27.01.1928
Sameinað þing: 2. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í B-deild Alþingistíðinda. (4105)

Kjörbréf Jóns Auðuns Jónssonar

Hjeðinn Valdimarsson:

Háttv. 3. landsk. (JÞ) og hv. þm. Vestm. (JJós) höfðu eftir mjer, að jeg teldi kosningavjel Íhaldsflokksins eingöngu seka um kosningasvikin í Norður-Ísafjarðarsýslu. Það er rjett, að jeg álít svikin vera af völdum kosningavjelarinnar fyrir vestan. En þar með er ekki sagt, að ekki sjeu fleiri sekir en óbreyttir liðsmennirnir. Hver stjórnar kosningavjelinni þar vestra? Það atriði er enn ekki upplýst. En höndin, sem framkvæmir, er ekki sekari en heilinn, sem hugsar.

Háttv. þm. höfðu eftir mjer, að jeg hefði viðurkent, að Íhaldsflokkurinn væri ekki sekur um kosningasvikin. Ef hv. þm. eiga við óbreytta kjósendur Íhaldsflokksins, þá er þetta rjett. En hverju ráða kjósendurnir? Engu. Það er ekki þannig, að þeir kjósi flokksstjórn sína. Það eru sjálfvaldir menn, sem ráða stefnu flokksins. Þess vegna eru það forráðamennirnir í Íhaldsflokknum, sem stjórna Morgunblaðinu og Vesturlandi, sem eru samsekir í Hnífsdalshneykslinu.

Hv. þm. Vestm. gat um hlutdrægni í skrifum Alþýðublaðsins um þetta mál og vill með þessu afsaka hlutdrægni íhaldsblaðanna. En hann getur ekki bent á eitt einasta Alþýðublað, þar sem sagt er frá máli þessu af hlutdrægni. Blaðið hefir átalið tómlæti fyrverandi stjórnar og hinar ósæmilegu aðfarir Íhaldsmanna í þeim tilgangi að tefja fyrir rannsókninni, en ekkert þar fram yfir. En eftir að íhaldsblöðin hafa hamast eins og þau hafa gert, og þegar maður veit, hve mikil áhrif miðstjórn Íhaldsflokksins hefir á skrif sinna blaða, þá verð jeg að segja, að á henni hvílir þung ábyrgð.