27.01.1928
Sameinað þing: 2. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í B-deild Alþingistíðinda. (4102)

Kjörbréf Jóns Auðuns Jónssonar

Jóhann Jósefsson:

Jeg hefi hingað til setið þegjandi í þessu máli og hafði ætlað mjer að sitja hjá í umræðunum. Jeg hjelt satt að segja ekki, að hæstv. dómsmrh. og aðrir þeir, sem honum fylgja að málum, mundu fara að ámæla þeim, sem ekki tala. En þegar farið er að ögra oss Íhaldsmönnum til að tala og gefið er í skyn, að vjer sjeum að láta undan síga; þykist jeg ekki geta látið það hlutlaust.

Svo var að skilja á hv. síðasta ræðumanni (HG), að hann væri að ámæla oss Íhaldsmönnum fyrir það, að vjer verðum nú ekki svikin í Hnífsdalsmálinu. En jeg tel það ekki mitt hlutverk að verja svik. Jeg er ekki svo blindaður af flokksofstæki, að jeg álíti, að hv. Alþingi sje sá vettvangur, þar sem eigi að verja svik. Það getur verið, að hv. þm. Ísaf. sje á gagnstæðri skoðun.

Jeg viðurkenni fúslega, að það muni vera sannað, að einhverjir hafi haft svik í frammi við kosninguna í Norður-Ísafjarðarsýslu. En það mál er nú í höndum rjettra aðilja. Því vil jeg ekki gera neinar ágiskanir. Hitt er mjer fyllilega ljóst, eins og mörgum öðrum hv. þm., að þegar meiri hluti þingsins samþykti að útiloka Jón A. Jónsson frá þingsetu um tíma, var um flokksofbeldi að ræða. Þessi hv. meiri hluti hlaut að vita, að sú útilokun gat ekki orðið nema um stuttan tíma. Það er nú þegar viðurkent, að misfellur þær, sem áttu sjer stað, gátu engin áhrif haft á úrslit kosninganna. Frestunin á því að samþykkja kosningu Jóns A. Jónssonar er því augljóst ranglæti.

Hæstv. dómsmrh. vitnar mjög í það, sem gerist í samskonar málum í öðrum löndum. En jeg tók eftir, að hann hagaði orðum sínum óvenju varkárlega, þegar hann var að tala um venjur þær, sem giltu í Englandi. Jeg skil líka naumast í því, að þeim reglum, sem hann talaði um, sje beitt fullkomlega eins og hann sagði. En þeim reglum vill hann nú koma á hjer á landi.

Jeg er á sama máli og hæstv. fjmrh. um það, að litlar líkur sjeu til þess, að Alþingi takist nú að mynda sígilt fordæmi um meðferð mála eins og þess, sem nú liggur fyrir.

Háttv. þm. stjórnarflokkanna hafa gert mikið að því að lýsa þeirri hlutdrægni, sem blöð Íhaldsflokksins hafi sýnt í Hnífsdalsmálinu, og óvináttu til allrar rannsóknar á því. En jeg vil leyfa mjer að benda á það, að andstæðingar Íhaldsflokksins hafa ekki verið hlutlausir í þessu máli. Tvö aðalblöð stjórnarinnar, Alþýðublaðið og Tíminn, sjerstaklega hið fyrnefnda, hafa altaf frá upphafi bendlað einn sjerstakan flokk við svikin. Ekki höfðu fyr frjetst atburðirnir í Hnífsdal en farið var að nota þá til þess að hnekkja kosningu íhaldsmanna víðsvegar um land. Svo var t. d. í mínu kjördæmi. Andstæðingarnir báru þegar sakir á alla íhaldsmenn. Blöð þeirra eignuðu svikin Íhaldsflokknum án nokkurra skýringa. Nú segir hv. 2. þm. Reykv. (HjV), að aðeins sje átt við nokkra menn í Ísafjarðarsýslu. Þetta eru miklar upplýsingar, en þær koma nokkuð seint. Fylgismenn stjórnarinnar hafa jafnan skelt skuldinni á Íhaldsflokkinn í heild sinni.

Hæstv. dómsmrh. er hróðugur yfir því, að hann hafi verið duglegur að bera sakir á andstæðinga sína, en ljeleg mótstaða sje frá þeirra hálfu. –Margir hv. þm. hafa áður setið á þingi með hæstv. dómsmrh., á meðan hann var ekki eins rishár og nú, og þreyttust flestir á að svara honum.

Einkennilegt er að heyra hæstv. dómsmrh. tala fyrst um það, að Jón A. Jónsson sje ekkert við svikin riðinn; skömmu síðar fer hann að tala um „sekt“ hans. Gægist þarna fram sama hlutdrægnin og í blöðum stjórnarinnar. Enn eru þeir seku í Hnífsdalsmálinu ekki fundnir. En jeg staðhæfi, að íhaldsmönnum víðsvegar um land sje ekki síður en öðrum áhugamál, að þeir finnist og fái rjettmæta hegningu. Það er ósæmilegt að væna heilan stjórnmálaflokk um það, að hann vilji halda hlífiskildi yfir svikum. Hæstv. dómsmrh. sagði, að í framtíðinni væri ekki kosningasvika að vænta frá öðrum en íhaldsmönnum. (Dómsmrh. JJ: Það sagði jeg aldrei). Jeg heyrði hæstv. dómsmrh. segja þetta, en það getur verið, að hann hafi ekki heyrt til sín sjálfur.

Eins og jeg tók fram í upphafi ræðu minnar, hefði jeg helst kosið að þurfa ekki að lengja þessar umræður. En jeg vildi ekki þola brýningar hæstv. dómsmrh. og hv. þm. Ísaf. (HG). Hjá fylgismönnum stjórnarinnar rekur hver óhæfan aðra. Það er ósæmilegt að láta alla kosningabæra menn í N.-Ísafjarðarsýslu gjalda þess, að einhverjir svikahrappar hafa framið glæp í Hnífsdal. Enn svívirðilegra er þó að kenna íhaldsmönnum sem stjórnmálaflokki um fölsunina.

Hæstv. dómsmrh. er mjög upp með sjer af því, að flokkur sinn skuli hafa falið sjer að vera „vörður laga, siða og rjettlætis“ í landinu, eins og hann orðar það. Hann hefir oft sagt hjer áður en hann komst í það sæti, sem hann nú er í, að embættismönnum þeim, er hann var að færa að í það og það sinni, myndi hafa verið ætlað að fá vit með embættisveitingunni. Jeg vil enda mál mitt með því að óska hæstv. dómsmrh. þess, að honum gefist meira vit framvegis til þess að rækja sitt vandasama starf en framkoma hans í því fram að þessu ber vott um í flestum greinum.