28.02.1928
Efri deild: 34. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1436 í B-deild Alþingistíðinda. (506)

20. mál, eftirlit með verksmiðjum og vélum

Frsm. (Jón Þorláksson):

Allshn. hefir nú eiginlega að öllu leyti fallist á þetta frv., en ber þó fram, eftir nákvæma athugun, nokkrar brtt. á þskj. 297, sem eru þó að mestu leyti orðabreytingar aðeins. Jeg skal nefna þær helstu af þessum brtt.

Það er í fyrsta lagi lagt til, að 1. gr. verði orðuð um og sett í greinina sjálfa það, sem nú stendur í aths. við frv.: að þau fyrirtæki skuli geta orðið eftirlitsskyld eftir lögunum, þar sem þrír menn hið fæsta vinna að jafnaði; í frvgr. er óákveðnara orð, nefnilega „nokkrir“. Að öðru leyti hefir bæði á þessum stað og öðrum verið vikið við orðalagi.

Við 2. grein leggjum við til, að í staðinn fyrir „iðju“ komi „vinnu“; er sú orðabreyting bygð á því, að orðið iðja hefir fengið nokkuð sjerstaka merkingu í lagamáli með löggjöf síðustu ára, en hefir hjer víðtæka merkingu.

3. og 4. brtt. er orðabreyting einungis.

Þá er 5. brtt., við 6. gr. Það er í rauninni líka orðabreyting, um loftræsting í vinnustofum. Það stendur svo í frv., að það skuli vera loftræsting til þess að veita hreinu lofti inn. Loftræsting getur líka verið með öðru móti og jafngóð, þannig að veitt er út spiltu lofti. Viljum við orða það þannig, að hvora aðferðina mætti nota, eftir því sem á stendur.

6. brtt. er aðeins málsleiðrjetting. 7. brtt. sömuleiðis.

8. brtt. er um það að fella burt tilvísun til núgildandi laga um raforkuvirkjun, en setja þar í staðinn „gildandi lögum um raforkuvirkjun“, þannig að farið verði eftir gildandi lögum á hverjum tíma.

9. brtt. er málslögun, að dómi nefndarinnar.

10. brtt., við 13. gr., má kannske skoða sem efnisbreytingu, en hún er algerlega í samræmi við það, sem hreyft er í athugasemdunum við frv., sem sje að undanþiggja eftirlitsskyldu eimkatla með lágþrýsting, sem notaðir eru einungis til hitunar á íbúðarhúsum. Það er að vísu ekki mikið um það nú orðið, að eimkatlar sjeu notaðir til þess, heldur mest vatnskatlar; en þar, sem eimkatlar kynnu að vera notaðir í þessu skyni, mundu þeir venjulegast aðeins hirtir af heimafólki, og það er ekki meiri hætta af slíkum eldfærum en hverri eldstó sem er; sýnist því ástæðalaust að láta þá katla falla inn undir eftirlitsskyldu.

11. brtt., við 15. gr., er aðeins til skýringar.

12. brtt. er aðeins orðabreyting til skýringar. sömuleiðis 13. brtt.

En um 14. og síðustu brtt., sem fer fram á, að lögin gangi í gildi 1. júlí, í staðinn fyrir 1. október, hefir nefndin það að segja, að henni er að vísu ljóst, að það er ýmislegt viðvíkjandi framkvæmd þessara laga, sem verður að bíða bæði þangað til reglugerðir hafa verið settar og skoðunarmenn skipaðir. En nefndinni fanst ekki ástæða til þess að draga það til 1. okt., að lögin sjálf gengju í gildi, heldur taldi hún rjettara, að það yrði nú þegar 1. júlí, til þess að þá mætti gera það, er gera má til undirbúnings á framkvæmd laganna. Að öðru leyti eru slík lög náttúrlega nokkurt aðhald fyrir alla þá, sem hafa með höndum fyrirtæki, sem eftirlitsskyld verða, um það, að brjóta ekki í bága við reglur laganna, þegar þau eru komin í gildi. Einnig út frá þessu sjónarmiði þótti nefndinni rjett að bera fram þessa brtt.