14.02.1928
Neðri deild: 22. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1384 í B-deild Alþingistíðinda. (415)

6. mál, laun embættismanna

Ólafur Thors:

Hæstv. forsrh. skýrði frá því í fyrri ræðu sinni, að áður hafi þessi till. orðið ágreiningsefni hjer á Alþingi. Nú er málið aftur á móti svo einfalt í hans augum, að honum finst ekki nema eðlilegt, að það verði afgreitt án þess að nefnd fái tækifæri til þess að fjalla um það. — Hæstv. forsrh. leggur á móti minni brtt. og færir þau rök, að ef stjórninni vinnist tími til, muni hún afljúka þessu máli fyrir 1929. Með sama rjetti get jeg sagt, að ef stj. er ekki nægilega undirbúin þá, megi framlengja þennan frest. Jeg vildi með till. minni gefa stj. það aðhald, að hún hraðaði máli þessu sem hægt er.

Hæstv. forsrh. sagði, að ekki væri unt að ákveða laun embættismanna fyr en búið væri að festa peningana. Jeg er þar ekki sammála hæstv. ráðherra, en þó svo væri, að þetta væri rjett, þá tel jeg ekki ólíklegt, ef þjóðin nýtur forsætis þessa hæstv. ráðh. til 1929, að þessu eina stóra áhugamáli hans hafi verið siglt heilu í höfn fyrir þann tíma. Jeg skil ekki í því, að hæstv. ráðh. sætti sig við það, að gengismálið, sem hann í ræðu og riti hefir nefnt „mál málanna“ og stöðugt blandað inn í umr. annara mála, verði ekki til lykta leitt innan þess tíma.

Jeg held því fast við brtt. mína og óska þess ennfremur, að málið verði tekið út af dagskrá. Vona jeg, að hv. form. fjhn. sje mjer sammála um það.