14.02.1928
Neðri deild: 22. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1402 í B-deild Alþingistíðinda. (438)

6. mál, laun embættismanna

Pjetur Ottesen:

Það ætti varla að þykja tiltökumál, þótt þingdm. fyndu ástæðu til að segja örfá orð, þegar allir fjhn.-menn hafa nú talað, sumir 4 eða 5 sinnum, og með því þverbrotið öll þingsköp og venjur. Jafnvel hafa flestir nefndarmenn gert sig að framsögumönnum, eða tekið sjer framsögumannarjett.

Jeg hefi litið svo á þetta nál, að hið eina, sem gerlegt væri, væri að samþykkja eins og nú stendur á stjfrv. óbreytt og breyta ekki grundvelli launalaganna að þessu sinni í einu eða neinu. Mjög háværar raddir hafa heyrst frá ýmsum embættismönnum um launabætur, og jeg býst við, að þeir þykist geta fært gild rök fyrir máli sínu. En það eru margir, sem hafa ástæðu til að kvarta undan bágum kjörum. –Hæstv. ráðh., — hv. þm. str. (TrÞ) á jeg víst að segja, því að hann hefir nú gert skilnað á ýmsum mismunandi persónum í sjálfum sjer og skilið forsætisráðherrann eftir heima, — já, hv. þm. er nú að minni hyggju að leiða asnann inn í herbúðirnar, með því að bera fram till. um breytingar á launalögunum. Mjer er nú ekki kunnugt um, að fyrir liggi neinar kröfur frá sveitaprestum um launahækkun, en hinsvegar hefir starfsmannasambandið hjer í bæ kvartað mjög ákveðið. Samþykt þessarar brtt. hlýtur því að leiða af sjer það, að yfir þingið fellur stríður straumur af ótal tillögum um breytingar á launalögunum. Þá er hætt við, að út um þúfur fari sá góði ásetningur hæstv. stj., að afgreiða málið aðeins í þeirri mynd að framlengja dýrtíðaruppbótina.

Um rjettmæti brtt. hv. þm. str. út af fyrir sig verð jeg að líta svo á, sem jeg gerði 1919, þegar launalögin voru samþykt. Jeg álít sem sje, að sá munur, sem gerður er á sveitaprestum og öðrum, sje fyllilega rjettmætur. Raunar er mismunurinn minni nú en þá, vegna þeirra breytinga, sem gerðar voru á þessum ákvæðum fyrir tveim árum. — Það er e. t. v. rjett, sem sumir segja, að sveitabúskapur sje erfiðari nú en hann var fyrir nokkrum árum, en jeg vil benda á, að þetta kemur ekki niður á prestunum einum. Það kemur alveg eins niður á bændunum alment, sem eiga að borga brúsann, ef nú verða hækkuð laun sveitaprestanna.

Það er nær altaf svo, að prestunum eru lagðar til bestu jarðirnar í bygðarlaginu. Þegar kirkja og konungsvald voru að sölsa undir sig jarðeignirnar, þá sleiktu þau víðast rjómann ofan af. Á þeim rjóma lifa prestarnir enn. Auk þess er fyrirkomulagið á því, hvernig afgjöldin eru metin, þannig, að eftirgjaldið er mjög lágt hjá prestunum og lægra en alment gerist í sveitum. Í því hlýt jeg að telja allmikla launabót handa sveitaprestum. Hv. þm. N.-Ísf. benti á dæmi, þar sem þetta kom greinilega fram. Jeg gæti bætt við dæmi, sem jeg þekki, um prest, sem að lögum ætti að vera sveitaprestur, en hefir heldur kosið sjer það hlutskifti að búa í kaupstað. Hann hefir upp úr prestsetursjörðinni margfaldar tekjur við það, sem honum er reiknað eftirgjald hennar upp í launin.

Hv. þm. str. (TrÞ) var að tala um lækna og sýslumenn, sem búsettir væru í sveit. En þessir menn verða vitanlega að sjá sjer fyrir jarðnæði sjálfir á þann hátt, sem bændur alment verða að gera. Og auk þess er það svo um störf lækna að minsta kosti, að það er ekki sambærilegt, hvaða tíma þeir hafa til að sinna búskap eða prestar.

Þar sem verið var að tala um það mikla ranglæti hjá þeim, sem afgreiddu launalögin frá 1919, þá vildi jeg upplýsa um ástæðurnar, sem lágu til grundvallar fyrir þeirri skipun, sem þá var upp tekin að því er snertir presta í sveit. Það hefir verið ýmsu blandað inn í þessar umræður hjer, meðal annars því, hvernig gengi til á fundum hjá fjhn., þó að slíkt sjeu venjulega einkamál, og einnig einu stórmáli, sem sje gengismálinu. Jeg ætla ekki að fara að ræða gengismálið hjer; en út af því, að það kom fram fyrirspurn — jeg held frá hv. 1. þm. Reykv. — um það, hvort gengisnefnd gerði nokkuð, þá vildi jeg gjarnan fá að vita, hvort svo væri. Og það er meðal annars af því, hvað gengisnefndin 1926 hafði ótrúlega rífleg laun, að minsta kosti miðað við sinn starfstíma. Þeir hafa 1800 kr. á ári. (Forsrh. TrÞ: 900 kr. nú, áður 1800. — ÓTh: Þeir höfðu 400 kr. um klukkutímann; jeg hefi reiknað það! — Forseti (hringir): Ekki samtal!) Ekki var nú svo langt gengið, en þeir hjeldu 11 fundi, sem hver stóð yfir í klukkutíma, svo þá eru það um 164 kr. um tímann. Er nú ekki ástæða til að spyrja, hvaða gagn hafi orðið að svo vel borguðum störfum?