14.02.1928
Neðri deild: 22. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1393 í B-deild Alþingistíðinda. (427)

6. mál, laun embættismanna

Frsm. (Hannes Jónsson):

Mjer er óhætt að segja, að hv. 2. þm. G.-K. hafi ekki verið sjerlega kennimannlegur (ÓTh: Eins og kennari, sem var að hýða nemanda), heldur eins og lundillur og illa innrættur götustrákur, sem hefir verið flengdur og ber sig illa. (Forseti hringir). Hann segir, að form. fjhn. hafi sagt, að fundarsamþykt hafi verið fyrir því, að hann og hv. þm. Dal. mættu bera fram fyrirvarann. (ÓTh: Það sagði jeg aldrei). Það var samþykt af öllum í nefndinni að mæla með því, að frumvarpið næði fram að ganga. Þetta veit hv. þm., það er til einskis að neita og belgja sig upp með vonsku. Það er fyrst eftir 3–4 daga, að hann fær þá hugmynd að breyta frv., eftir að hafa leitað sjer upplýsinga úti í bæ um, hvað hann ætti að gera. Á þeim fundi, sem hv. 2. þm. G.-K. skrifaði undir nefndarálitið, ljet hann þess getið við form. nefndarinnar, að hann vildi hafa fyrirvara. En jeg neita því, að form. nefndarinnar hafi gefið honum leyfi til að hlaupa frá skoðunum sínum. Hitt sagði hann, að hv. þm. gæti skýrt frá ástæðunurn til þess, að hann breytti um skoðun. Og það hefði verið drengilegar gert en að rjúka upp með fúkyrðum og reyna að velta þessum hugsanagraut sínum yfir á mig.

Jeg vona, að jeg þurfi ekki að eltast frekar við þennan hv. þm. Hann hefir nú fengið tækifæri til að hrista sig og sýna, hvað hann hefir lært mikið hjer á þingi.