31.01.1928
Sameinað þing: 3. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í B-deild Alþingistíðinda. (4119)

Kjörbréf Jóns Auðuns Jónssonar

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Þegar við skildum síðast við hjer í sameinuðu Alþingi, hafði verið haldin löng ræða af manni, sem eflaust vildi bera blak af kosningarsvikunum í Hnífsdal, en nauðalítið af ræðunni snerist um það efni, svo að því þarf ekki að svara hjer. Það var sem sagt varla eitt orð í henni, sem snerti það mál. Hinsvegar hefir ræðan eflaust átt að vera nokkurskonar gagnsókn í málinu, og þá var hún ekki nema framhald af fyrri verkum þeirra Íhaldsmanna í þessu fræga Hnífsdalsmáli, því að þangað til skeytið kom að vestan um daginn, hafa þeir gert alt, sem þeir hafa getað, til þess að fóðra þetta glæpamál. Gagnsókn háttv. 1. þm. Reykv. hefir sennilega verið gerð í því skyni að sýna fram á, að í stjórnarflokknum væru líka misfellur, sem vega myndu á móti þessum sönnuðu syndum Íhaldsmanna, en hann kom ekki með eitt einasta dæmi, sem benti í þá átt, að Framsóknarmenn hefðu haft svik eða fals við kosningar, eða gert neitt, sem sambærilegt væri við hinar umræddu gerðir íhaldsmanna. Gagnsóknin var því mest fólgin í því einu að fara nokkrum orðum um mig persónulega, því að hann kom ekki með eitt einasta mál, sem jeg hafði komið fram með og gat gefið honum tilefni til árása á mig: Umræðuefnið var því ýmsir gallar, sem hann taldi á mjer vera persónulega. Hvað snertir orðbragðið á ræðu hans, þá líktist það helst orðbragði, sem Danir segja, að sje hjá fólki í Vagnmakaragötu í Kaupmannahöfn. Til orðbragðs þessa skríls vísa Danir altaf, þegar þeir vilja lýsa verstu tegund af munnsöfnuði ómentaðra og spiltra manna. Það hefði því ekki þótt ómerkilegt í Danmörku, ef slíkt orðbragð sem þetta hefði heyrst hjá prestvígðum manni, og það meira að segja hjá kennara í guðlegum fræðum við æðstu mentastofnun þjóðarinnar. Áður en jeg vík að þessari frægu ræðu hv. 1. þm. Reykv., þá vildi jeg fara nokkrum orðum um Hnífsdalsmálið eins og það horfir við nú.

Síðan síðasta fundi lauk í Sþ., hefir ekkert skeyti komið frá sendiherra okkar í Kaupmannahöfn um kosningavenjur í Englandi. En það var einmitt vitneskjan um það, hvernig Englendingar taka á svona málum, sem hlaut að verða stærsta atriðið í leit Alþingis eftir erlendum fordæmum, því að það er einmitt þessi þjóð, sem mesta þingreynslu hefir að baki sjer, og jeg vil taka undir það, sem einn amerískur rithöfundur sagði, að þegar Englendingar hafa gefið sitt besta, þá er komið nokkuð nærri því, sem best er til í veröldinni. En þó að þessi opinbera tilkynning hafi enn ekki borist hingað, vona jeg, að hún geti þó orðið til gagns og leiðbeiningar við þá lagasmíð, sem væntanlega verður gerð um þetta efni síðar.

En síðan mál þetta var til umræðu síðast, hefir komið hingað til bæjarins mjög merkur Englendingur, sem jeg hefi spurt frekar um, hvaða reglur giltu alment um kosningasvikakærur í hans landi. Og þó að þessi Englendingur hafi aldrei á þingi setið, geymir hann þó hjá sjer ýmislegan fróðleik um reglur og venjur landa sinna í þessu efni. Alt, sem hann sagði mjer, bar nákvæmlega heim við það, sem jeg hefi áður drepið á, en til viðbótar skal jeg þó nefna sjerstakt atriði.

Það, sem aðallega er lögð áhersla á í Englandi, er það, að frambjóðandi, skrifstofa hans eða stuðningsmenn hafi ekki nein svik í frammi eða sýni á annan hátt ódrengskap í undirbúningi kosninganna. Algengast er, að menn reyna að koma við mútum, en á því er tekið hart. T. d. eru það kallaðar mútur, ef leigður er bíll til þess að flytja kjósanda á kjörstað, og er þar af leiðandi ekki heimilt.

Þá er og algengt, að menn koma að kjörborðinu undir fölsku nafni og greiða atkvæði fyrir aðra.

En skrifleg fölsun atkvæða, eins og átt hefir sjer stað í Norður-Ísafjarðarsýslu, taldi þessi Englendingur, að sjaldgæf mundi vera þar í landi.

Sá, sem þykist hafa orðið fyrir misrjetti við kosningarnar, kærir til hins opinbera, og kemur málið fyrir dómstólana. Og ef dómarinn kemst að þeirri niðurstöðu, að um sviksamlegt athæfi sje að ræða á einn eða annan hátt, annaðhvort í sambandi við frambjóðandann sjálfan, skrifstofu hans eða að skipulagsbundinn flokkur sje riðinn við svikin, þá er kosningin dæmd ógild og mótkandídatinum úrskurðað þingsætið. Og það er ekki látið sitja við þetta: frambjóðandi, sem þannig hefir orðið sannur að sök um sviksamlegt framferði í undirbúningi kosninga, hann fær ekki að bjóða sig fram aftur, svo að flokkur hans verður að leita að nýjum frambjóðanda. Og þetta er gert til þess að sýna og sanna frambjóðanda og stuðningsmönnum hans, að þeir eiga sjálfir mest á hættu, ef þeir nota ódrengileg meðul til þess að koma málum sínum fram og vinna kosninguna. Og jeg get ekki neitað því, að jeg verð að telja þessa viðbótarskýringu á drengskaparreglum Englendinga athyglisverða í sambandi við þetta mál, sem hjer er til umr.

En eigi að binda enda á þetta mál nú með því að samþ. kosningu Jóns Auðuns, þá verð jeg að telja það óheppilegt, af því að rannsóknardómarinn er enn að finna nýja atkvæðaseðla, sem gera má ráð fyrir, að sjeu falsaðir.

Þannig telur rannsóknardómarinn sig hafa fundið, síðan hv. kjörbrjefanefnd talaði við hann, tvo seðla meðal hinna skriflegu atkvæðaseðla úr Strandasýslu, sem líklega sjeu falsaðir, og byggir þann grun sinn á því, að önnur rithönd sje á seðlunum en fylgibrjefinu.

