27.01.1928
Sameinað þing: 2. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í B-deild Alþingistíðinda. (4095)

Kjörbréf Jóns Auðuns Jónssonar

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Jeg hefi ekki fundið ástæðu til að taka þátt í þeim umr., sem hjer hafa farið fram, enda hafa þær snúist um ýmislegt fleira en málið sjálft, sem hjer liggur fyrir.

Jeg vil aðeins taka það fram, að jeg ætla lítillega að gera grein fyrir mínu atkvæði, því vel má vera, að það falli nokkuð á annan veg en ýmsir hafa búist við. Jeg vil fyrst skýra frá því, að innan Framsóknarflokksins hefir verið gengið út frá því, að þetta mál yrði ekki á neinn hátt gert að flokksmáli, og því er það svo, að það, sem einstakir menn úr flokknum bera hjer fram, gera þeir á eigin ábyrgð, en alls ekki flokksins.

Þetta mál hefir ekki verið gert að flokksmáli, og það bendir í þá átt, að þar sjeu frjálsir menn í frjálsum flokki, og þeir vilja undir öllum kringumstæðum fylgja málunum eftir því, sem þeir telja sannast og rjettast. Hvað mína skoðun á málinu snertir, þá vil jeg lýsa henni með sem allra fæstum orðum, en hún er fólgin í þrem meginatriðum, sem eru þess valdandi, að jeg álít, að það muni lítið vinnast við það, þótt þessi kosning verði gerð ógild. Það yrði aðeins til þess að tefja tímann, baka landinu nokkurn kostnað, en kjósendum örðugleika. Ástæðurnar eru í sem stytstu máli þessar:

Það er í fyrsta lagi yfirgnæfandi atkvæðafjöldi, sem verður þess valdandi, að það er ekki líklegt, að nein breyting verði á, þótt ný kosning fari fram.

Í öðru lagi hefir engin kæra komið fram yfir kosningunni, og það tel jeg mikilvægt atriði. Jeg veit ekki til þess, að þingið hafi úrskurðað kosningu ógilda, sem engin kæra hefir komið um.

Þriðja atriðið er það, að eftir alla þessa rannsókn kemur öllum saman um það, að ekkert sje fram komið, sem bendi á það, að þessi hv. þm. (JAJ) hafi átt nokkra sök á þeim misfellum, sem orðið hafa.

Jeg geri ráð fyrir því, að aðalástæðan, sem vakir fyrir þeim háttv. þm., sem vilja telja kosninguna ógilda, sje sú, að þeir vilji skapa mikilvægt fordæmi, sem farið verði eftir síðarmeir. En jeg hygg, að það þýði lítið að reyna að skapa einveldinu fordæmi, en þingið hefir fullkomið einveldi um það, hvort kosning verður tekin gild eða ekki, og það er víst, að hvernig sem sá úrskurður verður, sem feldur verður nú, þá verði hann ekki það fordæmi, sem ávalt verði farið eftir síðarmeir, enda leiðir það af sjálfu sjer, að nýir siðir koma með nýjum mönnum, og þingið myndi heldur ekki fara að binda sig við slíkt fordæmi. Mjer finst líka, að ef við færum að halda því mjög ríkt fram, að við værum færir um að gefa það fordæmi, sem sígilt væri, þá sje það að hafa meira traust á sjer en góðu hófi gegnir.

Af þeim ástæðum, sem jeg nú hefi tekið fram, mun jeg greiða atkvæði með því, að kosning Jóns Auðuns verði tekin gild. Hvort það verða fleiri eða færri menn úr mínum flokki, sem það gera, get jeg ekki sagt um, og hvort sem mjer verður lagt það út á betri eða verri veg, þá verð leg að sætta mig við það. Jeg vildi helst ekki sitja lengur á þingi en það, að jeg verði jafnan fær um að taka ákvarðanir eftir því, sem sannfæring mín býður mjer í hvert skifti.