20.02.1928
Neðri deild: 27. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1458 í B-deild Alþingistíðinda. (525)

27. mál, bændaskóli

Pjetur Ottesen:

Hæstv. atvmrh. taldi, að mikið mætti leggja upp úr meðferð hv. landbn. í þessu máli, þar sem meiri hl. milliþinganefndarinnar í landbúnaðarmálum ætti sæti í henni. Jeg veit ekki, hvort hæstv. ráðherra hefir átt við það, að vilji milliþinganefndarinnar kæmi þannig fram, að sýnilegt væri, að hún, eða meiri hluti hennar, væri hlynt ríkisrekstri á skólabúunum. Þetta er eiginlega hið eina, sem hefir þýðingu í þessu sambandi. En jeg veit ekki, hvort hæstv. atvmrh. hefir skilið það svo. Hæstv. ráðherra virðist hafa áhuga fyrir aukningu á verklegu námi og leggur áherslu á það. Jeg get verið honum sammála um það. En jeg held, að ekki sje miklu glatað, þó sú breyting bíði eitt ár enn. Það hefir hvort sem er beðið lengur.

Mjer heyrðist hæstv. atvmrh. ekki vera fjarlægur því að ganga inn á það að nota ekki þessa heimild um ríkisrekstur á skólabúinu næsta ár. En sje svo, þá er ekki um neinn ávinning að ræða með samþykt þessa frv. Þá má eins samþykkja þá rökstuddu dagskrá, sem jeg hefi borið fram. Verður þá málið væntanlega afgreitt af milliþinganefndinni fyrir næsta þing og þá tekin fullnaðarákvörðun um málið.