27.01.1928
Sameinað þing: 2. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í B-deild Alþingistíðinda. (4116)

Kjörbréf Jóns Auðuns Jónssonar

Magnús Jónsson:

Það er fjarskalega vel við eigandi endir á öllu þessu orðbragði hæstv. dómsmrh. (JJ), að hann, í fyrsta skifti sem bóndi verður forseti í Ed., stimpli hann fyrir að hafa framið allskonar lögbrot og þingskapabrot og stjórnarskrárbrot í stjórn sinni á fyrstu fundum deildarinnar. Það sýnir, hvernig hæstv. dómsmrh. er í ætt skotið í þessu bændaráðuneyti, sem hann er í. Svo bætir hann því ofan á, sem mun eiga að fegra málstaðinn, að hann hafi ekki fengið að ráða þessu sjálfur, heldur hafi flokkurinn ákveðið að neyða þennan heiðarlega mann út í þetta. Hann sagði: „Okkur þótti það rjett, úr því Íhaldsflokkurinn var búinn að fremja þetta í fyrra“, — þetta þokkaverk, eftir því sem þeir sjálfir lýsa. (Dómsmrh. JJ: Var það ekki fallegt í fyrra?). Það hefir aldrei nokkur Íhaldsþingmanna álitið það öðruvísi en sem nauðsynlegt eftir eðli hlutarins. Það var hæstv. núverandi dómsmrh. (JJ) og hv. 5. landsk. (JBald), sem risu upp með þessum dæmalausa þjósti í fyrra út af þessu máli. Og það er hæðni örlaganna, að þetta skyldi snúast að einum allra mætasta og ágætasta manni innan þeirra flokks og fyrsta bónda, sem situr í forsetastóli í Ed.

Þó að maður hafi ekki nent að taka þátt í þessum umræðum, er það þó freistandi, þar sem umræðurnar eru komnar á svo breiðan grundvöll undir þolinmæði hæstv. forseta (MT). Hvað eftir annað hefir hæstv. dómsmálaráðherra verið að lýsa eftir andstöðu og ögrað okkur fyrir, að við ekki notuðum samskonar orðbragð og hann lætur sjer sæma að nota hjer í kvöld. Þetta notar hann sem sönnun, að Íhaldið sje slegið af sinni vondu samvisku, af því að ekki stendur hver um annan þveran upp að svara þessu rausi í honum. Hann hefir verið að vitna í Shakespeare. Þekkir hann þá ekki það, sem nær honum er: Steingrím og stökuna hans um hundaþúfuna og fjallið.

Annars hefir það verið svo hjer í kvöld, að kjarni málsins hefir gleymst ákaflega mikið í öllum þessum umbúðum. Það er dálítið gaman um þennan dæmalausa vandlætara um málæði, hvað honum hefir tekist að blása upp sápukúlum um þetta nauða einfalda mál. Stjórnarblaðinu hefir þótt vert að minna á, hvenær er aukið við skrifurum. Ætli það komi ekki í stjórnarblaðinu nú, að fjórum hefir verið bætt við í dag?

Það er merkilegt, að hæstv. ráðh. vitnar aftur og aftur í kosningu Matthíasar Ólafssonar frá 1912. En hann hefir aldrei getað farið rjett með það mál, og enginn af hans flokksmönnum hefir verið svo góður að skjóta því að honum, að hann færi með eintóma vitleysu. Það var sem sje alls ekki Kristinn Daníelsson, sem kom með kjörbrjefið, heldur var það mótherji hans, Matthías Ólafsson. Það var kjörstjórnin heima í hjeraði, sem hafði úrskurðað kjörseðlana ógilda og gefið Matthíasi kjörbrjef upp á það. Það kom því aldrei til að senda sjera Kristin heim, því að hann fjekk aldrei kjörbrjef. Jeg ráðlegg nú hæstv. dómsmrh. að leiðrjetta þessa vitleysu í handritinu, svo að hún komist ekki í þingtíðindin og kjósendur hans sjái, hve vandlega hann fer með heimildir.

