11.02.1928
Neðri deild: 20. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1428 í B-deild Alþingistíðinda. (482)

14. mál, hjúalög

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Nefndin hefir orðið sammála um að mæla með frv. með fáeinum breytingum, ekki stórum. Þegar núgildandi vinnuhjúatilskipun var sett árið 1866, voru tímar og staðhættir mjög ólíkir því, sem nú er. Það er því sannarlega engin furða, þó að þau lög, sem þá voru sett, eigi ekki lengur við. Jeg skal nefna sem dæmi, að þá var vistarbandið í gildi, svo að þeir, sem ekki voru sjálfir húsráðendur, urðu að vera í vistum. Var mjög erfitt að fá undanþágu frá þessu, enda voru flestir, sem hjá öðrum unnu, árshjú. Nú er þetta gerbreytt. Vistarbandið er afnumið. Einu leifarnar, sem eftir eru af því, eru það, að fólki er ætlað að kaupa sjer lausamenskubrjef. En það ákvæði hefir ekkert gildi lengur, því hver, sem vill, gerist lausamaður án þess að kaupa leyfisbrjef til þess. Árshjú eru því mjög fá. Fólkið er venjulega ráðið til stutts tíma, oft til missiris. Það orkar því ekki tvímælis, að það lagafrv., sem hjer liggur fyrir, er í meira samræmi við tímann en löggjöfin frá 1866.

Jeg geri ráð fyrir, að hv. þdm. hafi gert sjer þetta ljóst, og skal jeg því ekki fara nánar út í það.

Af nýmælum frv. skal jeg aðeins nefna fátt eitt. Í því er svo ákveðið, að vinnuhjúaskildagar skuli vera tveir, haust og vor. Gilda lögin þá um það fólk, sem ráðið er til hálfs árs. Hefir það nokkra þýðingu, því að eftir núgildandi lögum hefir það fólk, sem ekki er í ársvist, engin þau rjettindi, sem vinnuhjúum eru ætluð.

Rjetturinn til framfærslu vegna veikinda yfirfærist eftir frv. á hjú, sem ráðin eru til hálfs árs.

Í ýmsum öðrum greinum eru mannúðarlegri ákvæði en áður. T. d. er svo ákveðið í 19. gr., að ekki megi hindra hjú í kaupstað frá því að sækja kvöldskóla, svo framarlega sem hjúið hefir ekki með samningi skuldbundið sig til þess að vinna einhver ákveðin störf á þeim tíma, þegar kenslan fer fram.

Um breytingar þær, sem nefndin hefir gert, er fátt að segja. Það eru mest orðabreytingar og raska í litlu efni frv. Jeg skal fyrst minnast á breytinguna við 16. gr. Þar er ákvæðið um, ef endurgreiðsla af opinberu fje á sjer stað til húsbænda vegna veikinda vinnuhjús. Í frv. er ekkert tekið fram um það, hvers eðlis greiðslan sje. En nefndinni þótti rjett að taka það fram, að hana beri að skoða sem sveitarstyrk, veittan hjúinu, og leiðir þá af því, að dvalarsveitin á rjett til endurgreiðslu frá framfærslusveit hjúsins.

Í frv. eru sumstaðar ákvæði, sem eru hliðstæð ákvæðum í öðrum lögum. Nefndin hefir viljað komast hjá því, að svo þyrfti að vera, og talið rjettara að vísa aðeins til þeirra laga, en sleppa þeim ákvæðum úr frv. Á einum stað hefir hún gert tillögu um, að í stað þess að taka fram um hvernig fara skuli að, ef hjú á kröfu í þrotabúi, sje vísað í skiftalögin. Um afskifti sveitarstjórnar af hjúi væri einnig æskilegt að vísa í fátækralögin. En það er ekki hægt, því að þau lög taka aðeins til árshjúa. Í þess stað verður því að taka ákvæði um það efni upp í þetta frv. og nema tilsvarandi greinar fátækralaganna úr gildi. Að lokum vil jeg geta þess, að þar sem stendur í 33. gr. frv., að þau mál, sem þar eru nefnd, heyri undir lögreglurjett, þótti nefndinni rjett að taka það fram, hverskonar lögreglurjett átt væri við. Taldi hún því heppilegra að kveða svo á, að þau skyldu vera almenn lögreglumál. Sje jeg svo ekki ástæðu til að fjölyrða meir um frv.