27.01.1928
Sameinað þing: 2. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í B-deild Alþingistíðinda. (4100)

Kjörbréf Jóns Auðuns Jónssonar

Ólafur Thors:

Það er aðeins stutt athugasemd. Jeg skal leiða hjá mjer að svara því, sem formaður Stauningsflokksins á Íslandi sagði. En það eru aðrir þm., sem jeg þarf að svara stuttlega.

Hv. 2. þm. Reykv. (HjV) sagði, að það væri venja mín að reka menn úr atvinnu fyrir pólitískar skoðanir.

Þetta lýsi jeg rakalaus ósannindi. Það fjelag, sem jeg veiti forstöðu, veitir mörgum hundruðum manna atvinnu, og jeg held það ættu allir að geta sjeð, að það hljóti að vera erfitt að velja menn úr þeim hópi eftir pólitískum skoðunum, enda hefi jeg aldrei haft neina tilhneigingu til þess og mun aldrei hafa.

Jeg vík mjer þá að hv. þm. A.-Sk., formanni Framsóknarflokksins. Hann fann ástæðu til þess að standa upp og mótmæla f. h. flokksins þeim ummælum, sem jeg hafði um þann dóm, sem jeg áleit, að Framsóknarflokkurinn hefði kveðið upp yfir hæstv. dómsmrh. við stjórnarmyndunina í sumar.

Hann sagði, að jeg gæti ekkert fullyrt um það, sem þar hefði gerst, vegna þess að jeg hefði verið þar hvergi nærri.

Mjer finst þessi rök ekki mikils virði. Jeg vil benda hv. þm. á það, að jeg var hvergi nærstaddur kosningu til Alþingis í Austur-Skaftafellssýslu í sumar, en jeg treysti mjer samt hiklaust til að fullyrða, að hann hafi notið fulls trausts kjósenda í Austur-Skaftafellssýslu til þess að taka við því trúnaðarstarfi að vera fulltrúi þess kjördæmis hjer á Alþingi, og jeg byggi það á þeirri staðreynd, að hann skipar nú það sæti. Alveg á sama hátt get jeg vel ályktað um gerðir Framsóknarflokksins við stjórnarmyndunina í sumar út frá þeim staðreyndum, sem nú liggja fyrir. Flokkurinn kvað þá upp þann dóm yfir þeim manni, sem nú er dómsmrh., að hann væri ekki bær til þess að skipa forsætið.

Nú er það alment viðurkent, að forsætið sje virðulegasta sæti stjórnarinnar. Enginn nefndi hæstv. núverandi dómsmrh. (JJ) til þeirrar tignar. Sjálfsagt hefði einhver orðið til þess, ef fyrri framkoma hans hjer á Alþingi og á stjórnmálavellinum yfirleitt hefði ekki verið sú, er jeg áður hefi lýst. Hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) skýrði frá því, að hæstv. dómsmrh. hefði stuðlað að því, að núverandi hæstv. forsrh. kæmist í það sæti, sem hann nú skipar. Það má vel vera, að hæstv. dómsmrh. hafi gert þetta. En hvernig? Jú, því er auðsvarað. Með því að vera búinn með öllu framferði í opinberum málum á undanförnum árum að bola frá þeim manninum, sem hættulegastur keppinautur var núv. hæstv. forsætisráðherra, þ. e. hæstv. núv. dómsmálaráðherra.

Jeg má til með að víkja nokkrum orðum sjerstaklega að ummælum hæstv. dómsmrh. Af þeim orðum, sem hann lætur falla um þetta kosningamál, er helst að ráða, að hann vilji telja mönnum trú um, að Íhaldsflokkurinn vilji taka vægum höndum á glæpum þeim, sem kunna að hafa verið framdir í sambandi við kosninguna í Norður-Ísafjarðarsýslu. En jeg vil biðja hv. þm. að athuga það, að rannsókn þeirra glæpa er nú fyrir dómstólunum, og þar fá þeir seku sinn dóm á sínum tíma.

Hæstv. dómsmrh. ljet í ljós, að sjer hefði skilist, að jeg mundi vera maður þekkingarsnauður og huglítill, en jeg hefði orðið auðmjúkur við þá hirtingu, sem hann hefði gefið mjer. Jeg veit satt að segja ekki, hvar hæstv. dómsmrh. hefir orðið var við auðmýkt í síðustu ræðu minni. Fanst honum jeg skirrast við að segja honum til syndanna? Jeg skal fúslega játa, að hæstv. dómsmrh. á miklu verra skilið en það, sem jeg bar á hann. En hitt hafði jeg ekki haldið, að honum myndi þykja það. En sje svo, má af því marka, að samviska hans hefir rumskað. Við virðumst hafa nokkuð svipaða heimspeki í uppeldismálum, hæstv. dómsmrh. og jeg. Jeg er einmitt þeirrar skoðunar, að nauðsynlegt sje að beita hann hörðu, til þess að fá hann til að taka sjer fram. Jeg hefi beitt þeirri aðferð, og hún er farin að hafa áhrif á hann. Í sinni seinustu ræðu var hann mun auðmýkri en áður.

Ekki veit jeg, hvort mjer er það veglega starf ætlað að annast siðferðilegt uppeldi hæstv. dómsmrh. Jeg hefi nú góða von um, að mjer mundi takast að ala hann vel upp, ef jeg legði stund á það. Jeg held, að í honum búi ýmislegt gott. En enn er það álitamál, hvort það borgar sig að vinna úr honum gullið. (Forseti: 5 mínútur eru liðnar). Hefir ákvæðum um ræðutíma ávalt verið svona fast fylgt fram? (Forseti: Af mjer).