27.01.1928
Sameinað þing: 2. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í B-deild Alþingistíðinda. (4086)

Kjörbréf Jóns Auðuns Jónssonar

Jón Baldvinsson:

Það er eðlilegt, að í þessu sambandi sjeu rifjaðar nokkuð upp kosningarnar á Ísafirði og í Norður-Ísafjarðarsýslu 1923. Þær komu til umræðu á fyrsta fundi Alþingis 1924, og var þá nokkuð um þær deilt. En þá lágu þó ekki fyrir jafngreinilegir ágallar eins og nú hafa komið í ljós við kosninguna í Norður-Ísafjarðarsýslu 9. júlí í sumar. — Á þingi 1924 átti jeg í nokkurri orðasennu við íhaldsmenn út af kosningunni á Ísafirði, og jeg minnist þess nú, að núv. hv. 3. landsk. (JÞ) var mjög gleiður yfir að geta talað um „hinn fallna frambjóðanda jafnaðarmanna á Ísafirði,“ og ljet sem mjer væri vorkunn, þótt jeg vildi reyna að koma honum inn. En hv. 3. landsk. hlakkaði fullsnemma yfir þeim „sigri“. Íhaldið væri áreiðanlega betur statt nú, ef það hefði ekki hangið við völd síðasta kjörtímabil á því eina atkvæði. Því að nú er svo komið, að það mun álit flestra, að kosningin á Ísafirði 1923 hafi verið svo meingölluð, að ekki hefði verið nokkurt viðlit að taka hana gilda, ef ofurlítið meiri upplýsingar um hana hefðu legið fyrir Alþingi 1924. En hvað spanst af því, að sú hneykslanlega kosning var tekin gild? Það, að aðrir menn fóru með völd í landinu í 4 ár en rjett var að þjóðarvilja. — Þegar þingsaga þessara ára verður rituð, þá hygg jeg, að íhaldsmenn, ef nokkrir verða, muni óska sjer þess, að flokksbræður þeirra hefðu aldrei tekið við völdunum 1924. Því að jeg geri ráð fyrir, að þá verði það fullsannað, að síðustu 4 ár hafa þeir stjórnað landinu með fölsuðum atkvæðum. — 1924 töluðu íhaldsmenn mikið um hinar „smávægilegu“ misfellur á kosningunni, og töldu það greinilegt, að Sigurjón Jónsson ætti rjett til kosningar. En þá urðu hrossakaup milli Íhalds og Framsóknar. (ÓTh: Hvaða hross fjekk Framsókn?). Íhaldið fjekk þetta makalausa hross, sem það hefir riðið síðasta kjörtímabil. — En umræðurnar sýna, að öll kosningin á Ísafirði var svo gagnstæð kosningalögunum, að skilyrðislaust átti að ógilda hana. Og ein kjörbrjefadeildin var þá svo ranglát, að hún hverbraut sjálf kosningalögin með hví að rífa upp lokað atkvæði og skoða það í fullkomnu heimildar- og lagaleysi. Og þessu atkvæði var svo bætt á Sigurjón Jónsson. Íhaldsflokkurinn hagaði sjer svo í þessu máli, að ekki sýnist sjerleg ástæða til að fara um þá mjúkum höndum nú, þegar ágallar þessarar kosningar eru alveg augljósir. Þeir hafa alla tíð hamast á móti því, að rannsókn færi fram á kosningasvikunum vestra. Í blöðum sínum hafa þeir reynt að koma því svo fyrir, að rannsóknardómarinn, sem síðast var skipaður í málið og viðleitni hefir sýnt til að komast til botns í því, yrði tortryggilegur í augum þeirra, sem hann átti að yfirheyra. Þeir hafa spanað vitnin upp á móti rannsókninni.

Út af því, sem sannað er og upplýst í málinu, tel jeg sjálfsagt að ógilda kosninguna í Norður-Ísafjarðarsýslu. Og jeg hefði í raun rjettri talið rjettast, að sú ógilding hefði fram farið þegar á fyrsta þingfundi. Það var ekki eftir neinu að bíða. Enginn ber á móti því, að Jón A. Jónsson hafi fengið meiri hluta þeirra atkvæða, sem löglega voru greidd. Af heim ástæðum telja sumir, að taka beri kosningu gilda. En jeg svara þá eins og Snorri goði, er Flosi spurði, hvort hann ylli því, að þeir mættu eigi sækja til vígis í Almannagjá. „Eigi veld ek því,“ segir Snorri, „en hitt er satt, at ek veit, hverir valda, — ok mun ek segja þér, ef þú vill, at þeir valda því Þorvaldr kroppinskeggi ok Kolr.“ Þeir voru þá báðir dauðir og höfðu verið hin mestu illmenni í liði Flosa. — Nú er fallinn mjög sterkur grunur á þá um atkvæðafölsun, er störfuðu að framgangi íhaldsins í Norður-Ísafjarðarsýslu, og því sýnist mjer ekki órjett, að þótt vitanlega fjölmargir og vafalaust allur fjöldi kjósendanna vestur þar sjeu af þessu alsaklausir, þá verði þeir samt að njóta þessara liðsmanna á sama hátt og Snorri goði ljet Flosa njóta þeirra Þorvalds kroppinskeggja og Kols.