24.01.1928
Neðri deild: 5. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í B-deild Alþingistíðinda. (49)

1. mál, fjárlög 1929

Magnús Jónsson:

Jeg vildi gjarnan gera eina litla fyrirspurn til hæstv. fjmrh. (MK). Í frv. því til breytingar á stjórnarskránni, sem samþykt var á Alþingi í fyrra og nú hefir verið lagt fyrir á ný af hæstv. stjórn, er gert ráð fyrir, að þetta þing setji fjárlög til tveggja ára, ef svo fer, að stjórnarskrárbreytingin nær samþykki Alþingis. Jeg heyrði það nú ekki í ræðu hæstv. ráðh., hvort stjórnin hefir undirbúið málið svo, að á þessu þingi verði unt að setja fjárlög til tveggja ára. Jeg býst ekki við, að háttv. fjvn. geti gengið frá fjárlagafrv. fyrir 1930 á þessu þingi, nema það hafi verið vel undirbúið af stjórnarinnar hálfu, síst ef hún á að flýta mjög störfum sínum, svo sem heyra mátti á hæstv. ráðh. — Af þessum ástæðum vil jeg spyrja hæstv. fjmrh., hvort hann hefir látið fram fara undirbúning þann, sem þarf til þess, að nú verði sett fjárlög fyrir tvö ár.

Jeg er að vísu ekki í fjvn., og má því kannske segja, að mjer komi málið ekki við, en mig langar til að vita, á hvern hátt hæstv. ráðh. (MK) hugsar sjer, að nefndin geti lokið störfum sínum svo fljótt að þessu sinni. Það gæti hugsast, að þau áform, sem höfð eru í huga í því efni, sjeu þess eðlis, að enginn þm. megi láta þau afskiftalaus. Það má alls ekki eiga sjer stað, að nefndin sje látin flaustra af störfum sínum, t. d. með því að lesa ekki þær umsóknir um fjárbeiðnir, er henni kunna að berast.

Jeg ætla annars ekki að fara langt út í ræðu hæstv. fjmrh. Mjer fanst hann segja margt mjög vel, en jeg get þó ekki látið því ómótmælt, sem mjer virtist koma fram hjá honum, að of fljótt hefði verið látið undan kröfum atvinnuveganna um að ljetta af þeim nokkru af sköttunum. Jeg vil sterklega andmæla þessu, enda játaði hæstv. ráðh. sjálfur, að atvinnuvegirnir eru ekki vel staddir, og að þess er full nauðsyn, að þeir sjeu ekki reknir með tekjuhalla. Ef það er nauðsynlegt að auka tekjur ríkissjóðs, sem vel má vera, þá verður að finna einhverjar aðrar leiðir til þess en að þyngja byrðarnar á atvinnuvegunum.