17.04.1928
Neðri deild: 75. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4870 í B-deild Alþingistíðinda. (4143)

Starfslok deilda

forseti (BSv):

Vjer heyjum nú síðasta fund neðri deildar að þessu sinni. Jeg mun ekki rekja gerðir deildarinnar eða þingsins, því að hæstv. forseti Sþ. mun að vanda gera það við þinglausnir og gefa skýrslu um störf þess. Jeg vil aðeins láta þess getið, að þetta þing hefir unnið mjög mikið, og að líkindum aldrei verið starfað af meira kappi og atorku í Nd. Jeg ætla eigi að minnast hjer einstakra afreka þingsins, en get þó eigi látið hjá líða að geta um tvö atriði, sem segja má, að sjeu í framhaldi af sjálfstæðisframsókn þjóðarinnar. Annað er svör þau, er ríkisstjórn og forustumenn allra flokka guldu við fyrirspurn hv. þm. Dal. um afstöðu vora til uppsagnar sambandslaganna. Gefa svör þau fylstu ástæðu til að vænta, að Íslendingar beri giftu til að standa fast saman um rjettindí sín og sjálfstæði, er á reynir.

Annað, sem bendir til þess, að Íslendingar sjeu farnir að gefa utanríkismálum sínum meiri gaum en áður, er samþykt till. hv. 2. þm. Reykv. um kosningu utanríkismálanefndar, er skipuð sje sjö mönnum og vera skal utanríkisráðherra Íslands til ráðuneytis. Má vænta þess, að aðstoð þessarar nefndar verði einkum mikilsverð í sambandi við Grænlandsnefndina, sem nú hefir starfað í nokkur ár, þótt hún hafi eigi enn skilað áliti sínu um þetta mikilvæga mál. Með stuðningi utanríkismálanefndarinnar væntir Grænlandsnefnd þess, að hún geti betur náð þeim niðurstöðum, sem hafi heillavænlegar afleiðingar fyrir oss, fyrst og fremst fullkomnu og afdráttarlausu jafnrjetti við Dani í Grænlandi, að geymdum hinum fornu rjettindum vorum þar.

Jeg vil þá að endingu þakka öllum hv. þdm. fyrir góða samvinnu og fyrir það, hve ljetta þeir hafa gert mjer fundarstjórn, enda þótt ósleitilega hafi verið unnið og stundum allhörð átök á milli flokka, eins og venja er til eftir nýafstaðnar kosningar. Vil jeg árna öllum hv. þdm. góðrar heimferðar og þjóð og þingi heilla og hamingju af þeim verkum, er hjer hafa unnin verið.