14.02.1928
Neðri deild: 22. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1387 í B-deild Alþingistíðinda. (419)

6. mál, laun embættismanna

Ólafur Thors:

Jeg vil láta í ljós óánægju mína í tilefni af orðum hv. form. fjhn. viðvíkjandi þeirri ósk, er jeg bar fram, og það því fremur, sem þau eru ekki í samræmi við það, er við höfðum talað um í gær. Það er satt, að fyrir fjhn. liggja mörg störf, og það skal síst sagt um hv. form. þeirrar nefndar, að hann geri ekki sitt ítrasta til þess, að nefndinni notist vel að störfum sínum. „En of mikið af öllu má þó gera“, og mjer fanst það sanngirniskrafa, að hann tæki undir þá ósk mína að taka málið út af dagskrá. Hæstv. ráðh. vildi halda því fram, að þetta væri svo einfalt mál. En málið verður flóknara, ef vikið er af þeirri braut að halda öllu óbreyttu, og í kjölfar þessarar brtt. munu sigla ýmsar sanngjarnar og sjálfsagðar kröfur.

Það er alveg rjett, að gengismálið er ekki til umr. En jeg fór hjer að dæmi hæstv. forsrh. Hæstv. ráðherra taldi, að í tíð fyrv. stj. hefði jeg verið viðjum reyrður og hvergi mátt mig hreyfa í þessu máli. Þetta er nú að vísu ekki rjett. Jeg fylgdi fram festingarfrv. á undanförnum þingum. Greiddi því atkv. til 3. umr. Lengra komst það ekki, því þá bar hv. 1. þm. S.-M. (Svb) fram þingsál., er feldi frumvarpið.

Jeg hefi í þessu sem öðrum málum verið frjáls og ófjötraður, og slíkt hið sama hefir þm. Str. (TrÞ) verið alt þangað til hann varð forsrh. Þá sýnist fjötur á hann fallinn, og má hann nú helst ekki heyra minst á „mál málanna“.