06.03.1928
Efri deild: 40. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2528 í B-deild Alþingistíðinda. (4125)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Hv. 3. landsk. benti á það atriði, sem er rjett, að frv. er nú ólíkt að vissu leyti stjfrv., sem lagt var fyrir þessa hv. deild. Nú á að banna innflutning vissra vörutegunda án þess tekið sje fram, að þær sjeu frá löndum, þar sem gin- og klaufaveiki er landlæg. Það gæti litið svo út, sem eitt land, sem við höfum mikil skifti við, verði með þessu harðara úti en önnur, sem sje Noregur, því að þar hefir veikinnar ekki orðið vart nú um hríð. En um þetta er það annarsvegar að segja, að sumir halda því fram, að ef veikin eitt sinn hefir borist til landsins, geti hún leynst í skepnunum um ófyrirsjáanlegan tíma, eins og til dæmis taugaveikin í sýkilberunum, og svo er hinsvegar annars að gæta. Þótt Noregur virðist í bili laus við gin- og klaufaveiki og okkur kunni ekki að stafa smithætta þaðan af þeirri veiki eins og nú er, þá liggja þar í landi tveir aðrir húsdýrasjúkdómar smitandi, sem hætt er við, að gætu borist hingað til lands, og einmitt í heyi, þeirri vörutegund, er skepnunum er beinlínis ætluð til fóðurs. Annar er næmur sjúkdómur, er legst á hesta og heitir kverk. Er hann allalgengur í Noregi sem öðrum löndum. Hitt er smitandi fósturlátssjúkdómur, mjög skæður, er við höfum ekki hingað til haft af að segja, en ekki er útilokað, að gæti borist hingað með heyi.

Því er nú svo varið um aðalvörutegundirnar, sem nefndar eru undir a-lið í 2. gr., að þær eru sjerstaklega hættulegar í þessu efni. Og því meiri ástæða er fyrir okkur að varast þær, sem okkar land mun vera eina landið í Evrópu — af þeim, sem við höfum skifti við a. m. k. —, sem ekki hefir fengið að kenna á þessum sjúkdómum.