18.02.1928
Neðri deild: 26. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4197 í B-deild Alþingistíðinda. (4174)

88. mál, atvinnuleysisskýrslur

Flm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Það er aðeins stutt athugasemd til þess að bera af mjer sakir.

Hv. þm. Vestm. bar þær sakir á mig, að jeg gæfi rangar upplýsingar, er jeg vitnaði í erlendar fyrirmyndir máli mínu til stuðnings. Jeg veit nú ekki, hvað hann á við með þessu, því jeg kannast alls ekki við að hafa falsað neinar heimildir, er jeg hefi notað. Hitt er vitanlegt, að þegar um það er að ræða að taka hjer upp nýmæli, hvort sem heldur er í lagasmíð eða á öðrum sviðum, þá er ekki nema eðlilegt, að vitnað sje í erlendar fyrirmyndir. Þetta hefir ávalt tíðkast og okkur fullvel sæmandi, þó að við notfærum okkur reynslu þeirra manna eða þjóða, sem lengra eru á veg komnir, bæði í þessum efnum sem öðrum. Annars sje jeg ekki ástæðu til að svara hv. þm. Vestm. frekar, en vænti, að hann reyni að finna þeim orðum sínum stað, að jeg hafi farið rangt með, er jeg var að vitna í erlendar fyrirmyndir. Ummæli mín bygði jeg sumpart á eigin reynslu og sjón, eða þá á skjalfestum upplýsingum, sem jeg hefi enga ástæðu til að halda, að sjeu óáreiðanlegar.

Hv. 3. þm. Reykv. ætla jeg ekki neinu að svara — þess þarf ekki með — öðru en því, að skipulagsleysi atvinnuveganna bendir ótvírætt í þá átt, að þeim mundi betur vegna, ef þeir væru reknir af hálfu hins opinbera, heldur en nú undir stjórn þeirra einstaklinga, er með þá fara eftir eigin hagsmunum og geðþótta. Jeg býst hinsvegar ekki við, að skráning atvinnulausra verði stórt spor til þess skipulags; gæti þó svo farið, að í skjóli slíkra ráðstafana þroskist sú hugsun, að öll stærri atvinnufyrirtæki, eins og togaraútgerðin, væru best komin undir ríkisrekstri. En þá verða þeir ekki lengur atvinnurekendur, hv. 3. þm. Reykv. og aðrir stórútgerðarstjórar, sem hafa líf og alla velferð fólksins í sinni hendi, heldur verða þeir gerðir að þjónum fólksins, og skil jeg það náttúrlega einkar vel, að slík tilhugsun muni þeim svíða sárt.