18.04.1928
Sameinað þing: 13. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4874 í B-deild Alþingistíðinda. (4148)

Þinglausnir

forseti (MT):

Þegar litið er yfir feril þessa þings, sem er hið fyrsta á kjörtímabili, mun einmælt, að það hefir verið mikilvirkt og margvirkt framar vonum, enda þess hrós, að þingmenn hafa unnið starf sitt af mestu alúð og kappi, og þó hvergi verið hlífst við.

Af lögum, sem sett hafa verið, má sjerstaklega geta laga um menningarsjóð, laga um sundhöll og áfengislaga, sem hið besta hefir verið til vandað. Ennfremur mikilsverðra umbóta á jarðræktarlögunum, laga um tilbúinn áburð, laga um búfjártryggingar og hinna stórmerkilegu laga um byggingar- og landnámssjóð. Við þetta bætist, að í fjárlögum eru ætlaðar venju fremur miklar fjárhæðir til samgöngubóta og margháttaðra atvinnubóta.

Af þessu er það svo auðsjeð, að þingið hefir reynt eftir föngum að fullnægja þeim framsóknarhug, sem æ hefir orðið ríkari, eftir að þjóðin gat af einhug, snúið sjer að hjerlandsmálum sínum. En vissulega mátti þetta ekki verða án þess að frekaðar væru þegnskyldur manna að nokkru.

Loks get jeg ekki bundist á þessari stundu að minna á, að þingið hefir sett og samið lög þess efnis, að Þingvellir skuli vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga.

Að svo mæltu árna jeg þessum mínum kæru þingmönnum alls farnaðar og góðrar heimkomu.

Gleðilegt sumar. Guð blessi oss starfið.