Annars er það sannast að segja, að þetta er gömul kosning og ekki gott að dæma um hana. En jeg hefi hinsvegar heyrt vitnað í þennan úrskurð 1912, þegar talað er um, hve þinginu sjeu mislagðar hendur í að úrskurða kosningakærur. Og jeg býst við, að því hafi hugur hæstv. dómsmrh. flögrað um þetta eins og fluga kringum ljós, að hann hafi fundið þar nokkurn veginn fordæmi fyrir sínum eigin aðförum og sinna flokksmanna nú. En það er öllum augljóst, að allur gauragangur hans í þessu máli er ekki annað en máttlaus umbrot heiftrækinna manna, sem vilja ná sjer niðri á andstæðingunum fyrir það, að þeir unnu kosningasigur í þessu kjördæmi. Það, sem saknæmt er í málinu og enginn þm. hefir nokkurntíma reynt að mæla bót á nokkurn hátt, það er nú fyrir dómstólunum. Þingið sker ekki úr öðru en því, hvort kosningin sje gild eða ekki. Það væri líka dálítið einkennilegt, ef þingið ætti nú, meðan málið er undir rannsókn, að ógilda kosninguna af þeim ástæðum, sem ekki eru ennþá fullkomlega upplýstar, eftir því sem hæstv. ráðh. segir sjálfur. Það er enginn búinn að dæma í málinu, nema Tíminn og Alþýðublaðið, hvort þessir menn eru sannir að sök. Það, sem menn hafa heyrt af rannsókninni, getur vakið grunsemdir, en það væri alveg fullkomin óhæfa, ef þingið hlypi til og feldi dóm í því máli á undan dómstólunum.

Hæstv. dómsmrh. verður að játa það, að samt sem áður hlyti kosning Jóns Auðuns altaf að vera trygð með nægilegum fjölda heiðarlegra og rjett greiddra atkvæða.

Annars hefir ekki verið minst á eitt hjer, sem er í raun og veru stórt atriði í þessu máli. Það er þessi gamla regla, sem var sett upp hjá Rómverjum forðum af Cicero, að þegar eitthvert brot var framið, mætti spyrja: Cui bono? — eða á íslensku: hver hafði haginn af verkinu?

Hver hefir hagnýtt sjer kosningasvikin þarna vestra? Ekki þurfti á þeim að halda til þess að kosning Jóns Auðuns væri trygð. Hvaða áhrif hafði þetta á kosningarnar í sumar? Jeg veit það, að þegar haldinn var hjer einn undirbúningsfundur í sumar, þá var alt í einu þessum eitruðu gorkúlum hent inn á fundinn: stór kosningasvik Íhaldsins vestur í Ísafjarðarsýslu! Þarna sjáið þið, hvernig Íhaldið er! Hv. þm. Vestm. (JJós) gat um það sama að því er til Vestmannaeyja kemur. Við getum getið því nærri, hvernig það hefir gengið á Ísafirði, eftir því að dæma, hvað hamast var út af því í blöðunum og annarsstaðar. Þá var þessi alþekta aðferð notuð, sem hæstv. dómsmrh. hefir, þegar hann er að vefa blekkingavefinn í stjórnarblaðinu. Það má vera, að þetta hafi ráðið kosningu í fleiri eða færri kjördæmum. Sú lúalegasta aðferð, sem til er í kosningum, það er að dreifa út ýmist rökstuddum eða rakalausum áburði rjett fyrir kosningarnar. Hafi menn einhverjar sprengikúlur til, þá er best að fleygja þeim meðal almennings rjett áður en kosning fer fram, til þess að ekki sje hægt að fara til hvers manns og sýna fram á, hvað er á ferð. Nei, það er ómögulegt að segja, hve miklu þetta hefir ráðið í kosningunum. Getur verið, að háttv. 4. þm. Reykv. (SÁÓ) sæti ekki hjer, ef ekki hefði verið þessum brellum beitt við þá, sem veikastir voru fyrir. Jeg skal ekki segja, hvort hv. þm. Ísaf. (HG) sæti hjer heldur. Það getur verið, að hæstv. dómsmrh. sitji hjer í ráðherrastóli af náð Hnífsdalssvikanna. (Dómsmrh. JJ: Mikill er kraftur Hálfdánar!). Já, mikill er kraftur Hálfdánar! Mjer finst að minsta kosti, að ef svikin hafa verið framin, þá sje það mjög samboðið öllu málinu, að við höfum fengið þennan hæstv. dómsmrh. upp úr því.

