22.02.1928
Neðri deild: 29. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1478 í B-deild Alþingistíðinda. (544)

27. mál, bændaskóli

Magnús Guðmundsson:

Hæstv. forsrh. sagðist hafa búist við brtt. frá mjer viðvíkjandi rekstri skólanna. En jeg ætlaði að láta yfirlýsingu hans nægja, og þar sem hann við 2. umr. að fyrra bragði talaði um að svara, fæ jeg ekki sjeð, að ósanngjarnt hafi verið að ganga eftir svarinu. Og jeg skal taka það fram, að mjer kemur ekki til hugar að rengja, að hann standi við það, sem hann segir.

Nú er jeg búinn að fá það svar, sem jeg ætlaðist til. Hæstv. forsrh. segist vera persónulega á móti því, að skólinn sje rekinn af ríkinu. spurningin er þá bara, hvort hann lætur stjórn Búnaðarfjelagsins beygja sig. Þó að í frv. standi, að stj. heimilist í samráði við Búnaðarfjelagið o. s. frv., þá þýðir það engan veginn, að hæstv. ráðh. sje skylt að fara eftir því, sem stjórn Búnaðarfjelagsins leggur til. Jeg viðurkenni þó, að skeggið er skylt hökunni, þar sem hæstv. forsrh. er og verður form. Búnaðarfjelagsins, svo að hann kemur til með að ráðgast við sjálfan sig um þetta. En þó nú að hæstv. forsrh. hafi látið uppi þessa skoðun sína, held jeg, að jeg verði að greiða atkv. með dagskrártill. hv. þm. Borgf. Einmitt vegna þess, að út fyrir lítur, að skólastjórastaðan á Hólum losni á næsta ári, virðist auðsætt, að ekki eigi að ráðstafa embættinu til langframa, heldur að setja mann í bili, á meðan verið er að gera út um framtíðarskipulag búnaðarskólanna.

Það er annars álitamál, hvort ekki eigi að taka málið út af dagskrá, þar sem brtt. var ekki útbýtt fyr en á fundinum og þm. hafa ekki fengið tækifæri til að athuga þær. Út af c-lið frv. vil jeg geta þess, að mjer finst óþarfi að gefa í skyn, að kennaralið skólans sje svo skipað, að breyta þurfi um, þó að upp sje tekin ný kensluaðferð. Mjer skilst, að alþýðufræðslu eigi að veita í skólanum eftir sem áður. Ætti því c-liður frv. að falla niður.