14.02.1928
Neðri deild: 22. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1409 í B-deild Alþingistíðinda. (444)

6. mál, laun embættismanna

Magnús Jónsson:

Jeg vil taka undir það, sem hv. þm. Dal. sagði nú. Mjer finst það dálítið hart, þegar byrjað er að ræða um það, hvort þessari till. eigi að vísa í nefnd, og þegar byrjað er að tala um málið sjálft yfirleitt, þá skuli koma till. um að skera niður umræður. Maður getur sagt, að það sje búið að tala í tvo tíma fyrir utan málið, að undanskilinni framsöguræðunni. En síðustu tvær ræðurnar hafa snúist um þessa till., en þá þjóta þm. upp og samþ. að skera niður umr., úr því að farið er að tala um málið.

Annars finst mjer það sannast að segja ákaflega hart að leggjast á móti jafnsjálfsögðu atriði eins og því, þegar menn úr nefnd óska eftir að fá að athuga mál betur. Ef á að standa á móti því, að menn fái að athuga mál betur, þá verður að sýna fram á, að það sje eitthvert gerræði í óskinni, að það sje verið að reyna að eyðileggja málið eða því um líkt.

Annars verð jeg að segja, að jeg ætlaði að tala um málið sjálft, úr því að örvænt er um, að það fáist betur athugað í nefnd, en mjer þykir ákaflega leiðinlegt að halda ræðu, þegar búið er að taka fyrir munninn á öllum, sem vilja andmæla. Það er tekið með annari hendinni, sem veitt er með hinni, þegar einum er gefið málfrelsi. (LH: Það er búið að tala svo mikið um þetta mál). Já, fyr á þingum, en löngum tíma er ekki búið að verja í umr. um slíkt stórmál á þessu þingi, aðeins á aðra klukkustund, og er langt frá, að nokkurt málþóf sje enn orðið.

Hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) kom með það sem ástæðu á móti því að rjetta þannig hag sveitaprestanna, að þeir hefðu margir tekjur af því að leigja jarðir sínar dýrara en þær eru metnar, og ýmsir þeirra hefðu einnig vel upp úr búskapnum. Jeg skal ekki neita, að þeim búnist sumum svo vel, að verulegar tekjur sjeu að. En það er svo um ýmsa embættismenn í kaupstað — án þess að jeg ætli að fara að halda fram, að þeir eigi nein sældarkjör —, að fjölmennið skapar þeim ýmsa möguleika fyrir aukatekjum. En þeir, sem í sveit lifa, hafa ljelega aðstöðu til þess, að fráteknu þessu eina, búskapnum. Og þar sem hv. þm. Barð. mintist á, að prestar gætu haft upp úr kenslu, ef þeir nentu því, þá þykir mjer skjóta nokkuð skökku við, ef það eru forrjettindi fyrir sveitapresta að taka nemendur á heimili sín til kenslu, forrjettindi miðað við þá, sem búa í kaupstað og geta kannske fengið tímakenslu við skóla eða annað slíkt.

Mjer finst einmitt, að búskapurinn og það, að þeim eru metnar jarðirnar eitthvað lægra en alment gerist, það sje bara til þess að bæta upp þann aðstöðumismun þeirra, sem í sveit búa og kaupstað.

Þá sagði sami hv. þm. (HK), að aldrei væri hægt að gera við, þótt einstöku prestar hefðu fengið afardýran bústofn og eigi því erfitt með að hafa upp úr búum sínum. Þetta er satt. En úr því að aðstaða margra sveitapresta er nú svo slæm, þá er farið fram á aðeins að refsa þeim ekki fyrir, með því að bæta þeim ekki launin Það er eins og háttv. þm. Mýr. (BÁ) sagði, að ýmsir prestar þurfi uppbótina fyrir það, að þeir eru svo að segja neyddir út í búskap, sem þeir bíða svo tjón af. Og jeg er þakklátur honum og hv. þm. V.-Sk. (LH) fyrir, hve vel þeir hafa lagt til þessa máls; og jeg þekki um þann síðarnefnda, að hann mun hafa áður fylgt þessu sama sanngirnismáli hjer á þingi.