Báðir þessir seðlar eru komnir frá skrifstofu bæjarfógetans á Ísafirði, þar sem viðkomandi menn höfðu kosið í sumar, og að því er virðist undir handarjaðri nokkurra stuðningsmanna Jóns Auðuns.

Við vitnaleiðsluna hefir það komið í ljós, að mennirnir hafa kosið í innri skrifstofu bæjarfógetans. Er þó ekki þar með gefið í skyn, að bæjarfógetinn á Ísafirði sje riðinn við fölsun þessara seðla. En grunur hefir fallið á mann á Ísafirði, sem kynti sig að því að vera áhugasamur kosningasmali Íhaldsins, og hann var eitthvað að snúast þarna í skrifstofu bæjarfógetans, virtist vera þar eins og heimagangur, og kom með öðrum manninum, ef ekki báðum, í skrifstofuna til þess að kjósa. Atkvæðin voru svo skilin eftir í vörslum bæjarfógeta.

Nú hefir náðst í annan kjósandann, sem staddur er hjer í bænum, og hann verið yfirheyrður; en þegar honum var sagt að finna atkvæðaseðil sinn meðal skriflegu atkvæðanna úr Strandasýslu, gafst hann upp við það og fullvissaði í rjettinum, að seðilinn væri ekki að finna þar. Virðist því ljóst, að seðill þessa manns sje horfinn, en annar falsaður kominn í staðinn.

Í hinn manninn hefir ekki náðst enn, en það er von á honum hingað til bæjarins með Goðafossi, og verður hann þá yfirheyrður.

Hjer sýnist því vera um tvær nýjar falsanir að ræða. Hinsvegar virðist það liggja í augum uppi, að skift hefir verið um seðlana á þeim tíma, sem leið frá því, að mennirnir kusu í innri skrifstofu bæjarfógetans á Ísafirði og þangað til brjefið kom í hendur yfirkjörstjórnarinnar í Strandasýslu.

Jeg drep aðeins á þetta atriði til þess að skýra, að það er að koma betur og betur í ljós, hvað þetta Hnífsdalsmál er margþætt og yfirgripsmikið og að langt sje frá, að enn sje komið að nokkrum botni í því.

Jeg ætla þá um stund að víkja að þeim tveim aðalmálum, þar sem gerð hefir verið gagnsókn á hendur Framsóknarflokksins með því að ráðast á mig.

Út af því, sem hv. 1. þm. Reykv. (MJ) sagði um efrideildarhneykslið 1926, þá virðist mega ætla, að þeir menn, sem að því stóðu, hafi verið á svipuðu menningarstigi og aumingjarnir, sem riðnir eru við Hnífsdalsmálið. Þessum tveim ljósmyndum, sem teknar hafa verið af andstæðingum Framsóknar, hefir þessum hv. þm. (MJ) fundist rjett að stilla hlið við hlið.

Jeg mun því athuga nánar þessa tvo atburði og sambandið, sem milli þeirra er, en að því loknu mun jeg víkja lítilsháttar að hv. 1. þm. Reykv. og hans pólitíska lífi hjer á þingi og sýna, hvernig þessi íhaldsfjóla lítur út í urtapotti þeim, sem hún hefir vaxið í.

Deilumálið frá 1926 var þannig vaxið, að andstæðingar mínir, bæði blaðamenn og meiri hl. Íhaldsflokksins í hv. Ed., hjeldu því fram, að það væri mjög mikil sök á hendur mjer að hafa ekki farið í meiðyrðamál við aldraðan borgara þessa bæjar, sem hent hafði það að láta nokkur ógætileg orð falla í minn garð á prenti.

Áður en sú saga er lengra rakin, ætla jeg að lýsa afstöðu okkar tveggja, sem mest höfum ritað í Tímann, til meiðyrðamála, og verð jeg þá að minnast samverkamanns míns í öll þessi ár, hæstv. forsrh. (TrÞ).

Það var fyrir nokkrum árum, að þrír þm. notuðu þingmannsaðstöðu sína til þess að kaupa allmikið af fóðursíld, sem síðar sannaðist, að þeir hefðu gert að hagkvæmri verslun fyrir sjálfa sig og auðgast af.

Þáverandi ritstjóri Tímans, Tryggvi Þórhallsson, ritaði allskarpa grein um þetta verslunárbrask og komst meðal annars svo að orði, að þessir menn hefðu liðið skipbrot á þingmannsæru sinni. Þessum þm. og síldarbröskurum sveið undan hirtingunni, og tveir af þeim, Þórarinn á Hjaltabakka, sem síðar varð ein af máttarstoðum Íhaldsflokksins, og Magnús Pjetursson, þáverandi þm. Strandamanna, fóru í meiðyrðamál við ritstjóra Tímans fyrir ummælin, sem bæjarfógetinn í Reykjavík, hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), dæmdi meiðandi og ritstjórann í sekt. Hitt veit jeg ekki, hvort bæjarfógetinn hefir litið svo á, að þingmenn mættu yfir höfuð fara svona að, eins og þessir þrír þm. höfðu gert með síldarbraski sínu. En atburðirnir hafa hagað því svo, að annar dómstóll hefir dæmt í þessari sök, og sá dómstóll er almenningsálitið eða þjóðin sjálf, og hún hefir ekki aðeins látið sjer nægja að dæma þessa hv. þm. seka og út úr þinginu, heldur er ritstjórinn, sem sektaður var af bæjarfógetanum í Reykjavík fyrir að halda því fram, að þremenningarnir hefðu liðið skipbrot á þingæru sinni fyrir síldarbraskið, nú forsætisráðherra með stærri meiri hluta að baki en nokkur stjórn hefir haft síðan Björn Jónsson varð ráðherra á þinginu 1909.

Núverandi hæstv. forsrh. (TrÞ) hefir aldrei stefnt fyrir meiðyrði og aldrei farið í meiðyrðamál. Hann hefir altaf skotið málum sínum undir almenningsálitið, sem æðioft virðist komast að annari niðurstöðu en bæjarfógetinn í Reykjavík, svo góður og gegn maður sem hann er að öðru leyti álitinn. Jeg hefi líka fylgt þessum sama sið eins og fyrverandi ritstjóri. Báðir höfum við látið okkur nægja dóm almenningsálitsins, en ekki óskað að hafa fje af mönnum út af vanhugsuðum gremjuyrðum þeirra, þó að orðbragð Morgunblaðsins sje svo, að jeg gæti sjálfsagt stefnt því að jafnaði 10 meiðyrðastefnum daglega, ár eftir ár, og fengið það dæmt til sektar. En jeg tel það langt fyrir neðan virðingu mína að standa í slíku.

