24.01.1928
Neðri deild: 5. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í B-deild Alþingistíðinda. (51)

1. mál, fjárlög 1929

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg vil aðeins geta þess í sambandi við fyrirspurn háttv. 1. þm. Reykv. (MJ), að stjórnarskrárbreytingin var til umræðu í hv. Ed. fyrir hálftíma og var þar vísað til sjerstakrar nefndar. Jeg óskaði þess sjerstaklega, að nefndin lyki fljótt störfum sínum, einmitt með tilliti til þess ákvæðis, er hv: 1. þm. Reykv. talaði um. Enda var málið þrautrætt í fyrra, og ætti því ekki að þurfa að taka mjög langan tíma að þessu sinni.

Annars vil jeg minna á það, að þótt ekki sjeu liðnir nema 5 dagar af þinginu, þá hafa nú þegar verið gerðar tvær tilraunir af hálfu íhaldsmanna til þess að lengja þingtímann. Í annað skiftið var hv. 1. þm. Reykv. (MJ) að vísu einn undanskilinn, sællar minningar, er flokksbræður hans vildu fresta að kjósa fjvn. og lengja þingið að sama skapi. En nú reynir hann að bæta úr því með að kvarta undan, að hæstv. fjmrh. (MK) fer fram á, að nefndin ljúki sem fyrst störfum sínum og vinni sem haganlegast. Og það er í góðu samræmi við þetta, að hv. 1. þm. Reykv. bregður frá hinni gömlu venju, sem nú hefir haldist um fjölda ára, og byrjar ræðuhöld við fyrri hluta 1. umr. fjárlagafrv. En jeg veit, að meðal þjóðarinrar mun þetta ekki mælast betur fyrir en það, þegar núv. formaður Íhaldsflokksins sagði um stjórn, sem hann var í andstöðu við, að hún ætti ekki skilið að fá tekjuhallalaus fjárlög.