02.03.1928
Efri deild: 37. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1432 í B-deild Alþingistíðinda. (492)

14. mál, hjúalög

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Frv. þetta var lagt fyrir háttv. neðri deild, og hefir því verið athugað af allshn. þeirrar deildar. Voru þar gerðar á því lítilsháttar breytingar. Allshn. þessarar deildar hefir nú athugað frumvarpið og leggur til, að það verði samþykt óbreytt. Að vísu telur hún, að það geti orkað tvímælis, hvort orðalag þess sje alstaðar sem heppilegast, en telur samt ekki ástæðu til að fara að hrekja frv. á milli deilda fyrir þær sakir.

Þess skal getið, að frv. þetta er fram komið vegna þál., sem samþykt var á síðasta þingi, þar sem skorað var á stjórnina að undirbúa löggjöf um þetta efni fyrir þetta þing, með því að gildandi hjúalöggjöf væri orðin mjög gömul.

Á þinginu 1923 kom fram frv. um þetta efni, en náði ekki fram að ganga. Er nú frv. það, sem hjer liggur fyrir, að mestu leyti samhljóða því. Virðist mál þetta því vera orðið sæmilega vel undirbúið, og telur nefndin því rjett, að það nái fram að ganga.