Annars virðist það svo, að síðan meiðyrðamálahríðinni miklu ljetti á milli Lögrjettu og Ísafoldar á árunum 1910–'12, þá hafi flestir nema viðvaningar Íhaldsmanna lagt niður meiðyrðamálabaráttu eldri ára.

Jeg get líka sagt um okkur Framsóknarmenn, að við höfum ekki haft það til siðs að erfa köpuryrði við andstæðinga okkar. Jeg get t. d. getið þess um mig, að í vetur gerði jeg Þórarni á Hjaltabakka greiða, sem honum kom vel. Svoleiðis stóð á, að hann þurfti að fara hingað suður, en hálfkveið fyrir að brjótast það landveg um hávetur. Jeg komst að þessu og gat greitt svo fyrir honum, að hann fjekk beina skipsferð hingað, og seinna, þegar hann hafði lokið störfum sínum hjer, útvegaði jeg honum hagstæða skipsferð heim til sín. Þó er þetta gamall andstæðingur minn, sem ekki hefir sparað ósannindi og illyrði í minn garð í viðureign okkar á leikvelli stjórnmálanna.

En viðvíkjandi gagnsemi meiðyrðamála í opinberu lífi er þess að gæta, að svo hefir nú snúist, að báðir þessir menn, Þórarinn á Hjaltabakka og Magnús Pjetursson, hafa orðið að hverfa úr leiknum um stund, og Magnús þó nokkru fyr. En ritstjóri Tímans, sem fordæmdi síldarbrask þeirra, hefir vaxið að trausti góðra manna með ári hverju.

Jeg verð þá að víkja að því, sem frá var horfið áður, en það er það, sem hv. 1. þm. Reykv. og aðrir Íhaldsmenn hafa gefið mjer að sök; að fara ekki í meiðyrðamál við Sigurð gamla Þórðarson fyrv. sýslumann.

Eins og kunnugt er, hafði Sigurður Þórðarson í pjesa sínum haldið því sterklega fram, að við Íslendingar ættum að afsala okkur rjettindum þeim, sem við höfðum unnið með þrotlausri baráttu í mörg ár, og ganga á vald erlendri þjóð. Í hverju öðru landi hefði slík kenning verið álitin landráð og höfundurinn orðið að híma það, sem eftir var æfinnar, í fangelsi.

En auk þessa var í ritlingnum ákaflega harðorður áfellisdómur um þrjá andstæðinga Framsóknarflokksins. Og sá dómur var enginn sleggjudómur, heldur var hann rökstuddur með ótal dæmum úr embættisrekstri þessara manna.

Jeg skrifaði allhvassa grein í Tímann um hinn þjóðhættulega hluta pjesans og lýsti því, að það væri ekki aðeins óforsvaranlegt og ljótt að skrifa þannig um sjálfstæði landsins, heldur væri það hættulegt fyrir frelsi þjóðarinnar, ef mark væri tekið á höfundinum.

Þannig varð jeg fyrstur að skrifa um ritlinginn og benda á þessa ósæmilegu hlið og afleiðingar slíkra kenninga.

Höf. fór svo á stúfana og skrifaði greinarstúf, sem hann fjekk birtan í öðru aðalmálgagni Íhaldsins. En greinin var ekki annað en markleysa ein, þar sem hrúgað var saman fúkyrðum í minn garð, eins og þegar reiður krakki er viti sínu fjær og veit ekkert, hvað hann er að segja. Og öllu þessu var til mín stefnt fyrir það, að jeg hafði haft einurð til að taka upp hanskann fyrir land mitt og þjóð, þegar einn af borgurum landsins gerist svo djarfur að halda því fram í alvöru, að Íslendingar ættu að ganga erlendri þjóð á vald.

En hvað gerist þá?

Öll íhaldspressan rís upp með andfælum og segir, að jeg standi höllum fæti vegna fúkyrða gamla mannsins, fyrir það eitt að hafa tekið upp hanskann fyrir þjóðina, þegar ráðist var á rjettindi landsins og sjálfstæði. Og blöðin básúnuðu það út um borg og bý, að jeg gæti ekki hreinsað mig af hinum staðlausu og barnalegu gremjuyrðum mannsins, sem vildi eyðileggja frelsi og sjálfstæði landsins, nema að fara í meiðyrðamál við hann. Mjer datt vitanlega aldrei í hug að fara í mál við gamalmenni, sem annaðhvort var geggjaður eða viti sínu fjær af reiði á meðan hann samdi sjálfsvörn sína út af ritdómi Tímans. Nú er best að taka það fram, að þegar umr. urðu um þetta mál síðar í þinginu, sagðist Jón Magnússon vera yfir höfuð mótfallinn því að fara í meiðyrðamál, því að venjulega væri enginn sigur í meiðyrðamáladómum.

Þá vildi jeg vita, hvort íhaldsmenn væru ekki fúsir til að fara í meiðyrðamál, einkum ef rökstuddar sakir væru. á þá bornar, og bar fram í Ed. þáltill. þess efnis, að þeir háttsettu embættismenn, sem sæti áttu í deildinni og harðasta áfellisdóma hefðu hlotið í ritlingi Sigurðar Þórðarsonar, skyldu fara í meiðyrðamál við höfundinn, svo að þeim gæfist kostur að hreinsa sig af þeim sakargiftum, er á þá voru bornar.

En hlutaðeigendur tóku ekki vel upp, þegar egginni var snúið gegn sjálfum þeim og skorað á þá að fara í meiðyrðamál, sem þeir höfðu vitanlega ástæðu til, ef á annað borð er nokkurn tíma ástæða til að fara í slík mál. En hvorki Jón heitinn Magnússon, þáverandi dómsmálaráðherra, nje bæjarfógetinn í Reykjavík, núverandi háttv. þingmaður Seyðfirðinga, vildu hreinsa sig með málsókn. Að þeim hafði þó verið snúið þungum rökstuddum áfellisdómi. En í stað þess að hreinsa sig eftir þeim reglum, sem búast mætti við, að þeir teldu rjettar, þá vísa þeir tillögu minni um málsókn frá með óþinglegri tillögu, þar sem allir íhaldsmenn í deildinni tóku upp og gerðu að sínum orðum, að því er virtist, hin brjálsemiskendu fúkyrði mannsins, sem vildi afhenda sjálfstæði þjóðar sinnar í hendur erlendu valdi. Framkoma Íhaldsmannanna átta í Ed. við þetta tækifæri er mesta hneykslið í þingsögu þess flokks, þar til nú bætist ofan á vörn sömu manna á Alþingi út af glæpunum í Hnífsdal.

