28.01.1928
Neðri deild: 8. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1447 í B-deild Alþingistíðinda. (516)

27. mál, bændaskóli

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg þarf ekki að segja nema örfá orð til að svara hv. 2. þm. Skagf. Hann vjek fyrst að a-lið 1. gr., um að setja á stofn undirbúningsdeild við skólann á Hólum. Það er rjett til getið hjá honum, að þetta er gert til þess að hafa betri not af starfskröftum skólans, meðan hann er svo lítið sóttur sem nú er. Jeg álít, að ef aðrar þær breytingar, sem fyrirhugaðar eru, koma að fullu gagni og verða til þess, að aðsóknin eykst að skólanum, þá verði undirbúningsdeildin að víkja. Hinsvegar er það rangt, að þetta geri það að verkum, að ekki verði nema 1½ bændaskóli í landinu. Þessi undirbúningsdeild á á engan hátt að draga úr Hólaskóla sem bændaskóla, heldur á aðeins að bæta henni við skólann, ef rúm og aðstaða leyfir. Annars var það sjerstakt tilefni, sem olli því, að þessi heimild var sett í frv., sem sagt merkileg grein um skólann á Hólum, sem nýlega birtist á prenti.

Jeg get að öllu verulegu leyti tekið undir það með hv. þm., að í mjer er uggur við það að fara að reka skólabúið fyrir opinbert fje. Er það vegna þeirrar reynslu, sem fengin er, og eins er jeg ekki sammála þeim mönnum, sem álíta, að það geti verið fyrirmyndarbú, sem þannig eru rekin, að þau bera sig ekki. Þar á móti verður mjög erfitt að koma við verklegu námi, ef búið á að vera í einstaks manns höndum og rekið fyrir hans reikning, en ef háttv. landbn. getur fundið einhverja leið til þess, að það megi takast, þá mun jeg verða henni þakklátur.

Jeg vil upplýsa, að breytingar þær, sem talað er um á kennaraliðinu, standa í nánu sambandi við 1. lið 1. gr. Ef undirbúningsdeildin verður stofnuð, þá er nauðsynlegt að hafa einn kennara vegna hennar sjerstaklega. Annars get jeg sagt, að þessu er ekki stefnt að neinum sjerstökum kennara.