17.04.1928
Neðri deild: 75. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4871 í B-deild Alþingistíðinda. (4145)

Starfslok deilda

Jón Ólafsson:

Mjer finst það viðeigandi eftir þessa löngu vertíð, sem nú er á enda, að þakka þeim manni, sem hefir haft formensku á hendi hjer í deildinni. Það er oftast svo, að afkoma og aflabrögð eru undir formanninum komin, og í jafnmikilli soraveðurátt og verið hefir hjer stundum held jeg, að ekki verði annað sagt en að formaðurinn okkar hafi stýrt vel framhjá öllum skerjum. Hann hefir rifað í tíma, en stundum siglt mikinn, svo að sumum hefir jafnvel þótt nóg um. Hjer hefir allajafnan verið hið fylsta málfrelsi, sem þingsköp leyfa, og í skjóli þess frjálslyndis, sem einkennir hæstv. forseta, hefir alt gengið betur en ella. Hvernig sem litið verður á störf þingsins, þá er eitt víst, að miklu hefir verið afkastað. Það er ekki okkar að dæma um þau störf. En dómur okkar um fundarstjórn hæstv. forseta er sá, að þar hafi frjálslyndi og röggsemi haldist í hendur. Jeg bið hv. þdm. að þakka hæstv. forseta fundarstjórn hans með því að standa upp.

[Allir deildarmenn stóðu upp úr sætum sínum]