Jeg ætla nú samt, fyrst hv. 1. þm. Reykv. fór að rifja upp þetta mál, að bókfesta í Alþingistíðindunum nokkuð meira um gang þessa máls, eins og viðbótarskýrslu um það, sem gerðist í Ed. um það leyti, sem Íhaldsmenn þar voru að leiðast út á há glapstigu, sem þeir komust út á í þessu máli.

En áður ætla jeg að segja dálítið frá mynd einni, sem vel þektur ísl. listamaður hjer í bænum gerði nokkru síðar en þetta bar við í Ed. Á þessari mynd var sýndur einskonar fundur í Ed., en var þó fluttur þaðan og Suður í Svertingjaríki í Afríku. Á þessum fundi voru nokkrir Íslendingar, allir myndaðir sem negrar, og mátti þar þekkja jafnmarga Íhaldsþingmenn úr Ed. Ennfremur var þar einn hvítur maður, en sá maður er ekki íhaldsmaður. Þessir Íhaldsþingmenn voru á myndinni látnir bera negravopn og negraáhöld allskonar, og voru yfirleitt í allri framkomu mjög líkir negrum, svo að áhorfendur virtust vera t. d. komnir til Timbuktu.

Í þessari mynd felst dómur þjóðarinnar um þetta hneyksli Íhaldsins í Ed. Þjóðin viðurkendi, að hjer hefðu nokkrir Íslendingar, nánar tiltekið Jón Magnússon, Ingibjörg H. Bjarnason, Halldór Steinsson, Gunnar Ólafsson, Jóhann Jósefsson, Björn Kristjánsson, Eggert Pálsson og Jóhannes Jóhannesson, dómari í Reykjavík, stigið niður af þrepskildi hvítra manna, afhjúpað sig siðmenningunni og nakin stigið dans blökkumannanna, gert sig að negralýð með negralegri framkomu.

Á þessari negramynd var enn eitt atriði, sem vert er að geta. Þar var myndaður kofi og út úr honum var að skríða maður, ef mann skyldi kalla. Þessi maður mun hafa verið forseti í negralýðveldinu, eða eitthvað þesskonar.

Þar mátti þekkja einn af þingmönnum Íhaldsins í Ed., þann manninn, sem gerst hafði einskonar málpípa og fyrirsvarsmaður svertingjanna, nefnilega Gunnar Ólafsson kaupmann í Vestmannaeyjum.

Eftir á vitnaðist, að það hafði ekki gengið greitt að koma þessum áttmenningum úr hinu íslenska fullvalda ríki, sem Sigurður gamli Þórðarson vildi afhenda Dönum, og niður á blökkumannastigið. Það vitnaðist, að sjálfri tillögunni höfðu þeir sjerstaklega unnið að formaður Íhaldsflokksins og hjeraðsdómarinn í Reykjavík. En enginn af embættismönnum landsins í Ed. vildi flytja tillögu, sem sýndist vera óbein vörn fyrir afhendingarkenningu Sigurðar Þórðarsonar. Að lokum varð það svo úr, að það dæmdist á tvo kaupmenn í deildinni að gera það, og hefði sá eldri og kjarkmeiri skorast undan því, þá átti sá yngri að verða til þess.

Af því það mun vera alment álitið, að jeg sje á móti kaupmönnum og sje illa við kaupmannastjettina, þá skal jeg nú taka það fram, að mjer virðist þessir tveir kaupmenn þó skárri, af tvennu illu, og hafa komið mun mannlegar fram heldur en hinir, „lærðu“mennirnir, sem stóðu fyrir ósvinnunni, en kusu heldur að standa í skjólinu, þegar á herti. Á skopmyndinni er þetta rjettilega viðurkent. Gunnar Ólafsson er þar sýndur í sínu eðlilega ástandi, sem negraforkólfur, og skríður út úr aumlegri jarðholu.

Jeg verð að segja, að mjer finst það undarleg óhepni hjá hv. 1. þm. Reykv., að hann skyldi einmitt lenda á þessu dæmi, mesta hneyksli flokks hans á undan Hnífsdalsmálinu og hneyksli, sem allur þorri Íhaldsmanna er fyrir löngu farinn að skammast sín fyrir, þessu lagabroti, sem Íhaldsflokkurinn framdi með ofbeldi og ósvinnu, þegar leiðtogar hans niðurlægðu sig til þess að reyna að hefna, með fáránlegu austurlensku „harakiri“, fyrir rjettmæta umvöndun og aðvörun gegn þyngsta glæp, sem þjóðirnar þekkja, lokaráði um að afhenda erlendri þjóð æðsta vald yfir komandi kynslóðum samlanda sinna.

Hvað mun þjóðin nú segja um þennan atburð? Hver vill nú afsaka kenningar Sigurðar Þórðarsonar um frelsi landsins? Hver af hinum átta pólitísku blökkumönnum í Ed. myndi ekki vilja þurka út, ef hægt væri, framkomu sína, sem leiddi til, að þeir voru staðsettir í Timbuktu? Og hefir það ekki sýnt sig, að það er göfugri aðferð í íslenskum stjórnmálum að vinna sín mál fyrir dómstóli almenningsálitsins, eins og við hæstv. forsætisráðherra höfum gert, heldur en sigrar Íhaldsins hjá undirdómara Reykjavíkur?

Þá er að snúa sjer að háttv. 1. þm. Reykv. sjálfum.

Jeg mun ekki tala um það, hvernig barnabörn hans muni verða. heldur hitt, hvernig aðstöðu þessi háttv. þm. hefir til þess að gerast leiðtogi í siðferðismálum þingsins. Og jeg mun aðeins tala um það, sem vitað er með vissu um framkomu hans í opinberu lífi.

Eitt hið fallegasta í fari landa vorra í Ameríku er viðleitni þeirra til þess að halda við tungu sinni og þjóðerni. Eitt helsta úrræði þeirra í þessari baráttu er það, að fá presta hjeðan að heiman, sem síðan gætu verið nokkurskonar band milli þjóðarbrotanna. Þessi hv. þm. er einn þeirra manna, sem einu sinni átti að verða þesskonar band. Hann var í Ameríku um nokkur ár, og hefir eflaust komið þar vel fram. Hann var a. m. k. leystur út með fríðum gjöfum, þegar hann fór þaðan, og hann hefir vafalaust kvatt landa þar með kossi og handabandi, og þeir hafa líka vafalaust haldið, að þar færi maður, sem mundi bergmála þeirra hlýja hug til föðurlandsins, þegar hann væri kominn heim.

