27.01.1928
Sameinað þing: 2. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í B-deild Alþingistíðinda. (4090)

Kjörbréf Jóns Auðuns Jónssonar

Magnús Guðmundsson:

Mjer finst satt að segja, að umræðurnar sjeu farnar að snúast nokkuð mikið um annað en það, sem hjer er til umræðu, og skal jeg því ekki lengja þær mikið. En þar sem til mín hefir verið beint nokkrum fyrirspurnum, er jeg til neyddur að svara þeim ofurlítið. Þó vil jeg, áður en jeg sný mjer að þeim, benda hæstv. dómsmrh. á, að ef hann í raun og veru er sannfærður um, að eins miklar misfellur hafi verið á kosningunni á Ísafirði 1923 eins og hann segir hjer, þá getur enginn bannað honum að láta rannsókn fara fram, og hann er hreint og beint skyldugur til þess, úr því að hann er sannfærður um, að miklar misfellur hafi átt sjer stað.

Hæstv. ráðherra (JJ) sagðist alls ekki gruna Jón Auðun Jónsson sjálfan um sviksamlegan þátt í kosningunum, og jafnframt sagðist hann ekki efa, að hann yrði endurkosinn af miklum meiri hluta heiðarlegra manna í Norður-Ísafjarðarsýslu, en samt vildi hann senda JAJ heim, til þess að sýna, hvað það gilti að hafa svik í frammi við kosningar. Jeg vil nú spyrja hæstv. ráðh. (JJ), hvort hann hafi athugað, hver áhrif slíkt myndi hafa á kjósendur í Norður-Ísafjarðarsýslu. Jeg býst við, að þeim saklausu myndi finnast það vera hróplegt ranglæti, því að sú hegning, sem í heimsending JAJ liggur, kemur ekki niður á hinum seku, heldur á hinum saklausu, og það ætti síst að vera áhugamál dómsmrh. landsins að koma slíku til leiðar.

Þá sagði hæstv. dómsmrh., að jeg hefði gert gys að meðnefndarmönnum mínum í kjörbrjefanefnd, en það er alls ekki rjett. Jeg átaldi aðeins, að öllum nefndarmönnum skyldi ekki hafa verið skýrt frá því, sem nefndin aðhafðist, því eins og jeg tók fram í fyrri ræðu minni, vissi jeg ekkert um sumt af því, sem form, nefndarinnar sagði, að nefndin hefði aðhafst, fyr en hann gat þess í ræðu sinni. En slík vinnubrögð í nefndum hefi jeg ekki þekt áður.

Þá spurði hæstv. ráðh. (JJ), hvers vegna bæjarfógetinn á Ísafirði hefði hætt við rannsóknina í sumar. A því stóð þannig, að hann gat ekki haldið áfram vegna anna. Hann hafði löngu áður en Hnífsdalsmálið kom upp boðað til manntalsþinga í sýslum sínum á þeim tíma, og gat því ekki hætt við þau. Fór hann því fram á, að settur yrði sjerstakur rannsóknardómari í málið. Þegar þessi beiðni kom, var jeg í kosningaleiðangri úti á landi, og átti þá skrifstofustjórinn tal um þetta við mig í síma, og varð það þá ofan á að senda mann vestur til þess að framkvæma rannsóknina meðan sýslumaður væri forfallaður. En svo átti hinn reglulegi dómari að taka við málinu, þegar hann hefði lokið þingaferðunum.

Hv. þm. Ísaf. (HG) mintist á, að bráðlega myndi verða haldin útför Íhaldsflokksins íslenska, og dró það af því, að hann myndi breyta um nafn. Þessi ályktun held jeg sje mjög hæpin hjá hv. þm., að minsta kosti hefi jeg þekt marga menn og mörg fjelög, sem breytt hafa um nafn og haldið áfram að lifa fyrir því.

Þá var hæstv. forsrh. (TrÞ) að tala um ferð mína um Strandasýslu síðastliðið vor og lýsti því ferðalagi frá sínum bæjardyrum, og það var honum aldrei nema velkomið. En hann bar fram spurningar, sem jeg tel mig of góðan til að svara, og viðhafði ummæli, sem jeg skora á hann að endurtaka utan þinghelginnar, svo jeg geti farið í mál við hann út af þeim, því að í þeim fólust aðdróttanir um glæpsamlegt athæfi. Annars vil jeg segja hæstv. forsrh. það, að jeg hefi fullan rjett til þess að ferðast um Strandasýslu engu síður en hann, og jafnframt vil jeg minna hann á, að hann hefir að minsta kosti tvisvar og hæstv. dómsmrh. einu sinni ferðast um mitt kjördæmi, og það í síst betri tilgangi en jeg fór í um Strandir, og hefir mjer ekki dottið í hug að átelja það. Annars má hæstv. forsrh. spyrja Strandamenn, hvort jeg hafi ráðist á hann persónulega á fundum þeim, er jeg hjelt. Jeg er viss um, að þeir munu ekki bera mjer það.

Meðal annars sagði hæstv. ráðherra (TrÞ), að á einum fundinum, þar sem jeg hefði verið við, hefði það komið fram, að boðnar hefðu verið mútur til framdráttar Birni Magnússyni, án þess að jeg hafi andmælt því. Þetta er ósatt hjá hæstv. ráðh., því að jeg heyrði ekki um neinar mútur talað meðan jeg var á fundi. En síðar frjetti jeg, að umtal hefði orðið um þetta í fundarlokin, eftir að jeg var farinn af fundi. En ef hæstv. forsrh. heldur, að jeg sje sekur um mútugjafir eða mútuboð, skora jeg á hann að láta fara fram sakamálsrannsókn um það.

Þá fann hæstv. ráðh. (TrÞ) ástæðu til að gera athugasemdir við það, að jeg varð frambjóðanda Íhaldsflokksins samferða um Strandir, en það var eðlilegt og sjálfsagt, þar sem báðir við ætluðum að sækja sömu fundina, sem boðaðir höfðu verið löngu áður. Annars veit hæstv. ráðh. (TrÞ), að jeg ætlaði ekki að fara þessa för, heldur fór jeg hana vegna forfalla háttv. 3. landsk. (JÞ).

Að endingu skal jeg svo ítreka þá áskorun mína, að hæstv. forsrh. endurtaki áðurnefndar dylgjur sínar utan þinghelginnar.