14.02.1928
Neðri deild: 22. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1398 í B-deild Alþingistíðinda. (431)

6. mál, laun embættismanna

Lárus Helgason:

Jeg mótmæli því, að málið sje tekið út af dagskrá vegna þeirrar brtt., sem fram er komin. Málið er svo einfalt og sanngjarnt, að enga nefndarathugun þarf til að sjá, hversu sjálfsagt er að það gangi fram. Ef sami þingmaður kemur hjer dag eftir dag og heimtar svo einföld mál sem þetta tekin af dagskrá, þá má búast við, að þingið verði nokkuð langt, ef altaf er orðið við þeim óskum. Vænti jeg því, að hæstv. forseti verði ekki við tilmælunum um að taka málið út. Allir, sem talað hafa, hafa viðurkent, að prestar úti um sveitir eigi við mjög erfiðan efnahag að etja. Till. fer fram á að bæta ofurlítið úr þessu, og sje jeg enga þörf á, að nefnd þurfi að velta því fyrir sjer.