14.02.1928
Neðri deild: 22. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1394 í B-deild Alþingistíðinda. (428)

6. mál, laun embættismanna

Magnús Jónsson:

Það er meiri stormurinn, sem hefir risið út af þessu máli. Jeg er með báðum brtt., sem fram hafa komið, og mæli með því, að þær fari í nefnd. Hæstv. forsrh. tók það fram, er hann fylgdi till. sinni úr hlaði, að hann hefði ekki rannsakað kostnaðinn. Að vísu giskaði hann á 10 þús. kr., en viðkunnanlegra er, að þetta liggi hreint fyrir. Ekki er það rjett hjá hæstv. ráðh., að þeir fjórir nefndarmenn, sem talað hafa, hafi látið uppi skoðun sína í málinu. Ræður þeirra hnigu einungis að því, hvort málinu skyldi vísað til nefndar eða ekki. Jeg vil mælast til þess, að hæstv. forsrh. láti till. fara til nefndar. Málinu er engin hætta búin með því. Það er ekki fyr en á þing líður, að mál lognast út af í nefndum. Þeirri hættu er ekki til að dreifa. Og þótt nefndin blandaði fleiru í við meðferð sína, hefir deildin það ávalt á valdi sínu að vinsa úr. Jeg lít svo á, að nefndir hafi skyldu til að rannsaka málin til hlítar, en þær verða þá líka að fá að skoða þau. Það má teljast mikið ólag hjer á Alþingi, að brtt. rignir oft niður í fundarbyrjun og eru bornar undir atkv. án þess, að nefndir fái tækifæri til að athuga þær. Jeg vil því styðja þá till., að nefndin fái að athuga málið á ný, en auðvitað verður hún að hraða sjer svo, að málið komist aftur á dagskrá næstu daga. Þá getur málinu ekki stafað af þessu nein hætta.