En það fór nokkuð á annan veg. Hann skrifaði þegar heim kom bók eina, og er það sú einasta af bókum hans, sem lesin hefir verið með nokkurri athygli. Það brá nefnilega stundum fyrir rithöfundarhæfileikum í þeirri bók — þegar höf. var að reyna að gera gys að löndum vestra, og það brá fyrir andríki í háði hans og spotti um þá.

Verra hnefahögg hafa landar vorir vestra ekki fengið hjeðan að heiman, enda hafa þeir ekki meiri óbeit á nokkrum Íslendingi hjer á landi en þessum hv. þm. Engin bók hefir verið betur fallin til þess að kæla tilfinningar Vestur-Íslendinga til Íslands og til þess að koma illu af stað en þessi.

Hvort það hefir verið tilgangur höf., skal jeg ekki segja, en niðurstaðan er þessi.

Næsta framganga hv. þm. í opinberu lífi er sú, að hann verður sálusorgari á Ísafirði og í Hnífsdal, þótt jeg haldi ekki, að hann hafi sáð því siðferðisfrækorni þar vestra, sem síðan hefir borið svo ríkulegan ávöxt. Jeg nefni þetta aðeins til þess að sýna, hvar hann hefir starfað.

Þá er það, að hann fær starf sem kennari við háskólann. Hann keppir áður um starfann við núv. hæstv. forsrh., og þótt undarlegt megi virðast, ber háttv. 1. þm. Reykv. sigur úr býtum. Jeg býst nú reyndar við, að það kunni síðar að þykja undarlegir þættir, sem þá fleyttu þessum lítilfjörlega manni fram úr svo dugandi manni sem núv. hæstv. forsrh. er.

Jeg skal ekkert segja um það, hvort þeir hæfileikar til að afla sjer aura fyrir aukastörf, sem borið hefir á hjá hv. þm., hafi komið honum þar að gagni.

Jeg held, að þegar litið er yfir það, sem af er lífsferli þessa háttv. þm., þá megi þar greinilega sjá það, sem dr. Helgi Pjeturss kallar „infernal evolution“, og á íslensku má kalla sigur hinnar helvísku stefnu. Það er, þegar hið illa á hægra með að þróast hjá lífsverunum en hið góða. Þróunin getur nefnilega stundum gengið niður á við sem upp á við. T. d. hafa náttúrufræðingar fundið, að það eru til smádýr, sem lifa í vatni í hellum neðanjarðar og sem missa smám saman augun, vegna þess að það eru engin skilyrði fyrir sjóntæki til að vaxa og dafna þar í eilífu ljósleysinu. Mjer finst það megi taka dæmi af háttv. 1. þm. Reykv. og þessum vesælu smádýrum. (EJ: Er það ekki kosningin í N.Ísafjarðarsýslu, sem er á dagskrá?). Jú, en mjer finst, að þessum hv. þm., sem nú grípur fram í, sje engin vanþörf á því sjálfum að leita sjer inngjafar til þess að geta komist í hærri heima.

Í þriðja skifti, sem hv. þm. kemur fyrir almenningssjónir, er það sem nýkosinn þm. Reykv. Þeir keptu um þá kosningu hv. 3. landsk., fyrv. fjmrh., og hann. Þeir voru þá mjög sinn á hvoru máli. Var núv. hv. 3. landsk. stoð og stytta Jóns sál. Magnússonar, en hv. 1. þm. Reykv. var þá svarinn óvinur hans, og því ákaflega mikið á móti núv. formanni Íhaldsflokksins. Hann hældi sjer meira að segja opinberlega af því, að hann hefði fengið 1400 atkvæði hjer í Reykjavík við kosninguna fyrir það eitt að vera á móti þeim manni sjerstaklega. Þennan sama mann studdi hann svo reyndar til stjórnar, þegar Íhaldsstjórnin var mynduð á þinginu 1924.

Á þingi ljet hv. þm. iðulega ljós sitt skína í þessum anda. Hann hafði verið studdur til kosninga af þeim flokki, sem nú kallar sig frjálslynda flokkinn, og það má segja, að dagblaðið „Vísir“, sjerstaklega þáverandi ritstjóri þess, Jakob Möller, hafi gert það, sem dugði, til þess að koma honum á þing. En á þingi var háttv. þm. svarnasti óvinur þess manns.

Jeg ætla nú, með leyfi hæstv. forseta, að leyfa mjer að lesa upp úr Alþingistíðindunum það, sem háttv. þm. segir þá á þingi um stjórn Jóns Magnússonar. Hann er þar að lýsa því, hve stjórnin sje veik og lítilfjörleg. Hann segir þá meðal annars:

„Eitt af því, sem kvartað er undan nú, og ekki ófyrirsynju, um land alt, er glundroðinn, sem nú hefir verið um tíma ríkjandi. — Hvar liggur nú orsök þessa? Hvað veldur þessum glundroða og hvað getur kipt þessu í lag? Menn geta kannske svarað þessu dálítið mismunandi, en þó hygg jeg, að bróðurparturinn hljóti að falla í skaut stjórnarinnar og að þaðan sje að vænta einu verulegu bótarinnar við þessu stóra meini. Stjórnin hefir stuðlað að þessum glundroða með því að vera sjálf í eilífum glundroða, –forðast að hafa skýra afstöðu eða stefnuskrá, sem flokkum hafi getað skift með eða móti.“

Síðar bætir hann við:

“Hvenær hefir maður heyrt getið um stefnu þessarar hæstv. stjórnar, stefnu, sem marki afstöðu hennar til meira en eins máls í senn? Hún heldur fram þessu og hinu, en festan er sú, að jafnskjótt og móti er andað, hvort heldur af bakarafjelagi bæjarins eða efri deild Alþingis, eða viðskiftanefnd, þá legst hún flöt og segir: Farið þið með þetta eins og ykkur lystir, við leggjum enga beina áherslu á þetta. Og meira að segja, hún lýsir yfir því, þegar eitt höfuð „princip“-spursmál hennar var svæft með rökstuddri dagskrá: Þetta var, sem við einmitt vildum helst.“ —

Slíka takmarkalausa fyrirlitningu hafði hv. 1. þm. Reykv. þá á þeim mönnum, sem einmitt sumir eru núverandi húsbændur hans. Ef hann hefir sagt satt þá, að þeir væru svona ráðalausir og ófullkomnir, þá er engin von til þess, að þeir sjeu orðnir englar dálitlu seinna.

