kosningasvikum, þá þyrfti ekki um það að ræða, hvort kosning hans skyldi tekin gild eða ekki, því að Jón A. Jónsson hefði þá að sjálfsögðu mist kjörgengi sitt. En hjer er ekki um það að ræða, heldur aðeins hitt, að Alþingi á að skera úr, hver áhrif kosningaglæpir eins og Hnífsdalsfalsanirnar eigi að hafa á lögmæti kosningar.

Þá langar mig til að víkja að hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) fáeinum orðum. Hann fór mjög lofsamlegum orðum um ræðu mína. Jeg þakka og vildi feginn, að jeg gæti sagt, að hans ræða hefði ekki verið verri. En sannast sagt þótti mjer rökfærsla hans vera í allra bágasta lagi, þótt ræðan væri skörulega flutt. — Hann sagði fróðlega sögu um það, hvernig hægt væri að fara að því að falsa atkvæði. Nú vil jeg spyrja hv. þm.: Meinar hann með þessari sögu, að þar sje lýst hinum rjetta gangi Hnífsdalsmálsins? — (ÓTh: Nei!) . — Þá verð jeg að játa, að jeg skil ekki meiningu hv. þm. með þessari sögu sinni. Því að fyrir flokk með augljósan minni hluta getur þetta ekki orðið að neinu gagni. Kosning hins frambjóðandans er jafnviss eftir sem áður. (ÓTh: Jeg var að tala um þetta út af ræðu hæstv. dómsmrh.).

Þá reyndi sami hv. þm. að nota sjer það plagg, er jeg las hjer upp áðan, og það verð jeg að segja, að ódrengilegri og ósvífnari skjalafölsun hefi jeg ekki vitað, svo framarlega sem þessi háttv. þm. vill teljast læs á vjelritað mál. Hann segir, að jeg hafi lýst mörgum misfellum á kosningunni 1923 og saknæmu atferli í sambandi við hana, og að á því hafi bygst krafan um, að kosning Sigurjóns Jónssonar yrði gerð ógild og að mjer yrði fengið kjörbrjef. (ÓTh: Svo skildi jeg háttv. þm.!) Jeg get auðvitað ekki lappað upp á skilning hv. 2. þm. G.-K., en í kærunni stendur, eftir að búið er að rekja þá formgalla, sem urðu hjá bæði yfir- og undirkjörstjórn:

„Fyrir því leyfum vjer oss að krefjast þess, að þjer, háa Alþingi, ógildið kosningu og kjörbrjef Sigurjóns Jónssonar og úrskurðið Harald Guðmundsson ...... rjett kjörinn þingmann fyrir Ísafjarðarkaupstað.“

Krafan um, að H. G. yrði úrskurðaður þingmaður eða kosningin gerð ógild var þannig aðeins bygð á því, að gerðir kjörstjórnar og úrskurðir eigi hefðu verið lögum samkvæmt. En auk þessa alls var farið fram á, að Alþingi hlutaðist til um, að rannsókn yrði hafin á glæpsamlegu atferli, sem fram fór í sambandi við kosninguna. Málið lá öðruvísi fyrir þá en nú. Þá lágu ekki fyrir sannanir um glæpi, sem framdir hefðu verið, heldur var aðeins beðist rannsóknar, svo að það mál mætti upplýsast. Hv. þm. talaði út af þessu um yfirdrepskap og — hræsni hjá mjer, og vil jeg vænta þess, að hann taki nú þau orð aftur. (ÓTh: Mjer væri ánægja, ef jeg gæti það) . — Síðan brýndi hv. þm. röddina, og jeg bjóst við, að nú kæmi eitthvað merkilegt. En það var eins og forðum, er fjöllin tóku jóðsótt og fæddist lítil mús. Það var ekki annað eða óvenjulegra en blaðamenska Tímans, sem háttv. þm. þurfti að tala um. Jeg hefi enga tilhneigingu til að hæla ritstjórum Tímans. En mjer finst hv. þm. hefði heldur átt að vanda um við íhaldsmálgögnin, sem næst honum standa, t. d. Morgunblaðið og Vörð, fyrir málflutning þeirra og viðleitni til að villa kjósendum sýn og falsa þannig atkvæði, eins og hann orðar það. Ekki voru þau betri en Tíminn, að honum ólofuðum þó. Ætli þeir verði ekki flestir í Íhaldsflokknum líka atkvæðafalsanaheildsalarnir, ef út í þá sálma er farið?