28.01.1928
Neðri deild: 8. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1441 í B-deild Alþingistíðinda. (514)

27. mál, bændaskóli

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það væri freistandi í sambandi við þetta mál að fara út í sögu búnaðarskólanna og búnaðarskólamálsins hjer á Alþingi. Sú saga er allmerkileg og stendur í nánu sambandi við strauma þá, er voru með þjóðinni á síðustu öld. En bæði er, að slíkt mun ekki algengt á Alþ., og svo hitt, að vegna hinnar löngu umr. í gær eru hjer fáir þm. viðstaddir, svo að jeg mun aðeins rifja upp helstu atriðin úr sögu búnaðarskólanna hjer á landi.

Eins og allir vita, eru nú nálega 50 ár síðan fyrsti búnaðarskólinn var stofnaður, í Ólafsdal. Hitt vita færri, að saga búnaðarskólanna á Alþ. er nærri 30 árum eldri. Árið 1853 er fyrst vakið máls á því, að stofnaður verði jarðræktar- og búnaðarskóli, og var þm. Suður-Þingeyinga fyrsti frsm. búnaðarmálanna. Á Alþ. 1855, '59, '63 og '71 var búnaðarskólamálið einnig flutt og oft af miklu kappi, en það strandaði altaf á því sama og aðrar framkvæmdir á þeim tíma; stjórnin neitaði að leggja fram það fje, er til þurfti. Var þá reynt að fá ýmsa sjóði til þess að leggja fram fje, svo sem Thorkilliisjóðinn og kollektusjóðinn, en búnaðarskólarnir voru ekki settir á stofn, fyr en Alþ. bauð að leggja sjerstakt gjald á allar jarðir á landinu til þess að hægt væri að hrinda máli þessu í framkvæmd.

Á grundvelli tilskipunarinnar frá 2. febr. 1882 eru svo allir 4 búnaðarskólarnir stofnaðir, hver í sínu amti. Elstur er skólinn í Ólafsdal, þá Hólaskóli, Eiðaskóli og Hvanneyrarskólinn yngstur.

Starfa þeir allir í samvinnu við amtið til 1902, eftir gamla fyrirkomulaginu. Árið 1902 keypti Torfi Bjarnason skólann í Ólafsdal og rak hann síðan til 1907. Hólaskóli starfar til 1902 eftir gamla fyrirkomulaginu, Eiðaskólinn til 1918 og Hvanneyrarskóli til 1907. Allir voru skólarnir stofnaðir á árunum 1880–'90 og um aldamótin hafa þeir allir lifað sitt fegursta. Eru þá sjóðir allir orðnir uppjetnir, aðsókn orðin lítil að skólunum og komin almenn óánægja um skipulag þeirra. Árið 1902 gengst Páll Briem fyrir breytingu á skipulagi skólanna, og varð sú breyting síðar fyrirmynd bændaskólalaganna frá 1905. Með þeirri breytingu, sem þá varð, var búnaðarskólunum breytt í bændaskóla og urðu nú tveir í stað fjögurra. Nú er aðaláherslan lögð á hið bóklega, en minna á hið verklega.

Eftirtektarvert er það, að nálega engin rödd heyrðist á Alþ. móti aðalbreytingunum, sem voru: að auka bóklega kenslu í stað hinnar verklegu og að hætta við opinberan rekstur. Aðaldeilan stóð um það, er flytja átti skólann frá Hólum, og urðu menn ekki á eitt sáttir um staðinn. Hver hugur manna var á þingi, kemur best í ljós í ræðu frsm. Sigurðar Stefánssonar í Ed. Breyting þessi var svo framkvæmd fyrir 20 árum og á grundvelli láganna 1905 hafa tveir bændaskólar starfað síðan.

En nú er skoðun manna aftur breytt. Vilja nú flestir hverfa að gamla fyrirkomulaginu, þykir of lítil verkleg kensla og heimta opinberan rekstur — einmitt hið sama og hætt var við fyrir 20 árum síðan. Jafnframt dæma menn bændaskólana hart og telja þá hafa borið lítinn árangur.

Jeg vil leyfa mjer að taka það fram, þótt jeg beri fram þetta frv., að jeg er ekki algerlega sammála þessum röddum. sjerstaklega get jeg ekki tekið undir það, að bændaskólarnir hafi verið til lítils gagns. Jeg er kunnugur svo að segja um land alt, og víða eru það einmitt hinir ungu búfræðingar, sem útskrifast hafa af bændaskólunum, er verða helstu framtaksmennirnir heima í sínu hjeraði. Jeg get heldur ekki fallist á að gera jafnstóra breytingu og gerð var 1905 og hverfa algerlega að því gamla. Fyrir mitt leyti vil jeg koma með þá till. að gera breytingu á öðrum bændaskólanum, einkum þar sem aðsókn að þeim skóla hefir verið lítil undanfarið og nú mun losna skólastjóraembættið. Aftur á móti finst mjer ekki tími kominn til þess að breyta báðum skólunum, en tel nóg að gera breytingu á öðrum þeirra fyrst og sjá, hvernig hún gefst. Í þeim anda er frv. þetta fram borið. Annars er mjer form þess ekki fast í hendi, og er jeg reiðubúinn til samvinnu bæði við hv. landbn. og hverja þá, er vilja endurvekja hinn gamla Hólaskóla á þessum grundvelli. — Ef það mark næst, liggur mjer í ljettu rúmi, hvort farin verður þessi leið til þess eða önnur.

Að svo mæltu legg jeg til, að málinu verði vísað til landbn.