14.02.1928
Neðri deild: 22. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1397 í B-deild Alþingistíðinda. (430)

6. mál, laun embættismanna

Ólafur Thors:

Jeg verð enn að fá að bera af mjer sakir. Hv. form. fjhn. (HStef) gaf fyrir nokkrum dögum yfirlýsingu hjer í hv. deild, sem bæði var ákveðnari og drengilegri en sú, sem hann hafði nú yfir. En bæði hann og aðrir nefndarmenn vita, að jeg neitaði að skrifa undir nál., nema jeg hefði samþykki nefndarinnar til að bera fram þennan fyrirvara. Fyrir nokkrum dögum gaf hv. þm. yfirlýsingu um, að nefndin hefði samþykt að láta þetta óátalið, en nú reynir hann að gera öll sín ummæli loðin og óhrein. Þetta kalla jeg að bera af mjer sakir, því að jeg vil, að hv. deild viti sem rjett er, að mín framkoma í þessu máli hefir verið alveg hrein. Enda var það engin stórbreyting, er jeg gerði fyrirvara um. Það var ofurlítið meira traust, sem jeg vildi sína hæstv. landsstjórn, heldur en flokksbræður hennar. Þessari till., að hafa frestinn ári skemri en frv. segir, var skotið að mjer af vitrum Framsóknarmanni, og af því að jeg sá rjettmæti hennar, bar jeg hana fram.

Jeg vænti, að hæstv. forseti taki mjer það ekki illa upp, þótt jeg hnýti hjer við örstuttri aths. Hæstv. forsrh. sagði, að jeg skyldi aldrei þurfa að brýna hann í gengismálinu. En það vil jeg nú gera. Jeg eggja hann lögeggjan að bera fram verðfestingar frv. og leggja það við, að hann týni engu fyrir nema lífinu, ef frv. gengur ekki fram, — jeg á auðvitað aðeins við stjórnmálalíf hæstv. forsrh.