14.02.1928
Neðri deild: 22. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1405 í B-deild Alþingistíðinda. (439)

6. mál, laun embættismanna

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ræða hv. þm. Borgf. (PO) var í því frábrugðin öðrum ræðum nú, að hún snerist nálega öll um það, sem hjer liggur fyrir, nema nokkur spaugsyrði seinast.

Hv. þm. gat þess, að jeg hefði leitt asnann inn í herbúðirnar með þessari till. Það er nú svo. Yfirleitt, þegar komið er með brtt., þá gefa þær tilefni til umræðna. En jeg álít rjett að rekja þetta lengra. Þeir, sem hafa leitt asnann inn í herbúðirnar, eru þeir, sem eiga upptök að því að setja einn flokk embættismanna lægri en aðra, hafa látið lægst launa þeim embættismönnum í sveit, sem hafa minstar aukatekjur.

Hv. þm. (PO) mintist á það, að það lægi ekki fyrir krafa frá sveitaprestum, heldur frá ýmsum öðrum embættismönnum. Getur rjett verið. En það er ekki altaf víst, að þeir, sem eru háværastir að heimta, þeir sjeu verst settir. (PO: Jeg sagði ekkert um það). Jeg veit það, en hv. þm. bar það fram sem ástæðu, að ekki lægi fyrir nein krafa. En jeg vil minna á það, að þeir, sem eru aðallega að berja sjer, búa í kauptúnum, þar sem þeir njóta óteljandi þæginda, en hinir í sveitinni verða að neita sjer um marga hluti.

Eitt af því, er hv. þm. Borgf. tók sem dæmi máli sínu til stuðnings, var það, að prestar, sem búsettir væru í kauptúnum, hefðu getað leigt prestssetrið fyrir allmiklu meira en það er metið. En þetta dæmi um presta í kauptúni á hreint ekki við mína tillögu, þó að dæmið geti verið rjett. (PO: Má jeg skjóta inn í? Jeg talaði um þetta í sambandi við það, að það væru hlunnindi að búa á prestssetrum). Já, en hv. þm. veit, að það á að fara að endurskoða þetta mat, og á því að vera lokið 1930.

Loks kom hv. þm. með þá ástæðu, að ekki væri sambærilegur tími, sem læknar hefðu til þess að sinna búskap eða prestar. Hvers vegna? Af því að þeir eru að sinna sínum aukaverkum, sem þeir fá sjerstaka borgun fyrir. Það hækkar þeirra tekjur. Það má því ekki refsa prestunum tvöfalt, láta þá fá lægri laun vegna þess að þeir hafi minni aukatekjur.

Um gengismálið er það að segja, að jeg hefi ekki gefið tilefni til að blanda því inn í umræðurnar. Formaður gengisnefndar er hjer staddur og þrír menn aðrir, sem geta svarað, ef þeim finst ástæða til þess.