20.01.1928
Neðri deild: 2. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

Kosning fastanefnda

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg mótmæli mjög eindregið þeirri aðdróttun, sem lá í orðum hv. 1. þm. Reykv. (MJ) í garð Framsóknarflokksins. Mjer þykir mjög undarlegt, að slík aðdróttun skuli koma fram. Hjer er föst regla í þinginu, að hvert smámál sje athugað í nefnd, — ekki einni, heldur tveimur. Þegar nú svo alvarlegt mál kemur fram í fyrsta sinni, að atriði í kosningu liggur undir sakamálsákæru, þá er það heill stjórnmálaflokkur, sem vill gefa frest og láta þingið ákveða, hvernig það eigi að snúa sjer í þessu máli og hvaða fordæmi það eigi að gefa. Og að bregða honum þá um misbeitingu á sínu valdi álít jeg alveg ósæmilega aðdróttun hjá hv. 1. þm. Reykv.

Nú vil jeg benda á, að það, sem við eigum að gera út um, er þetta tvent, hvort það er þýðingarmeira, að Íhaldsflokkurinn ásamt hv. þm. Dal. (SE) fái þrjú sæti í nefndinni, eða að þingið dragist um jafnmarga daga eins og drættinum munar að skipa í nefndina. Jeg álít, að Íhaldsflokkurinn hafi hingað til haft svo röskum mönnum á að skipa í fjvn., að þótt þeir væru ekki nema tveir, hafi þeir verið fullkomlega færir um að halda á sínum málstað. Undir engum kringumstæðum geta þeir náð meiri hluta í nefndinni. Þess vegna skiftir það mjög litlu, hvort þeir eru tveir eða þrír. Hitt skiftir miklu, að byrja ekki á því að gera sjer leik að því að lengja þingið.