27.01.1928
Sameinað þing: 2. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í B-deild Alþingistíðinda. (4097)

Kjörbréf Jóns Auðuns Jónssonar

Hjeðinn Valdimarsson:

Mjer voru það nokkur vonbrigði, hvernig hæstv. fjmrh. (MK) tók í þetta mál. Jeg hugði, að honum myndi í svo fersku minni kosningin á Akureyri 1923 og aðferðir þær, sem Íhaldsflokkurinn notaði þar, til þess að hæstv. ráðh. (MK) gæti skilið, að það ber að stöðva svikin árið 1927.

Hæstv. ráðh. (MK) vildi leggja nokkuð upp úr því, að Jón Auðunn myndi verða kosinn aftur, ef ný kosning yrði látin fara fram en jeg verð að segja það, að jeg get ekki skilið, að neinir af þeim, sem hjer sitja, geti myndað sjer ákveðna skoðun um það, hvernig kosningar muni fara í framtíðinni. Það er enginn hjer, sem getur sagt neitt fyrir víst um það, hvernig kosning Jóns Auðuns myndi fara nú í Norður-Ísafjarðarsýslu, og ótrúlegt finst mjer, eftir alt það, sem uppvíst er orðið um kosningabaráttuna vestur þar undanfarið, að hann myndi ná kosningu þar.

Hæstv. fjmrh. gat þess, að hann gæti ekki skilið, að þingið gæti leyft sjer að gera kosningu ógilda án þess nokkur kæra kæmi fram. Jeg vil í þessu sambandi leyfa mjer að lesa upp 5. grein þingskapanna, með leyfi hæstv. forseta:

„Þingið getur við rannsókn þá, er ræðir um í 1. gr., úrskurðað kosningu ógilda, þótt eigi hafi hún kærð verið, og einnig frestað að taka kosningu gilda, til þess að fá skýrslur.

Svo er og um kosningu þingmanns, er eigi er kominn, eða kjörbrjef hans, þá er þing er sett.“

Mjer finst þetta nægja til þess að taka af allan vafa um það, að þing geti gert kosningu ógilda án þess að nokkur kæra komi fram.

Jeg þarf þá að snúa mjer að hv. 3. landsk., en þar eð hann er ekki viðstaddur, verða flokksbræður hans að taka upp það, sem jeg vildi beina til hans.

Hann sagði, að J. A. J. hefði enga kosningaskrifstofu haft í Norður-Ísafjarðarsýslu í sumar, heldur sjálfur eingöngu stjórnað öllum kosningaundirbúningi. Jeg veit ekki, hvort það á að skilja sem lof eða last um J. A. J., að hann hafi staðið einn fyrir kosningavjelinni í N.-Ísafjarðarsýslu. En á hinn bóginn verð jeg að halda, að þetta sje al]s ekki rjett, og hafi þá hv. 3. landsk. eða að minsta kosti J. A. J., ef það er eftir honum, ekki sagt satt frá þessu, því að af rannsóknarskjölum sjest ekki annað en það hafi að minsta kosti verið mjög náið samband milli kosningaskrifstofu Íhaldsins á Ísafirði og kjósenda í N.-Ísafjarðarsýslu, og sjerstaklega virðist sambandið hafa verið náið milli kosningaskrifstofunnar og stoða Íhaldsins í N.-Ísafjarðarsýslu, þeirra, sem við atkvæðafölsunina eru riðnir. Það væri t. d. fróðlegt, ef það upplýstist dálítið nánar um ferðalag Eggerts Halldórssonar til Ísafjarðar morguninn 5. júlí, þegar komin voru upp svikin, rjett áður en dómarinn kemur til þess að taka atkvæðin í Hnífsdal, sem síðar er haldið, að hafi verið endurfölsuð.

Hv. 3. landsk. beindi nokkrum spurningum til jafnaðarmanna, og vil jeg svara þeim. Jeg geri ráð fyrir því, eftir því sem jeg og aðrir þekkja skapgerð þessa hv. þm., að hann vilji ekki fara með neinar dylgjur, heldur aðeins fá að vita hið eina sanna og rjetta í málinu, og vil jeg því gefa honum hrein svör.

Hann spurði, hve margir af þingm. jafnaðarmanna hefðu verið keyptir inn í þingið fyrir danskt fje. Og jeg svara honum: Enginn.

Þá spurði hann, hve mikið danskt fje hefði þegar runnið í vasa jafnaðarmanna. Og jeg svara honum: Ekkert.

En úr því að hann hefir nú fengið tvö svör við þessum tveimur spurningum sínum, og þau, að því er jeg held, greið og greinileg, vona jeg, að það sje ekki ósanngjarnt, þótt jeg leyfi mjer að leggja fyrir hann spurningar á móti og biðji hann að svara þeim hjer. (JÞ: Jeg get það ekki; jeg er dauður). Jeg vona, að hæstv. forseti leyfi hv. 3. landsk. að komast að með stutta yfirlýsingu. Spurningarnar, sem mig langar til að leggja fyrir hv. 3. landsk., eru þessar:

1. Hve mikið danskt fje hefir þegar runnið til Morgunblaðsins, og þá sjerstaklega, hve lengi?

2. Hve mikið danskt fje hefir þegar runnið í kosningasjóði Íhaldsins, bæði í Reykjavík og í ýmsum kjördæmum úti um land, og þá sjerstaklega, hve lengi?

3. Hve mikið af þessu danska fje hefir komið beint frá Danmörku, og hve mikið frá dönskum atvinnufyrirtækjum og verslunum hjer í Reykjavík? og

4. hve mikið af því hefir hv. þm. fengið sjálfur, og þá sjerstaklega, hve lengi?