20.02.1928
Neðri deild: 27. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1450 í B-deild Alþingistíðinda. (519)

27. mál, bændaskóli

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg get verið hv. nefnd þakklátur fyrir afgreiðslu þessa máls. Að minsta kosti þrjú veruleg atriði hefir hún orðið stjórninni sammála um. Vil jeg þar fyrst og fremst nefna aukningu verklegs náms við annan bændaskólann og það, að skólabúið megi reka fyrir opinberan reikning. Jeg hefi ekkert að athuga við það, sem nefndin stingur þar upp á. Jeg get að vísu gjarnan sagt, að ef hægt er að ná því marki, sem stefnt er að, án þess að skólabúið sje rekið fyrir opinberan reikning, tel jeg það mjög æskilegt. En ef ekki fæst annað, verður að gera tilraun til opinbers búrekstrar. Einnig hefir hv. nefnd fallist á að hafa þetta alt í heimildarlagaformi. Það er gert út frá þeim forsendum, eins og aðrar tillögur hv. nefndar, að mál þetta verði endurskoðað í milliþinganefnd. Loks er nefndin stjórninni sammála um að láta það nægja í bili, að þessi ákvæði nái til þess skólans, sem laus er á næsta vori. Þess hefir verið getið í sambandi við annað mál, að við eigum að láta okkur nægja að gera tilraunir með annan skólann, bæði af því, að tækifærið kemur nú upp í hendurnar á okkur, og auk þess eru ekki nema um 20 ár síðan breytt var fyrirkomulagi skólanna.

Um þessi atriði er nefndin stjórninni sammála. Aftur á móti hefir nefndin ekki getað fallist á það, að undirbúningsdeild skólans veiti almenna lýðfræðslu. Eins og jeg sagði við fyrri umr. þessa máls, er d.-liður settur í samband við a.-lið, þannig að ef a.-liður fellur, þá fellur d.-liður líka. Jeg skal ekki gera þetta að neinu kappsmáli. Þessarar heimildar var leitað af því, að skólinn hefir verið svo lítt sóttur. stjórnin vildi koma í veg fyrir, að hús og kenslukraftar væri látið að miklu eða einhverju leyti ónotað. Ef það kemur í ljós, að sú breyting, sem nefndin vill gera, hafi það í för með sjer, að skólinn verði vel sóttur, þá er engin ástæða til að veita þessa heimild, enda hefði hún þá ekki verið notuð. En jeg er hræddur um, að sú breyting ýti ekki mikið undir aðsókn að skólanum. Þess vegna greiði jeg atkvæði á móti brtt. nefndarinnar.