14.02.1928
Neðri deild: 22. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1409 í B-deild Alþingistíðinda. (443)

6. mál, laun embættismanna

Sigurður Eggerz:

Nú þykir mjer ekki vera farið að gera þessu máli embættismanna hátt undir höfði á Alþingi, þegar fyrst og fremst er lagt á móti því af hæstv. forsrh., að það megi athuga í nefnd, og þegar þar að auki kemur till. um að skera niður umr. um málið.

Jeg hefi fært rök að því, hvað mikil ósanngirni ræður hjer, með því að benda á það, að hæstv. stjórn hjelt fram við nefndina, að hún ætlaðist til, að málið yrði samþ. óbreytt; en svo við síðustu umr. þessa máls kemur till. frá stjórninni sjálfri um það að breyta grundvellinum undir dýrtíðaruppbótinni. Og þá till. vill stj. ekki, að nefnd fái að athuga, og deildin vill heldur ekki, að þm. fái að tala um málið. Þetta er svo mikil harðstjórn, svo mikil ósanngirni, svo mikil misbeiting á meirihlutavaldinu, að jeg stend hjer upp til þess að mótmæla slíkum aðförum.