En það er nú svo sem síður en svo, að álitið á hv. þm, sje gagnkvæmilega miklu meira eða glæsilegra í íhaldsherbúðunum. Jón sál. Magnússon tók það oft og greinilega fram, hvað sjer fyndist þetta dæmalaust lítilfjörlegur og leiðinlegur maður. Og það vill svo vel til, að til eru orð núv. form. Íhaldsflokksins sjálfs, sem sýna vel, hvert álit hann hefir þá haft á þessum hv. þm. Þau orð eru prentuð í D-deild Alþt. 1921, bls. 526, og hljóða þannig:

Hv. þm. (MJ) talaði um, að þeir, sem greiddu atkv. með dagskrártill. minni, væru að lepja slepju. Röksemd er þetta ekki, fremur en annað, sem hv. þm. (MJ) ber fram. En þetta orðatiltæki var honum sjálfum svo einkar samboðið, því að ekkert af því, sem menn verða varir við í þessum sal, líkist meir slepju en það, sem fram gengur af munni þessa hv. þm. (MJ). Það er þunt, — ekki alveg eins og vatn, heldur ámóta og slepja. Það rennur stanslaust eins og slepja, og það er uppfylt af allra ósmekklegustu orðatiltækjum, og þess vegna ógeðslegt — eins og slepja.“

Nú er jeg þá búinn að sýna, með hverjum hætti þessi hv. þm. komst inn í pólitískt líf.

Næsta stig hans er að snúa við blaðinu og yfirgefa það blað, sem komið hafði honum á þing, og þá sjerstaklega ritstjóra þess, Jakob Möller, og leggja sig flatmagandi fyrir fætur þeirra, sem svo greinilega höfðu spottað hann og farið svo háðulegum orðum um hann.

Af því að hann sá, þegar hann athugaði málið betur, að það myndi verða rýmra um sig og vera meiri von til fanga hjá stærri flokkunum, og það sem líklega hefir ráðið mestu, hann hefir búist við að kunna betur við sig í flokki með ennþá verri og ógeðslegri mönnum en voru í hans eigin flokki.

Að minsta kosti er engin önnur skynsamleg ástæða sjáanleg til þess, að snúningurinn skyldi verða svo snöggur og heiftarlegur sem raun er á orðin, þegar hann svo stuttu eftir það, að hann gaf þessar lýsingar sínar á Íhaldsforingjunum, var alt í einu orðinn vistráðið hjú á Íhaldsheimilinu og var hafður til þess að aðstoða þessa fornu höfuðfjendur sína gegn fornum samherjum. Síðan hann gafst upp og gekk á hönd fjendum sínum, hefir hann flatmagað fyrir fótum þeirra og hefir virst kunna þar vel við sig. Hefir hann yfirleitt verið það áhald, sem húsbændur hans hafa gripið til til sóðalegri verka í flokknum.

Hv. 1. þm. Reykv. hefir flutt fyrirspurnir, eina eða tvær a. m. k., til stjórnarinnar nú á þessu þingi. Jeg vona, að það þyki ekki of mikið yfirlæti, þó að jeg geri ráð fyrir, að hann hafi lært af mjer þessa aðferð, að bera upp fyrirspurnir. Vonandi verður það þá heldur ekki tekið illa upp, þó að jeg ætli mjer að læra af Íhaldsmönnum, og þá einkum Jóni heitnum Magnússyni, að svara ekki fyrirspurnum. Á mig getur hv. þm. deilt í eldhúsdagsumræðum, og eldhúsdagarnir verða varla færri en einn í hverjum mánuði á þessu þingi. Í dag er sá fyrsti. Því er rjettast að minnast eitthvað á fyrirspurnirnar nú.

Hv. þm. hefir spurt um aukatekjur ráðherranna. Það hefir verið auðsætt á blöðum Íhaldsmanna undanfarið, að þau halda, að við stöndum höllum fæti í beinamálunum. Jeg held nú samt, að aðstaða okkar Framsóknarmanna og hv. þm. og samherja hans hinsvegar til bitlinga sje ærið ólík. Þar sem hv. þm. hefir. gefið tilefni, verður hann nú að sætta sig við, að gerður sje nokkur samanburður um þessi efni.

Það er mörgum kunnugt, að undanfarið hefir það spilt talsvert fyrir háttv. 1. þm. Reykv. hjá flokki hans sjálfs, hve ákaflega áleitinn hann hefir verið að sækjast eftir bitlingum. Af sumum hefir hann jafnvel verið kallaður hin mikla bitlingahít Íhaldsflokksins. Og það er ekki laust við, að ýmsir flokksbræður hans hafi öfundað hann af því, hve fengsæll hann hefir verið, því þeir telja sig, sem er þeim vorkunnarmál, eigi síður borna til beina en hann. Um það þarf ekki að ræða, að í hvert sinn, sem eitthvað fellst til hjá Íhaldinu, kemur hv. 1. þm. Reykv. fyrstur upp í beinahrúgunni. Og með einstöku lítillæti og þakklæti hirðir hann hve lítið, sem honum áskotnast.

Jeg held, að hv. þm. hafi komið óþægilega upp um sig með þessari fyrirspurn. Hann getur nefnilega ekki skilið, að nokkur maður sækist eftir að vinna verk vegna þess sjálfs, en ekki vegna launanna. Hann heldur, að við ráðherrarnir höfum gerst nokkuð frekir til veiðifanga. Og hann sjer blóðugum augum eftir bitunum.

