27.01.1928
Sameinað þing: 2. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í B-deild Alþingistíðinda. (4106)

Kjörbréf Jóns Auðuns Jónssonar

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg ætla aðeins að svara hv. þm. Dal. (SE) fáeinum orðum.

Jeg býst við, að þegar flokk mínum þætti hann hafa of mikið á samviskunni með því að hafa mig fyrir dómsmálaráðherra, þá yrði höfð við mig sama aðferð og þrisvar sinnum hefir verið höfð við hv. þm. Dal. En ef jeg lærði svo af mínum fyrirrennara (SE) eins og hægt er að gera á vissan hátt, þá býst jeg ekki við, að dauðastund mín yrði átakanleg. Þegar hann fór úr ráðherrastólnum, veltist hann ekki niður, heldur steig hann upp í hina mjúku fínu sæng erlendra hluthafa, með 25 þúsund kr. á ári. Hann veitti sjer sjálfur eitthvert feitasta embætti landsins. (SE: Og ráðherra Framsóknarflokksins var með). Það er ekki fallegt að vera að draga af þessu. Undir brjefinu stóð: Ráðherra veitti Sigurði Eggerz. Hv. þm. Dal. framdi ekkert lagabrot í venjulegum skilningi þess orðs. En athæfi hans var gróft brot á siðferðislögum landsins, meira að segja eitthvert það ljótasta, sem komið hefir fyrir í pólitískri sögu landsins. Þetta er ástæðan til, að hv. þm. Dal. (SE) er — kannske ekki öreigi — heldur pólitískur einyrki. Þess vegna má hv. þm. Dal. vara sig á að nefna lagabrot.