20.02.1928
Neðri deild: 27. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1457 í B-deild Alþingistíðinda. (524)

27. mál, bændaskóli

Bjarni Ásgeirsson:

Mjer þykir leitt, að hv. landbn. hefir ekki getað tekið frv. okkar hv. 2. þm. Skagf. (JS) á þskj. 114 til greina. En þar sem þetta mál liggur nú fyrir milliþinganefnd til endurskoðunar, þá get jeg þó, eftir atvikum, sætt mig við það, að málið bíði eitt ár enn eftir endanlegri úrlausn. En þó tekur mig sárt til þess, að eitt atriðið, aukin jarðyrkjukensla, getur ekki komist strax til framkvæmda. Það er áreiðanlega ekki í samræmi við áhuga manna á því máli, bæði hjer á þingi og úti um alt land, að svo getur ekki orðið. Því áreiðanlega telja flestir það undirstöðu aukinnar ræktunar, að hert verði á jarðræktarnámi. Jeg held nú ekki, að það hefði valdið stórri röskun nje komið í bága við framtíðarskipulag þessara mála, þó jarðyrkjunámstími nemenda við bændaskólana hefði verið aukinn upp í 8 vikur. Nú sem stendur eru það 6 vikur, svo ekki vantar nema herslumuninn. Býst jeg við að koma fram með brtt. í þá átt til 3. umr. — Annars býst jeg við að greiða atkv. með þessu frv. að sinni, í þeirri von, að næsta Alþingi hepnist að binda heppilegan enda á þessi mál.