Eitt af því, sem fróðlegt er að athuga í þessu sambandi, er viðhorf Íhalds- og Framsóknarmanna gagnvart lögjafnaðarnefndinni. Þegar hún var stofnuð, voru 4 flokkar í þinginu. Framsóknarflokkurinn var einn þeirra. Honum hefði verið í lófa lagið að fá sæti í nefndinni, ef hann hefði viljað fallast á að hafa nefndarmennina 4. En Framsóknarmönnum þótti nóg að hafa þá 3, og þeir mátu meira sparsemina en það að vera frekir til beina. Þessi nefnd hefir verið býsna dýr undir forsjón Íhaldsins. Fyrst fjekk hver nefndarmaður 2 þús. kr. árlega fyrir að sitja eina viku á fundi, og auk þess allríflegan ferðakostnað. Tíminn vítti þessa hóflausu eyðslu, og það varð til þess, að þingið færði kaupið úr 2 þús. niður í 500 kr. En þeir ágætu föðurlandsvinir í nefndinni fóru í mál við landið. Þeir töpuðu því fyrir hæstarjetti og höfðu óvirðing af. En þá fundu þeir ráð til þess að ná sjer niðri á ferðakostnaðinum. Hann fór síhækkandi — frá 3000 kr. upp í 3500, 4000 og loks upp í 5000 kr. Þetta var allsómasamleg uppbót fyrir launamissinn. Jeg hefi nú verið eitt ár í nefndinni, og með tilliti til þeirrar reynslu, sem jeg hefi fengið af starfi hennar, held jeg, að óhætt sje að afnema alveg kaupið og láta 1500 kr. ferðakostnað nægja, og er þó nefndinni fullborgað. Í fjárlagafrv. því, sem nú er lagt fyrir þingið, eru nefndinni ætlaðar 6000 kr. alls, og jeg legg til fyrir mitt leyti, að það sjeu íslenskar krónur. Hún mun sæmilega haldin af því.

Aðstaða Framsóknarmanna til nefndarinnar er því þess: Þeir vilja fyrst aðeins hafa mennina 3. Síðan eiga þeir þátt í því, að kaupið sje lækkað, og nú, þegar jeg er sjálfur kominn í nefndina, legg jeg til, að kaupið sje alveg skorið niður. Jeg vil, að nefndarmönnum sje borgað sanngjarnlega, en alls ekki, að stöður þeirra sjeu bitlingar. Verður erfitt fyrir hv. 1. þm. Reykv. að bregða mjer um óheiðarleik í þessu máli, og mætti hann sjálfur eitthvað af því læra.

Þegar hæstv. forsrh. (TrÞ) átti sæti í kæliskipsnefndinni, sem unnið hefir flestum öðrum nefndum meira starf og betra, tók hann einar 500 kr. fyrir alla sína fyrirhöfn. Á sama tíma átti hv. 1. þm. Reykv. sæti í annari nefnd. Varð síst meiri árangur af starfi hennar, og tók hann þó mun meira fje fyrir sinn starfa.

Hæstv. fjmrh. (MK) hefir stýrt landsverslun að mestu leyti frá því að hún var stofnuð og þangað til nú. Nú heldur hann stjórn hennar áfram og tekur ekki einn eyri fyrir, aðeins af því að honum er ant um fyrirtækið og treystir ekki öðrum betur til þess að sjá því farborða. En þegar yfirmaður hv. 1. þm. Reykv. tók við ráðherraembætti auk þess, sem hann sjálfur hafði, þá hann fje fyrir það svo að þúsundum skifti.

Það vildi svo til, þegar jeg varð ráðherra, að jeg átti þá sæti í bankaráði Landsbankans. Jeg hefi haldið áfram að sitja þar, en jeg tók þegar fram, að jeg mundi ekki taka kaup fyrir það, af því að jeg sje ekki ástæðu til þess, að sami maður hafi tvöföld laun. Fje það, sem jeg átti að fá fyrir störf mín í bankaráðinu, gengur nú til opinberra þarfa. Með þessu er verið að reyna að skapa nýja venju. Háttv. 1. þm. Reykv. ætti að láta sjer skiljast það, að forráðamönnum þjóðarinnar er annað ætlað en að brjótast um á hæl og hnakka, eins og hann hefir gert, til þess að afla sjálfum sjer tekna. Ein nauðsynlegasta umbótin, sem þarf að verða í opinberu lífi, er sú, að þeir menn, sem flokkarnir trúa fyrir meiri háttar störfum, sýni hæversku í aðdráttum.

Hv. 1. þm. Reykv. var sannarlega seinheppinn að koma fram með þessa fyrirspurn. Jeg efast ekki um, að reglan, sem við Framsóknarmenn beitum, að verkamaðurinn eigi að vera verður launanna, muni verða honum til ama. Auk þess hefir nú komið fram samanburður, sem hlýtur að vera honum fremur óþægilegur.

Í viðhorfi háttv. 1. þm. Reykv. og flokks hans annarsvegar og okkar Framsóknarmanna hinsvegar mætist tvenskonar hugsunarháttur, gerólíkur. Annarsvegar er mest hugsað um bein og bitlinga; þar er meginaflið hin síhungraða áleitni. Altaf er verið á veiðum. Það er eðlilegt, að þeir, sem svona hugarfar hafa, eigi erfitt með að skilja, að hjá nokkrum manni sje vinnan aðalatriði.

Hv. 1. þm. Reykv. hefir gert þennan dag að eldhúsdegi. Nú hefi jeg gert honum nokkur skil. Jeg hefi brugðið ljósi yfir hann og samherja hans.

Síðan jeg kyntist hv. 1. þm. Reykv., hafa mjer oft komið í hug þau orð, sem Haraldur harðráði sagði forðum um Gissur biskup, að úr honum mætti gera þrjá menn: víkingaforingja, konung og biskup, og væri hann til þess alls vel fallinn. Jeg held raunar, að hv. þm. mundi til einskis af þessu þrennu vel fallinn. En hann mundi vel til þess fallinn að veita hverskonar byltingastjórn þjónustu sína. Hefði hann lifað í Frakklandi milli 1780 og '90, gæti jeg hugsað, að hann hefði verið einn þeirra, sem framkvæmdi fyrirskipanir Jakobínanna með mestu jafnaðargeði og þótt fallöxin seinvirk. Í Rússlandi mundi hann með glöðu geði hafa lagt sitt lið til þess að typta presta og auðkýfinga. Og jafnfúslega mundi hann hafa hjálpað Mussolini til að berja á verkamönnum. Hann mundi hvenær sem var hafa verið vel til þess fallinn að verja hagsmuni þeirrar stjórnar, sem galt honum kaup. Löngunin í beinin mundi ávalt gera úr honum jafnhandhægt áhald, hvort sem ætti að beita því gegn aðalsmönnum eða öreigalýð. Þetta er rjett ályktun, dregin af fortíð þess manns, sem nú hefir auðmýkt sig fyrir þeim, sem áður hafa óvirt hann.