Sá eini aðili, sem liðið hefir við þetta, er Íhaldsflokkurinn. Að þessu er dreift út undir Íhaldsflokksins nafni af þessum duglegu frjettaberum, það hefir getað gert hans málstað talsverðan miska í kosningunum. Og eftir þessa framkomu er svo farið að halda því fram, að Íhaldsflokkurinn sje afskaplega sekur í þessu máli. Það er alveg eins og böðullinn færi að kvarta undan píslarvottinum. Þetta, sem fram hefir komið í þessum löngu og dæmalausu ræðum hæstv. ráðh. (JJ) og samflokksmanna hans, sósíalistanna, það er ekkert annað en framhald af þessu sama, sem hafið var í sumar, — að blása þetta mál upp með látlausum rógburði. Það er farið langt aftur í tímann, vitnað í kosningar 1919 og 1923 og vaðið út í margt, sem kemur ekkert þessu máli við.

Hæstv. ráðh. (JJ) var að tala um það, að það hefði andað kalt til rannsóknardómarans, þegar hann kom vestur. Jeg skal ekki segja um það, en ef svo hefir verið, þá er ekki mikill vandi að vita, hver er ástæðan. Þegar einn ákveðinn flokkur er búinn að taka í sig að gera þetta að stórkostlegasta æsingamáli, búinn að draga inn í málið mann, sem allir vita, að hvergi kom nærri, búinn að básúna það í blöðum sínum og nota hvern anga af því til þess að gera það að pólitísku æsingamáli, þá er það sama, hversu valinkunnur maður er sendur; mönnum hlýtur að standa ýmugustur af þessu öllu saman. Hitt er gott, ef rannsóknardómarinn hefir hrakið allar slíkar grunsemdir burt með framkomu sinni. Og mjer virðist eftir skeytum að dæma, að rannsóknardómaranum hafi tekist að gera mun betra úr þessu en búast mætti við, eftir því hvernig hæstv. stjórn hafði búið í haginn. Þar að auki má geta þess viðvíkjandi röggsemi hæstv. ráðherra, að allir vissu þarna vestra, að þessi sama hæstv. stjórn er skeytingarlaus um það, hvort hún heldur eða brýtur landsins lög.

Það var nú svo sem auðvitað, að þegar hæstv. dómsmrh. tækist upp, að hann yrði liðtækur í aurkastinu, og skal jeg viðurkenna, að hann hefir í því tilliti staðið sig gróflega vel í þeirri viðureign, sem hjer hefir farið fram. Þegar farið er út í fúkyrðakast, þá held jeg, að það sje enginn maður á landinu, sem stendur honum á sporði, að geyma í minni sjer allskonar dylgjur um menn og málefni, muna það á fingrum sjer og hafa altaf tiltækt. Á þingi í fyrra gat hann t. d. frætt hv. Ed. um það, hvað vinnukonur norður á Akureyri dreymir! Það er því ekki furða, þótt hann viti eitthvað um þá, sem hann er að berjast við, því ekki sparar hann að láta frjettasnata sína lepja í sig sögurnar. Þetta er líka orðin svo mikil hít af öllu illu, sem sagt verður um náungann, að það er ótrúlegt. Það er dágóð saga, sem gekk um það, þegar maður nokkur í sveit á Norðurlandi sá Jón heitinn Magnússon. Hann hafði haldið, að Jón Magnússon hlyti að vera ógurlegur dólgur, með vígtennur eins og bolahundur og blár og bólginn af mannvonsku, en svo sá hann þarna þennan prúða mann. „Er þetta Jón Magnússon?“ Þetta hefir náttúrlega verið ágætur Framsóknarmaður, sem hefir lesið Tímann.

Það er því ekki að furða, þótt manni alveg dámi, þegar þessi dæmalausa frjettamiðstöð og mannskemdafrömuður, sem vel mætti heita „vefarinn mikli frá Leiti“, stendur upp og ætlar að fara að kenna hjer „fair play“, — þær fögru íþróttareglur, er enskir „gentlemenn“ eru í margar kynslóðir búnir að temja sjer og samþýða sínu insta eðli. Englendingar segja, að þrjár kynslóðir þurfi til að búa til „gentlemann“. Vissulega eru að minsta kosti tíu kynslóðir milli hæstv. dómsmálaráðherra og „gentlemanns“, og því óralangt frá því að hann geti sjálfur beitt, og því síður kent öðrum „fair play“.

