27.01.1928
Sameinað þing: 2. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í B-deild Alþingistíðinda. (4096)

Kjörbréf Jóns Auðuns Jónssonar

Jón Þorláksson:

Hæstv. dómsmrh. (JJ) bar það fram í síðustu ræðu sinni, að það hefði sýnt drengskaparleysi af hálfu Íhaldsmanna, hvernig sá tími var ákveðinn, sem fundir voru settir af okkar hálfu í Strandasýslu. En jeg vil þegar taka það fram, að þessi sök verður að hitta mig einan, af því að jeg varð að ákveða tímann eftir mínum hentugleikum. Það var missögn hjá hæstv. ráðh. (JJ), að jeg hefði ákveðið tímann eftir beiðni frambjóðanda flokksins í sýslunni, það var eftir áskorun frá kjósendum í Strandasýslu.

En svo stóð á, að rjett eftir þing þurfti jeg að fara á konungsfund, til þess að leggja fram til staðfestingar þau lagafrumvörp, er þingið hafði samþykt, og með því að hafa sem mestan hraða á, gat jeg verið kominn heim aftur rjett fyrir miðjan júní. Það er algerlega ómaklegt af hæstv. dómsmrh., ef hann bregður mjer um drengskaparleysi í þessu máli. Mjer var ómögulegt að vita um heimilisástæður hv. þm. Str. (TrÞ), en þetta var sá eini tími, sem jeg gat haft til þess, og á þeim tíma, sem hv. þm. Str. (Trh) boðaði sína fundi, gat jeg ekki verið, því að jeg var þá að fara af stað með frumvörpin á konungsfund. Svo hafði mikið safnast fyrir af embættisstörfum í fjarveru minni, svo að jeg sá mjer ekki fært að missa þann tíma, og því talaðist svo til, að starfsbróðir minn tók að sjer ferðina.

Ef hæstv. dómsmrh vill, þá má hann gjarnan taka þessa skýringu mína á ummælum hans sem vitnisburð um það, hvernig jeg í þessu efni, og reyndar oft endranær, lít á hans framkomu.