Fyrir nokkrum árum kom út í Englandi bók, sem hjet: Ef Kristur kæmi til Chicago.“ Þar er gert ráð fyrir, að Kristur mundi verða ærið forviða við komu sína til þeirrar miklu borgar og honum mundi eigi allskostar vel tekið. Það væri líka hægt að hugsa sjer, að Kristur kæmi til Reykjavíkur, — að hann kæmi inn í háskólann til þeirra manna, sem þar eiga að standa vörð um kenningu hans. Jeg ætla mjer ekki að leiða getur að því, hvað Kristur mundi segja, en jeg held, að hann mundi a. m. k. ekki verða ánægðari með þjón sinn, hv. 1. þm. Reykv., en formaður Íhaldsflokksins, þegar hann lýsti „Slepjunni“ 1921.

Háttv. þm. vjek að mínum pólitísku vinnubrögðum, aðallega í sambandi við hina frægu þingsögu úr Ed. Þetta gefur mjer tilefni til að minnast á nokkuð, sem eitt Íhaldsblaðið sagði um mig í haust, þegar það var að skýra fyrir mönnum, hvers vegna Íhaldsflokkurinn hefði orðið undir í kosningunum. Blaðið segir, að jeg noti mjög merkilega aðferð, sem Íhaldsmenn eigi að taka eftir mjer, og hún sje sú, að jeg tali við kjósendur meira en aðrir og skrifist á við fjöldamanna. „Svona skuluð þið fara að“, segir blaðið við flokksmenn sína. — En í næsta blaði kemur fram, til hvers á að nota þessa aðferð. Það á að nota hana til að hrífa kosningarrjettinn úr höndum bænda. Það á að láta vel að þeim og svíkja þá svo á eftir. Það á að nota trúnaðinn til þess að svifta þá því eina valdi, sem þeir eiga eftir, pólitíska rjettinum. Fjeð hafa þeir mist. Fólkið hefir verið gint frá þeim. Nú á að tala blíðlega við þá, svo að hægt sje að taka frá þeim alt.

Það lof, sem Íhaldsblaðið bar á mig, vil jeg nú launa samherjum þess með því að gefa þeim ráð: Þeir eiga ekki að gefa kjósendum loforð, sem þeir ætla sjer að svíkja. Slík vinnubrögð verða þeim ekki lengi til happa.

Nú ætla jeg að nefna eitt dæmi til þess að sýna hv. þm., hvernig jeg lít á þetta efni. Það er talið, að Framsóknarflokkurinn eigi fremur lítið fylgi á Siglufirði, líklega aðeins örfá atkvæði. Sumir mundu e. t. v. líta svo á, að Framsóknarstjórnin hefði minni skyldur við þann stað en ýmsa aðra. Jeg kom þar nú samt í haust. Þá átti jeg tal við helstu menn bæjarins og hafði af þeim ýmsar fregnir um ástandið þar. Jeg fjekk að vita, hver nauðsyn bæjarbúum er á hafnarbryggju, hvílík þörf er á að hjálpa þeim í baráttu við vínnautnina, að það þarf að hjálpa þeim umkomulausu konum, sem þar stunda atvinnu á sumrin, hve illa bærinn er leikinn af ýmsum fjárráðamönnum, o. s. frv. Jeg hefi hugsað mjer að gera mitt til þess að bæta úr þessu. Jeg á nokkurn þátt í frv., sem nú er fram komið í þinginu, og jeg vona, að mjer verði ýmislegt fleira ágengt til þess að greiða fyrir þessum bæ. Og í hvert sinn, sem jeg hefi tækifæri til, ræði jeg þessi mál við Siglfirðinga — ekki sem flokksbróðir, heldur sem þingmaður, af því að jeg tel það skyldu mína. Það getur vel verið, að einhverjir þar nyrðra hallist að Framsóknarflokknum fyrir aðgerðir mínar, en hvort sem þeir gera það eða ekki, hefi jeg engan hug á að svíkja þá. Þetta segi jeg hv. þm. til þess að sýna honum, að jeg lít ekki svo á, að það eigi að láta vel að öðrum og svíkja þá svo í trygðum.

Hv. 1. þm. Reykv. gerði mjer þann heiður að láta ræðu sína snúast um mig, en ekki Hnífsdalsmálið. Þess vegna hefi jeg orðið að tala eins og jeg nú hefi gert. Mjer hefir nú gefist tækifæri til þess að minnast á margt, sem ekki var ótilhlýðilegt, að kæmi greinilega fram.

Nú vil jeg leyfa mjer að taka fram þrjú atriði, svo að betur sje hægt að glöggva sig á því, sem nú er að gerast:

Jeg beitti mjer gegn því, að Íslendingar þyldu það, að frelsi þeirra væri ofsótt. Fyrir það leyfði hv. Ed. sjer að svívirða mig, og þá hneykslanlegu samþykt, sem deildin gerði, nota Íhaldsmenn gegn mjer í þessum umræðum.

Þegar jeg varð ráðherra, var verið að svæfa Hnífsdalsmálið. Það fjell í minn hlut að vekja það upp á ný, og jeg var svo heppinn að finna mann, sem fær var um að ráða þær rúnir, er ritaðar voru af fölsurunum vestra.

Í þriðja lagi hefir það fallið í minn hlut að halda Hnífsdalsmálinu áfram. Viðleitni mín miðar að því að reyna að uppræta þann löst, sem gert hefir vart við sig í hinu gamla prestakalli hv. 1. þm. Reykv. Nú er að því komið, að skera á úr um það, hvort við eigum að fylgja fordæmi Englendinga. Misfellurnar á kosningunni og saga málsins öll er þannig vaxin, að ómögulegt er að álíta annað en að stuðningsmenn Jóns A. Jónssonar sjeu við þær riðnir. Jeg vil láta lögfesta hjer á landi ensku regluna og þær siðferðiskröfur, sem hún byggist á.

Jeg skil vel, að óvildin, sem fram kom gangvart mjer í ræðu hv. 1. þm. Reykv. og hvað eftir annað hefir mátt sjá í blöðum Íhaldsins, stafar af þeim mun, sem er á viðhorfi okkar gagnvart slíkum málum sem þessu. Það er ofur eðlilegt, að ólík viðhorf verði til þess að skapa deilur. — Þeir Íhaldsmenn hafa óbeit á því, að Sigurður Þórðarson sje fordæmdur fyrir kenningar sínar í frelsismálunum, og þeir rísa öndverðir gegn því, að lögfræðileg þekking og dugnaður fái að komast að við rannsókn Hnífsdalsmálsins. Og þeir hafa sagt, að þeir sæju ekkert athugavert við að taka kosningu eins og þá, er fram fór í N.-Ísafjarðarsýslu í sumar, gilda. Það þarf engum að koma á óvart, þótt þeir, sem gagnstæðar skoðanir hafa um þvílík mál, þurfi stundum að leiða saman hesta sína.