Það var einstaklega fallega gert af hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) að leggja gott orð inn, til þess að menn skuli ekki halda, að Framsóknarflokkurinn hafi ætlað að gera þessum hæstv. dómsmrh. neina lítilsvirðingu, þótt hann yrði ekki gerður að forsrh. „Litlu verður Vöggur feginn,“ má segja um hæstv. dómsmrh., þegar hann svo stendur upp til þess að bera fram sleikjulegt þakklæti til þessa hv. þm. fyrir hólið. En jeg verð að taka undir með hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh), að þegar litið er á forsögu hæstv. ráðherra við myndun flokksins, þá er það í raun og veru hreinasta vantraust, að hann skyldi ekki vera gerður að forsrh. (LH: Hann kærði sig ekki um það). Hann kærði sig ekki um það! Ætli fleiri af flokki hæstv. ráðherra standi ekki upp og vitni um, að hann hafi ekki kært sig um að verða forsrh.? Jeg bíð. Nei, það lítur ekki út fyrir, að fleirum sje mál í bili. En ætli það sje þá ekki af því, að þegar hv. þm. voru farnir að heyra ræður þessa háttv. þm., þá hafi þeim þótt skárra að hafa hann í þeim ráðherrasætum, sem austar eru. Þar ber þó minna á honum.

Það eru tvær leiðir til að vinna sig upp. Önnur er að gera það með því að hækka sjálfan sig. Hin með því að troða aðra niður. Það var eins og Cicero sagði: „Orustan við Cannae hefir gert þig að góðum málaflutningsmanni.“

Jeg skal ekkert fara út í umr. þær, sem orðið hafa um amerísku lántökuna. En þó verð jeg að segja það, að þó fje vanti til rekstrar atvinnufyrirtækjum, þá kemur það beint ekki við gjaldþoli ríkisins. Og hvort sem Íslandsbanki eða aðrir hafa fengið þetta fje, eða ættu að fá það, þá var það vegna atvinnuveganna gert.

Það er hálfóviðkunnanlegt, að hæstvirtur dómsmálaráðherra er að tala hjer um það, sem gerist á lokuðum fundum bankaráðs Landsbankans. En þetta er algengt. Það hefir meira að segja komið fyrir, að birt hefir verið í Tímanum ályktun bankaráðsins áður en búið var að bóka hana í fundabók bankaráðsins. En hæstv. ráðh. er nú svoddan einstakt lekahrip, að hver dropi, sem í hann kemur, flæðir út um allar jarðir.

Það er hart, að hæstv. dómsmrh. þykist vera að siða aðra. Sjálfur hefir hann orðið fyrir þeirri hörðustu og sterkustu hirtingu, sem nokkur þingmaður hefir orðið fyrir. En hana fjekk hann í Ed., þegar hann hafði þreytt áheyrendur sína svo með dylgjum og fúkyrðum, að lengur var ekki við vært. Þetta minnir á hirtingu, sem Grímur Thomsen á Bessastöðum veitti vinnumanni, sem eitthvað hafði gert fyrir sjer og ætlaði svo að skjótast undan refsingu. Grímur tók þá stóra hundasvipu í hönd og ætlaði að berja hann. „Stattu kyr,“ sagði Grímur. Og vinnumaðurinn stóð kyr. „Leystu niður um þig,“ sagði Grímur. Og það gerði maðurinn. „Legstu niður,“ sagði Grímur, og hann gerði það. „Nú máttu fara,“ sagði Grímur, „meiri skömm hefir aldrei verið gerð nokkrum Íslendingi.“ — Meiri skömm hefir aldrei nokkrum íslenskum þingmanni verið gerð en sú, sem hv. Ed. sá sig tilneydda að gera núverandi hæstvirtum „verði laga, rjettar og siðgæðis“ í landinu.

Jeg játa það, að hæstv. ráðh. er duglegur að standa í skömmum. En aðferð hans minnir mig á stráka, sem jeg sá eitt sinn búna til bardaga hjer á götunni. Þeir höfðu prik að vopnum, og þetta var leikur þeirra. En svo tekur einn þeirra blautan poka upp úr göturæsinu og slær með honum í kringum sig. Hinir flýðu, allir ataðir eftir pokann. Ef þessi strákur hefir verið líkur þessum hæstv. ráðherra að innræti og hafi sjálfur fengið slettur af pokanum, þá er hann vís til að hafa kent hinum strákunum um það. En hefði hann viljað gera sig verulega líkan hæstv. ráðherra (JJ), þá hefði hann átt að enda þennan fagra leik með dálítilli prjedikun um enskt „fair play“.