Það, sem mjer finst það harðasta í þessu, er yfirleitt ekki sjálfir peningarnir, — ekki er um svo mikla upphæð að ræða —, heldur er það hitt, að einmitt þessir embættismenn, er hafa öldum saman gert öll kjör sveitamanna að sínum kjörum, þolað með þeim súrt og sætt og komist af með því að setja sínar kröfur niður, — þeir þurfi að búa við það ranglæti að mega ekki fá hlutfallslega uppbót á sín lágu embættislaun. Jeg hygg það sje ekki drengilegt að nota sjer það, þó að þeir sjeu ekki vanir að gera eins háar kröfur og sumir aðrir embættismenn. Jeg ætla nú ekki að fara að halda því fram — (PO: Þm. er óhætt að halda fram hverju sem er; það fær enginn að svara!). Já, jeg ætla þess vegna að vera áreitnislaus við þessa hv. þm., þeir mega vera vissir um það. (HK: Ekki tek jeg þetta illa upp hjá hv. þm.). Jeg greiddi atkv. móti því að skera niður umr.; vildi jeg miklu heldur tala skarpara og að hægt væri að svara mjer.

Hv. þm. Borgf. og hv. þm. Barð. voru að tala um, hve hættulegt væri að samþ. þessa till., af því að heill straumur af brtt. gæti þá eftir farið. Jeg vil spyrja: Hvað hindrar það, að þessi straumur komi inn hvort sem er? Þegar mál eru til umr., — hvað er það, sem varnar mönnum að koma með brtt. sínar? Málið er ekki opnað einum þumlungi meira, þótt þessi brtt. hæstv. forsrh. yrði samþ. Og það verður að taka á öllum þeim sömu meðulum, eftir sem áður, þó að þessi till. yrði feld, til þess að halda þessum straum úti, sem menn óttast.

Hv. þm. Borgf. sagði líka, að ef búskapur bæri sig svo illa hjá prestum, þá sýndi það, að búskapurinn hjá bændum yfirleitt væri slæmur, og þess vegna væri ekki hægt að leggja á þá þessi auknu gjöld. Mjer dettur ekki í hug að halda, að allir bændur sjeu svo ósannsögulir, að þeirra sögur um erfiðleika sína sjeu rangar; en það er aðgætandi, að það eru ekki einungis bændur, sem eiga að borgar þessar 10 þús. kr., eða hvað það nú yrði, heldur yrðu meðal annars prestarnir að borga það sjálfir. Það er því ekki farið fram á að leggja aukin gjöld á bændur fram yfir presta. Þeir eiga sjálfir að borga sinn hlut í þessari launahækkun. (LH: Allir landsmenn. — PO: Munurinn er sá, að bændurnir fá bara að borga, en prestarnir njóta). Allir borga aðeins, nema þessir fáu sveitaprestar. Jeg býst við, að jeg fengi að borga minn part og mundi ekki sjá eftir því frekar en öðru, sem hægt er að heimta með fullri sanngirni til opinberra mála.

Vegna þess, hvernig á stendur, ætla jeg ekki að ræða meira um þetta, býst enda við, að menn sjeu orðnir leiðir á umr., fyrst þeir hafa skorið þær niður.

Mjer fanst það sláandi, sem háttv þm. Borgf. sagði seinast, að sveitaprestar hefðu valið sjer þetta hlutskifti. En jeg álít það mikið ólán, ef Alþingi vill með því að svifta þá, nokkru af þeim tekjum, sem þeim ber, og með þeirri ósanngirni, sem þeim er sýnd, neyða sveitapresta til að bregða búi og flytja í kaupstaðarholurnar hingað og þangað umhverfis landið.