22.02.1928
Neðri deild: 29. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1469 í B-deild Alþingistíðinda. (536)

27. mál, bændaskóli

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það eru aðeins örfá orð út af brtt. á þskj. 267. Mjer þykir það nokkuð þröngur skór, sem eldri deild Hólaskóla er sniðinn með þessari brtt., þar sem sagt er í henni: „enda fái þeir einir inngöngu í eldri deild skólans, sem lokið hafa 8 vikna jarðyrkjunámi“. Mjer finst þetta nokkuð langt gengið, þegar tekið er tillit til þess, hve aðsókn að skólanum hefir verið lítil. Ef aðsókn eykst ekki að honum, má jafnvel búast við, að ekki verði nema 3–4 piltar í eldri deild hans á ári hverju. Hví má ekki nota hús og kenslukrafta, sem til eru á Hólum? Jeg vil því leyfa mjer að bera fram svo hljóðandi skriflega brtt., sem jeg óska, að komi til atkvæða hjer í hv. deild, ef afbrigði fást: „Fyrir orðin „enda fái þeir einir“ komi: enda sitji þeir fyrir.

Jeg get tekið það til dæmis, að hv. þm. Mýr. sótti um inngöngu í eldri deild Hvanneyrarskóla. Hann hafði ekki lokið 8 vikna jarðyrkjunámi. En hvað er á móti því, að hann fái inntöku, ef nóg rúm er fyrir hann?

Jeg get gengið inn á þá hugsun, sem liggur til grundvallar þessari brtt., en mjer finst tilgangi hv. flm. fyllilega náð með þessari skriflegu brtt. minni.

Jeg afhendi hjer með hæstv. forseta brtt. og óska, sem sagt, að hún verði borin undir atkvæði, ef afbrigði fást.